Eigandi fjölmiðilsins Hringbrautar og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins voru stærstu styrktaraðilar stjórnmálaflokksins Viðreisnar á síðasta ári. Alls fékk Viðreisn tæpar 12 milljónir í styrki frá lögaðilum og tæpar 10 milljónir frá einkaaðilum. Þetta kemur fram í ársreikningi Viðreisnar sem Ríkisendurskoðun birti í dag.
Saffron Holding ehf., félag Sigurðar Arngrímssonar, sem á og rekur fjölmiðilinn Hringbraut, styrkti Viðreisn um hámarksupphæð, 400 þúsund krónur. Sigurður styrkti flokkinn um aðrar 400 þúsund krónur á eigin nafni. Helgi Magnússon, fjárfestir og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, styrkti Viðreisn um hámarksupphæð í gegnum félag sitt Varðberg ehf. og um sömu upphæð úr eigin vasa. Eignarhaldsfélag Þórðar Magnússonar, stofnanda Eyrir invest, styrkti einnig um hámarksupphæð.
Eigið fé flokksins neikvætt
Viðreisn hagnaðist um tæpa eina og hálfa milljón á síðasta ári. Skuldir félagsins voru rúmar 10 milljónir króna og eigið fé var neikvætt um tæpar 9 milljónir í árslok. Þingmenn flokksins voru einnig á meðal styrktaraðila, meðal annars Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður, sem styrkti flokkinn sinn um 300 þúsund krónur. Framlög undir 200 þúsund krónum frá einstaklingum námu alls sex og hálfri milljón.
Nokkur félög í sjávarútvegi styrktu einnig Viðreisn. HB Grandi, Síldarvinnslan og Brim styrktu öll um hámarksupphæð. Önnur félög í sjávarútvegi styrktu um lægri upphæð. Þá styrkti eldislaxfyrirtækið Arctic Fish viðreisn um 100 þúsund krónur, en mikið hefur verið fjallað um félagið að undanförnu eftir að rekstrarleyfi þess var afturkallað.
Einnig styrktu nokkur félög í ferðaþjónustu Viðreisn. Þá styrkti Egilsson ehf., sem rekur skrifstofuvöruverslunina A4, um hámarksupphæð. Það sama gerðu Fjárfesting fasteignasala, Kjarnafæði, Samskip, Síminn, Svar tækni ehf. og Kvika banki.
Athugasemdir