Útgerðarfélagið Samherji hefur afskrifað meira en helming af kröfum sínum á hendur eignarhaldsfélagi Eyþórs Arnalds, fjárfestis og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, vegna hlutabréfaviðskipta í Morgunblaðinu árið 2017. Út frá ársreikningum þeirra félaga sem eiga í hlut í viðskiptunum er ljóst að Eyþór Arnalds, eða eignarhaldsfélag hans, munu aldrei borga Samherja þá fjármuni sem ársreikningar félags hans sýna að hann hafi skuldbundið sig til að greiða fyrir hlutabréfin í Morgunblaðinu.
Þetta kemur fram í ársreikningum eignarhaldsfélags Eyþórs, Ramses II ehf., sem og ársreikningnum Samherjafélaganna, Kaldbaki ehf. og Kattarnefi ehf.
Viðskiptin líta, með öðrum orðum, út fyrir að hafa verið sýndarviðskipti þar sem Samherji vildi losna við hlutabréf í Morgunblaðinu og eignarhaldsfélag Eyþórs tók við þessum hlutabréfum án þess að hafa greitt eða muni greiða fyrir þau. Viðskiptin hafa frá upphafi virkað glórulítil út frá viðskiptalegu sjónarmiði þar sem uppsafnað tap Morgunblaðsins síðastliðin áratug, frá uppkaupum nokkurra stæstu útgerðarfélaga landsins á því, nemur um 2 milljörðum króna.
Athugasemdir