34 mál hafa komið upp hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári þar sem grunur er um kaup á vændi. Á sama tíma í fyrra höfðu komið upp sex sambærileg mál. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Miðað er við dagsetningu brots í þessum málum, en oft koma þau til afgreiðslu löngu eftir að brot var framið. Á árinu 2017 komu upp 29 mál þar sem grunur var um kaup á vændi á starfssvæði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en árið 2018 voru þau aðeins níu, sé miðað við dagsetningu brota.
Árið 2017 voru greiddar sektir í níu málum. Ekkert málanna fór í ákærumeðferð, en þrjú þeirra eru enn til rannsóknar. Af þeim sem komu upp árið 2018 voru greiddar sektir í tveimur málum, eitt fór til ákærumeðferðar og þrjú mál eru enn til rannsóknar. Í svari lögreglunnar kom einnig fram að á árunum 2010 til 2018 hefðu 96% sakborninga í málunum verið með íslenskt ríkisfang.
Athugasemdir