Stundum fær maður á tilfinninguna að þeir sem hafa verið valdir í það hlutverk að gæta hagsmuna okkar í æðstu stöðum samfélagins séu að reyna að afvegaleiða okkur.
Undanfarið hefur það náð svo langt að þeir virðast vera meðvitað að rugla í manni. Á ensku er talað um að framkvæma „mindfuck“ á fólki. Í „mindfucking“ felst að brengla markvisst veruleika annars fólks með misvísandi skilaboðum til að hamla vitsmunalegri getu þess til að taka afstöðu og skynsamlegar ákvarðanir.
Undanfarna mánuði höfum við þurft að sitja reglulega undir fjölmiðlaumfjöllun og útskýringum frá þeim sem sinna æðstu hlutverkum samfélagsins um það hvers vegna þeir ætla ekki að standa við kosningaloforð sitt um að þjóðin ákveði í beinni kosningu hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram.
Ómögulegt, en ekki ómögulegt
Fyrir nokkru kom síðan í ljós að þetta væri allt misskilningur hjá okkur. ESB-umsóknin hefur verið afturkölluð, en þeir gerðu það ekki, hún hætti sjálf, og þjóðaratkvæðagreiðsla vegna ákvörðunarinnar getur alveg orðið þótt ákvörðunin hafi verið tekin án hennar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur talað um það oftar en einu sinni hvers vegna hann vill ekki lengur að þjóðin komi að ákvörðuninni. Í síðustu viku var hann hins vegar gagnrýndur á Alþingi og svaraði eins og ekkert hefði gerst: „Við getum líka rætt um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu, það hefur aldrei verið slegið út af borðinu.“
„Það hefur aldrei verið slegið út af borðinu.“
En hann sagði fyrir ári síðan og hefur endurtekið það síðan að þetta verði ekki vegna þess að það sé ómögulegt. „Ég get ekki fyllilega staðið við það að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við höldum áfram viðræðum við Evrópusambandið þar sem það er pólitískur ómöguleiki til staðar,“ útskýrði hann í febrúar 2014, þegar það kom endanlega í ljós eftir vangaveltur að hann ætlaði ekki að standa við þetta.
Þjóðin komi að stórum ákvörðunum, en samt ekki
Í Morgunblaðinu sagði Bjarni skýrt að Ísland væri ekki lengur í aðildarviðræðum: „Það sem er farið fram á af hálfu okkar er að Ísland verði ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki.“ Spurður hvort umsóknin hefði verið afturkölluð sagði Bjarni: „Þetta jafngildir því“. Við erum því hætt í aðildarviðræðum, án þess að vera spurð sem þjóð, en samt er hann alls ekkert hættur við að spyrja okkur að því.
Á Alþingi sagði hann síðan: „Ég hef aldrei dregið til baka þá skoðun mína að þjóðin eigi að koma að stórum ákvörðunum.“ Samt ákvað hann að taka ákvörðunina án þess að þjóðin kæmi að henni, jafnvel þótt hann hefði lofað því.
„Er fólk mætt á Austurvöll til að mótmæla stjórnvöldum?“
„Er fólk mætt á Austurvöll eins og það gerði reglulega á síðasta kjörtímabili til að mótmæla stjórnvöldum vegna aðgerðaleysis í skuldavandanum?“ spurði hann í sömu umræðu, hneykslaður á síðustu ríkisstjórn. Nei, en fimm þúsund manns mættu á Austurvöll til að mótmæla svikum hans um þjóðaratkvæðagreiðslu í vikunni áður.
Þrátt fyrir að stæra sig af þeirri skoðun sinni að þjóðin ætti að koma að stórum ákvörðunum hrósaði Bjarni sér af máli þar sem hann gerði hið gagnstæða. Í stjórnarskrármálinu hefur þjóðin nú þegar verið spurð í þjóðartakvæðagreiðslu þar sem samþykkt var með góðum meirihluta að taka upp nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs.
„Stefna ríkisstjórnarinnar í stjórnarskrármálinu er mun líklegri til að skapa sátt en það upplausnarástand sem boðið var upp á af fyrri ríkisstjórn. Það eru staðreyndir máls.“
Það er svo mikil sátt að þegar formaður stjórnarskrárnefndarinnar, sem hann og félagar hans skipuðu, hætti síðasta haust, sagði hann ólíklegt að breytingar yrðu gerðar á stjórnarskránni (þótt þjóðin hefði ákveðið það). Síðustu fréttir af málinu hófust á orðunum: „Litlar líkur eru á að samkomulag náist um tillögur í stjórnarskrárnefnd um breytingar á stjórnarskránni.“
Sáttin er því ákvörðun hans, og flokksins sem áður hafði sett nýja stjórnarskrá stjórnlagaþings að skilyrði fyrir stuðningi minnihlutastjórnar, að hunsa vilja þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012. Samt segist Bjarni aldrei hafa dregið til baka skoðun sína að þjóðin eigi að koma að stórum ákvörðunum. Eina leiðin til að skilja þetta er að það skipti hann ekki hvert álit þjóðarinnar er þegar hún kemur að stórum ákvörðunum.
