„Ein nótt enn. 20. apríl.
Skrýtið hversu margt fer í gegnum huga manns og hjarta dagana fyrir dauðann. En það er ekki hægt að skrifa um það. Um það eru ekki til orð.”
Aðfaranótt 20. apríl arkar Kristín Gerður Guðmundsdóttir um gólf í íbúðinni þar sem hún býr á Óðinsgötu, í gömlu múrklæddu timburhúsi, falið í bakgarði í miðbæ Reykjavíkur. Það er myrkur úti en hún getur ekki sofið, er full angistar og ótta, skelfingu lostin yfir því sem koma skal.
Í sex ár hefur hún verið í bata frá fíkniefnaneyslu og barist við að skapa sér betra líf. En sama hversu mikið hún reynir, hversu harða baráttu hún heyir, er hún alltaf dregin aftur niður í myrkrið. Djöflar fortíðarinnar sleppa tökunum ekki svo auðveldlega. Hún er orðin veik og úrkula vonar.
Kristín Gerður reynir að róa taugarnar með því að skrifa hugsanir sínar niður í dagbók. Í huga hennar eru aðeins þrír valkostir í þessari stöðu og enginn þeirra góður; að lifa með geðveiki, falla aftur í fíkniefnaneyslu eða deyja. Hún hefur ákveðið að deyja.
Hún ákallar guð og englana, ef þeir eru til, biður þá um að vera hjá sér og passa upp á að hún rati til þeirra, að þeir leyfi henni að fá frið – ást og bros á vör. Hún útskýrir að hún hafi ekki val, hún verði að deyja og biður þá um að hjálpa sér. Henni finnst erfitt að deyja ein, helst hefði hún viljað hafa sína nánustu hjá sér, að þeir gætu haldið í hönd hennar og veitt henni styrk. En hún getur ekki beðið um það, þess í stað hefur hún forðast samskipti við þá síðustu daga. Það er of erfitt að halda andlitinu gagnvart þeim og tala við þá þegar henni líður svona, þegar hún ein veit hvað er í vændum. Með sínum hætti hefur hún þó reynt að kveðja.
20. apríl rennur upp, klukkan er orðin eitt. „Nú þarf ég að sýna meiri styrk og hugrekki en ég hef nokkru sinni þurft að gera. Það er nótt.“
Athugasemdir