Drög að frumvarpi um lengingu á fæðingarorlofi úr 9 mánuðum í 12 hefur verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda. Lengingin mun koma til framkvæmda í tveimur áföngum, annars vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2020 og hins vegar vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2021 eða síðar.
Áætlað er að heildarkostnaður við lengingu um einn mánuð árið 2020 nemi um 1,7 milljörðum króna. Lenging orlofsins um tvo mánuði vegna barna á árinu 2021 mun kosta 3,2 millarða króna samkvæmt áætlun. Samtals mun kostnaður á tímabilinu 2020 til 2022 nema 4,9 milljörðum króna.
Gert var ráð fyrir lengingunni í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Einnig skuldbundu stjórnvöld sig til að lengja samanlagðan rétt foreldra til orlofs í tengslum við kjarasamninga í vor. Kostnaðurinn var áætlaður í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2020 til 2024.
Í frumvarpinu segir að samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar hafi mæður nýtt sér sameiginlegan rétt foreldra til orlofs í ríkari mæli en feður. Ekki er því gert ráð fyrir að fyrri áfangi lengingarinnar muni hafa áhrif á nýtingu mæðra. „Er þannig gert ráð fyrir að mæður muni að jafnaði áfram nýta sex mánuði af samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs líkt og verið hefur,“ segir í frumvarpinu. „Hins vegar er gert ráð fyrir að fæðingarorlof feðra verði lengra en verið hefur fram til þessa við gildistöku þessa fyrsta áfanga við lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs og er miðað við 33% fjölgun daga hjá feðrum í því sambandi. Er þannig gert ráð fyrir að fyrsti áfanginn við lengingu á samanlögðum rétti foreldra til fæðingarorlofs muni hafa meiri áhrif á lengd fæðingarorlofs feðra en mæðra.“
Í síðasta tölublaði Stundarinnar var rætt við sex manns sem lentu á milli skips og bryggju hjá Fæðingarorlofssjóði vegna óhefðbundinna aðstæðna þeirra. Þær geta valdið því að foreldri fái mun lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en búist var við eða missi jafnvel réttindi sín alfarið. Verktakar, starfsmenn nýsköpunarfyrirtækja og fólk í eigin rekstri eru meðal þeirra sem geta lent í þeirri stöðu. Foreldrarnir lýstu því hvernig reglur sjóðsins hefðu valdið þeim áhyggjum ofan á allt annað sem fylgir barneignum.
Samkvæmt stefnu ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks munu hámarksgreiðslur í orlofi einnig verða hækkaðar, en þær eru nú 600 þúsund krónur á mánuði. Aðrar breytingar bíða þess að nýr starfshópur um heildarendurskoðun laganna skili niðurstöðu.
Athugasemdir