Mistúlkun þjóðarviljans
Bjarni útskýrði á Alþingi hvernig hann væri að gera það sem þjóðin vill. „Evrópusambandsmálið. Stefna ríkisstjórnarinnar er í samræmi við vilja um 70% kjósenda sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið.“
Þótt skoðanakannanir, eins og sú sem Capacent gerði í byrjun mars, sýni að 55% landsmanna vilji ekki ganga í ESB, vilja bara 36% draga umsóknina til baka. Meirihluti er ósammála ákvörðun Bjarna og vill ekki að viðræðurnar séu afturkallaðar.
Það stóð alltaf til að þjóðin tæki ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var Bjarni sjálfur sem vakti máls á möguleikanum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræðurnar sjálfar. Hann lofaði því að þjóðin fengi að ákveða sérstaklega, ef hann yrði kosinn, hvort aðildarviðræður væru kláraðar eða ekki. Þjóðin segir í skoðanakönnunum að hún vilji það, en hann ákveður að þjóðin vilji það ekki, byggt á annarri spurningu. Hann veit muninn, en ákveður að rugla fólk.
Viðræðurnar bæði dregnar til baka og ekki
Viðræðurnar við ESB eru ýmist hættar eða ekki. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í Morgunblaðinu að aðildarumsóknin hefði ekki verið dregin til baka, þótt Bjarni Benediktsson segir þetta jafngilda afturköllun. „Ég hef ekki sent neitt bréf þar sem fram kemur að einhverju sé rift eða það dregið til baka. Það er ljóst að lengra verður ekki haldið.“ Á fundi utanríkismálanefndar Alþingis, sem samkkvæmt lögum á að koma að stórum ákvörðunum í utanríkismálum, notaði hann það orðalag að viðræðuferlið hefði verið „núllstillt“. „Það eru engar viðræður í gangi,“ sagði hann síðan við Stöð 2. Og kom því á framfæri við Evrópusambandið að Ísland væri ekki lengur í aðildarviðræðum. „Það sem meginmáli skiptir er að með bréfi ríkisstjórnarinnar hefur endapunkturinn verið settur aftan við umsóknarferli sem gangsett var.“
„Þannig að umsóknin var ekki dregin til baka, hún sökk“
Eftir bréfið þar sem kom fram að Gunnar Bragi vildi ekki að Ísland væri lengur umsækjandi útskýrði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra: „Þannig að umsóknin var ekki dregin til baka, hún sökk“.
Sigmundur Davíð var spurður út í óánægju með ákvörðun ríkisstjórnarinnar að slíta viðræðum án þess að spyrja þjóðina, í viðtali við Stöð 2. „Ég hugsa að þjóðin vilji hafa aðkomu að málinu sjálf,“ sagði hann.
„Ég hugsa að þjóðin vilji hafa aðkomu að málinu sjálf“
En það sem hann meinti var að þjóðin væri óánægð vegna þess að hún vildi hafa haft aðkomu að málinu áður en hann komst til valda. Sem sagt vildi þjóðin aðkomu að málinu áður en hann lofaði að þjóðin myndi hafa aðkomu að málinu.
Eitt mesta „mindfuck“ Íslandssögunnar
63% þjóðarinnar eru ósátt við framgöngu Gunnars Braga í málinu, en 24% sátt, samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í Fréttablaðinu. Sigmundur útskýrir það þannig: „Það gerist nú ýmislegt skrýtið í Fréttablaðsskoðanakönnunum en það er önnur saga.“
Ísland er sem sagt ekki lengur í aðildarviðræðum við ESB, en þótt því hafi verið lofað að íslenska þjóðin tæki ákvörðun um það beint, er það alls ekki þannig að íslenska þjóðin geti ekki tekið ákvörðun um málið beint, eins og þeir lofuðu. Jafnframt vill þjóðin þetta, þótt hún svari öðru í skoðanakönnunum. Og þótt þúsundir mótmæli, er allavega ekki verið að mótmæla skuldavandanum.
Þetta lítur út fyrir að vera eitt mesta „mindfuck“ Íslandssögunnar. Markmið þeirra virðist vera að sem flest okkar skiljum hvorki upp né niður í málinu og áttum okkur ekki á því að þeir sviku loforð í einu allra mikilvægasta máli þjóðarinnar. Á sama tíma vilja þeir að við trúum því þegar þeir segjast ennþá ætla að láta þjóðina ráða í mikilvægustu málum þjóðarinnar, þótt reyndin sé önnur.
Það eitt og sér sýnir hvaða viðhorf þeir, sem við treystum fyrir hagsmunum okkar, hafa gagnvart okkur. Í því skiptir engu máli hvort við viljum aðild að ESB eða ekki, eða nýja stjórnarskrá eða ekki.
Sigmundur Davíð hefur oft haldið því fram í ræðum að forsenda framfara sé að við trúum á framtíð Íslands - að við séum vandamál Íslands þegar við gagnrýnum. Hvernig er hægt að trúa á framtíð Íslands þegar fulltrúar okkar í æðstu stöðum beita öllu sínu til að rugla fólk?
Athugasemdir