Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, segist ekki skilja hvers vegna kvenfrelsissinnar séu mótfallnir því að konur stundi vændi. Lýsir hann vændi sem „atvinnutækifæri“ fyrir konur og hvetur til umburðarlyndis gagnvart því svo lengi sem hvergi er „nein nauðung á ferð“.
„Mér er ekki alveg ljóst, hvers vegna kvenfrelsissinnar eru á móti því, að konur noti þetta atvinnutækifæri“
„Aðalatriðið um vændi er, hvort upplýst samþykki beggja liggi fyrir. Ef svo er, þá er auðvitað ekkert á móti því, að þóknun komi fyrir blíðu. Mér er ekki alveg ljóst, hvers vegna kvenfrelsissinnar eru á móti því, að konur noti þetta atvinnutækifæri, sé hvergi nein nauðung á ferð. Er þetta ekki dæmi um, að sumar konur séu á móti öðrum konum, frekar en að konur séu almennt á móti körlum?“ skrifar hann á Facebook-síðu sinni. Hannes Hólmsteinn kennir meðal annars stjórnmálaheimspeki við Háskóla Íslands og er einn áhrifamesti hugmyndafræðingur frjálshyggju á Íslandi. Hann vinnur nú að skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti í íslenska bankahruninu.
Hannes hvetur til þess að siðferðileg álitamál séu skoðuð í ljósi tveggja lögmála eða röksemda sem hann lýsir svo: „1) Ef menn brjóta ekki rétt á öðrum með því að kaupa eða selja vændi, þá eiga aðrir ekki að skipta sér af því. 2) Ef afleiðingarnar af að banna vændi eru verri en afleiðingarnar af þvi að leyfa það, þá getur verið skynsamlegt að leyfa það. Önnur rökin eru réttindarök, hin nytjarök.“
Í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar í dag er fjallað um þau rök sem færð hafa verið með og á móti sænsku leiðinni í vændismálum, sem felur í sér að ólöglegt sé að kaupa vændi og eiga milligöngu um að selja vændi. Þá er fjallað um hin ólíkustu viðbrögð við hugmyndum Amnesty um afglæpavæðingu vændis.
Athugasemdir