Hinn síðastliðinn 12. nóvember birti Jón Bjarki Magnússon grein í Stundinni sem ber titilinn „Leiðtogar Póllands og nýnasistar marséruðu saman um götur Varsjár‘‘. Mig langar að tilkynna að 11. nóvember hélt Lýðveldið Pólland hátíðlega upp á sjálfstæðisdaginn sinn en hátíðarhöldin voru ekki leyfð á meðan landið var undir hernámi þýskra fasista og svo seinna undir valdi kommúnista allt fram til ársins 1989.
Á þessu ári var dagurinn haldinn hátíðlegri, þar sem liðin eru 100 ár frá því að Pólland varð fullvalda ríki eftir að hafa verið ósjálfstætt í 123 ár. Stærstu hátíðarhöld áttu sér stað í Varsjá - borginni sem var algjörlega eyðilögð af fasistum árið 1944. Hátíðarhöldin í formi Sjálfstæðisgöngu skipuðu sérstakan sess í sögu þjóðar, landsins okkar og þessarar kynslóðar. Pólverjar sýndu hér tengingu sína við þjóðina og héldu þannig upp á 100 ára afmæli fullveldisins.
Þess vegna er ég hissa á að höfundur greinar notar orðin ,,nasistar‘‘ og „fasistar“ yfir alla þá sem elska föðurlandið. Hvernig er það mögulegt að í fjölmiðlum lýðræðislega lands - sem Lýðveldið Ísland er, hægt sé að nota frjálslega þess háttar staðhæfingar yfir venjulega borgara og þar með kæra þá um tengingu við þýsku útrýmingarstefnu nasista. Í Póllandi, sem fyrst allra þjóða þann 1. september 1939 þurfti að verjast gegn þýskum fasistum, sem þjáðist svo mikið í seinni heimsstyrjöldinni, sem missti í stríðinu 6 milljónir borgara, þar sem höfuðborgin Varsjá var algjörlega lögð í rúst af fasistum, finnst okkur mjög leitt að heyra þess háttar orðalög. Nú hef ég það hlutverk að þjóna löndum mínum hér á Íslandi og ég sé eftir því að hafa ekki verið viðstaddur þennan dag í Varsjá, þar sem ég mundi örugglega taka þátt í Sjálfstæðisgöngunni. Nú velti ég fyrir mér spurningu hvort blaðið ykkar myndi einnig kalla mig „fasista“ eða „nasista“? Hvort höfundur greinar myndi einnig nota þessi móðgandi orð yfir Sjálfstæðishlaupið sem átti sér stað í Reykjavík á sama degi? (En fyrir utan Pólverja voru einnig íslenskir þátttakendur). Pólland, eins og hvert annað land mun halda upp á sjálfstæði sitt í formi sem það telur að sé viðeigandi og verða hátíðarhöldin alltaf opin öllum borgurum án tillits til pólitískra skoðana. Það sama á við um Ísland sem mun halda upp á 100 ára fullveldi 1. desember og verður það gert í því formi sem það telur að sé viðeigandi.
Aðferðin sem höfundur notar til þess að lýsa Sjálfstæðisgöngunni gefur til kynna að í Varsjá, hefur sprungið upp einhver mikil „þjóðernishreyfing“ en þetta tengist ekki neitt raunveruleikanum. Eftir að hafa lesið greinina virðist að Jón Bjarki Magnússon var á allt öðrum viðburði, fylgdist ekki með göngunni eða að lýsingar hans voru hafðar upp eftir fólki, sem hafði það markmið að lýsa viðburðinum sem birtingarmynd þjóðernisstefnu (t.d. birting ljósmyndar ítalskra aðgerðarsinna úr Forza Nuova sem tekin var árið 2017 í mótmælum í Róm, en var birt í einu blaði sem mynd úr Sjálfstæðisgöngunni í Varsjá 11. nóvember 2018).
Lýsing á svo mikilvægum viðburði með þátttöku um 250 þúsund manns, ætti að vera fagleg en fyrst og fremst hlutlaus og raunveruleg. Því miður er öll greinin frá upphafi til enda, mjög langt frá raunveruleikanum og mætti kalla hana falsfrétt.
Sama á við um ártalið 2010 sem er nefnt í greininni og merkt sem upphaf Sjálfstæðisgöngunnar. Höfundur gæti lesið sér meira til um efnið með tilliti til sögu og komist að því að þegar kommúnistar voru við völdum og lýðnum var bannað að halda upp á þennan hátíðardag, þá fóru Pólverjar samt út á götur (ég gerði það sjálfur sem háskólanemi um 1970, en þá réðst lögreglan á fólk og barði það með kylfum en margir voru lokaðir inni í fangelsi fyrir það að fagna Sjálfstæði Póllands sem þá var ekki sjálfstætt land).
Ef það urðu einhver atvik sl. 11. nóvember sem mætti telja óásættanleg (sem í svona miklum fjölda getur átt sér stað) þá mættu þau strax viðbrögðum lögreglu og þeim sem áttu að þeim þátt var refsað samkvæmt lögum (t.d. atvikið þar sem kveikt var í fána Evrópusambandsins en hinn grunaði var stöðvaður, yfirheyrður og fær refsingu. Samt er ekki útilokað að um ögrun hafi verið að ræða).
„Það er einfalt að eyðileggja þetta, til dæmis með því að nota ástæðulausar ásakanir.“
Það er ekki svo langt síðan að Íslendingar og Pólverjar vissu lítið hverijr um aðra. Nú til dags eru tengsl farin að styrkjast á milli þessara tveggja þjóða. Þúsundir Pólverja búa hér í þessu fallega landi og koma með dýrmætt innskot inn í efnahags- og menningarlega þróun Íslands. Þá vex áhugi á meðal Íslendinga um að heimsækja Pólland og kynnast í mörgum tilfellum landi nágranna sinna – menningu þess, hefðum, náttúru og sögu.
Það er oft erfitt og flókið að búa til tengsl á milli þjóða en ekki síst mjög viðkvæmt. Það er einfalt að eyðileggja þetta, til dæmis með því að nota ástæðulausar ásakanir. Fyrir Pólverja er ekki til meiri móðgun en að vera kallaður „fasisti“ eða „nasisti“. Það hefur blaðið ykkar gert með því að birta grein eftir Jón Bjarka Magnússon. Ég vona að þetta muni ekki valda alvarlegum afleiðingum og muni ekki byggja upp tregðu á milli samlanda okkar. Ég vona einnig að þið munið birta álit mitt á þessu máli og býst við afsökunarbeiðni á hendur landa minna í fjölmiðli ykkar Stundin.
Gerard Pokruszynski, sendiherra Lýðveldisins Póllands á Íslandi.
---
Svar ritstjóra Stundarinnar við umkvörtun sendiherra Póllands til ritstjóra, forseta Íslands og forsætisráðuneytisins 15. nóvember 2018
Helstu fjölmiðlar heims hafa fjallað um samneyti æðstu stjórnvalda í Póllandi við öfgaþjóðernishreyfingar í tengslum við sjálfstæðisgöngu í Varsjá 11. nóvember síðastliðinn. Í grein Stundarinnar var vitnað í umfjallanir BBC, New York Times, og fleiri miðla, og svo birt viðtöl við tvo Pólverja um áhyggjur af því að pólsk stjórnvöld veittu öfgaþjóðernissinnum viðurkenningu með þessu móti.
Sérstök ákvörðun forseta Póllands um að stofna til fjöldagöngu samhliða og samferða göngu öfgaþjóðernissinna hefur þær afleiðingar að í skilningi margra sé verið að samþykkja útlendingahatur og öfgasinnaða hugmyndafræði. Á hinn bóginn má það skilja sem svo, eins og forseti Póllands hefur boðað, að stærri ganga hafi verið tilraun til að sameina þjóðina.
Óháð skilningnum er staðreyndin sú að forseti og forsætisráðherra Póllands kusu að stofna til fjöldagöngu um Varsjá á sömu leið og sama tíma og árlega hefur verið haldin ganga á vegum öfgahópa, þar sem slagorð gegn útlendingum og boðskapur nýfasisma hefur fram að þessu verið áberandi og til umfjöllunar um allan heim.
Hvergi var í frétt Stundarinnar nefnt að skilgreiningin „nýnasisti“ eða „fasisti“ eigi við um „alla þá sem elska föðurlandið“. Fram kom í fréttinni að stærstur hluti þátttakenda í göngunni að þessu sinni hefðu verið almennir borgarar sem ekki væru meðlimir öfgahópa.
Í þjóðhátíðargöngum á Íslandi síðasta sumar bar ekki á boðskap nýfasista, nýnasista eða útlendingaandúð almennt, en ef svo hefði verið, er ljóst að það hefði orðið fréttaefni hér á landi og hugsanlega annars staðar, án þess að það leiddi til þess að samband Íslendinga við aðrar þjóðir myndi skerðast af frásögnin fjölmiðla af því út af fyrir sig.
Vandamál í samskiptum þjóða eru ekki einstakir blaðamenn, eins og sendiherra Póllands vísar hér til, heldur fremur hugmyndafræði útlendingaandúðar, valdasamþjöppunar og öfgaþjóðernishyggju sem hvetur til jaðarsetningar fólks eftir þjóðerni, kynhneigð, trú eða kynþætti, og lamar gagnrýna þjóðfélagsumræðu í nafni þjóðarstolts.
Frétt Stundarinnar hefur verið uppfærð með þeim hætti að hugatakinu „ný-nasistar“ hefur verið skipt út fyrir hugtakið „ný-fasistar“, þótt fjölmörg dæmi séu um að fyrrnefnt hugtak sé notað yfir tiltekna öfgaþjóðernissinna í Póllandi, sem meðal annars afneita því að helförin hafi átt sér stað. Einnig hefur verið bætt við frekari umfjöllun um gönguna, og haldið verður áfram að fjalla um gönguna, um upprisu og stefnu valdaflokksins Laga og réttlætis og þjóðernisstolt í Póllandi í næstu prentútgáfu Stundarinnar.
Þess ber loks að geta að Stundin hefur birt fjölda frétta af veruleika Pólverja sem búa hér á landi. Meðal annars birtust viðtöl við sjö Íslendinga af pólskum uppruna í síðasta tölublaði Stundarinnar, þar sem upplifun þeirra af Íslandi var lýst út frá þeirra sjónarhóli. Stundin hefur þannig lagt áherslu á að gefa Pólverjum á Íslandi rödd og leggja áherslu á að þátttaka þeirra í íslensku samfélagi sé birt, eins og réttmætt er. En umfjöllun Stundarinnar er ekki afstaða íslensku þjóðarinnar, heldur er um að ræða frétt frá einum fjölmiðli í margradda lýðræðissamfélagi.
Athugasemdir