Fjármálaráðherra hefur boðið ljósmæðrum 4,21% launahækkun og ef litið er á launataxta á heimasíðu félagsins má áætla að það sé verið að bjóða ljósmæðrum að jafnaði um 20.000 kr. hækkun á mánuði. Þessu hafa þær alfarið hafnað og fjármálaráðherra svarað með því að bjóða einungis breyttar útfærslur á framangreindri hækkun.
Þegar efsta lagið í ríkisstofnunum ásamt þingmönnum og ráðherrum tók sér launahækkanir, sem námu um 30–43% hækkun og eru að jafnaði nálægt 400.000 kr. á mánuði, reis upp gríðarleg reiði meðal launamanna. Þessi hækkun samsvarar því að fjármálaráðherra og kollegarnir í efsta laginu hafa tekið sér 200% hærri launahækkun í krónum talið en almennum starfsmönnum stendur til boða. Fjármálaráðherra hefur undanfarna daga farið í viðtöl við fjölmiðla þar sem hann ber þungar sakir á ljósmæður og segir að þær séu með kröfuhörku sinni að ógna stöðugleikanum á óábyrgan hátt og þær ætli sér að stíga fyrsta skrefið í höfrungahlaupi. Þessar ásakanir fjármálaráðherra eru hreint út sagt ótrúlega ósvífnar, þar sem hann hefur ásamt þingheimi stigið risastórt fyrsta skref í höfrungahlaupinu.
Svikin á Alþingi
Það er ástæða til að halda því til haga að það var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sem kom fyrir hönd þáverandi ríkisstjórnar að gerð SALEK-samkomulagsins. Með því átti að koma í veg fyrir höfrungahlaup og kollsteypur í hagkerfinu. Til þess að þetta tækist náðist samstaða milli aðila vinnumarkaðar og ríkisstjórnar að hækka sérstaklega lægstu laun. Það vill svo einkennilega til að sú hækkun var upp á sömu prósentutölu og efsta lagið tók sér nýverið í gegnum kjararáð. Bjarni hófst hins vegar ásamt þingheimi handa, þegar verkalýðsfélögin höfðu samþykkt að fara SALEK-leiðina, við að breyta barna- og vaxtabótakerfinu og þingheimi tókst þannig að hrifsa til ríkissjóðs allar hækkanir til hinna lægst launuðu. Þannig hefur þingheimur svikið allt sem lofað var af hálfu ríkisvaldsins við gerð SALEK-samkomulagsins.
„Þá er þetta búið“
Í þessu sambandi er ástæða til þess að rifja upp hvað gekk á þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru undirritaðir 1990. Þar voru margir sem töldu að tekin hafi verið mikil áhætta af hálfu launamanna, og minnt á afdrif þjóðarsáttarinnar hinni fyrri 1987. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambandsins, svaraði þessari gagnrýni og sagði í viðtali við Morgunblaðið: „Ef einhver hópur fer að vaða upp í hækkunum fyrir ofan almennt verkafólk, þá er þetta búið. Menn þurfa að átta sig á að það verður að byggjast á gagnkvæmu jafnræði á milli hópa. Það þýðir ekki að keyra áfram einhverja sérhópa upp yfir aðra. Þá er þetta hrunið og það hrynur yfir þá hina sömu.“
„Ekkert fer verr með þá lægst launuðu en verðbólgan.“
Einnig má rifja upp hvað Guðmundur J. sagði við undirritun fyrri þjóðarsáttarsamninganna í mars 1986: „En þótt þessi leið sé ekki með öllu áhættulaus hefði það verið heljarstökk inn í náttmyrkrið að fara gömlu verðbólguleiðina. Því ekkert fer verr með þá lægst launuðu en verðbólgan.“
Strangt eftirlit með hækkunum
Vinnunefndir ASÍ og VSÍ viðhöfðu árin eftir samþykkt þjóðarsáttarinnar strangt eftirlit til að halda aftur af sérhópum sem vildu keyra í gegn launahækkanir umfram það sem heildin hafði samþykkt. Sams konar glímu þurftum við í vinnunefndunum að taka við sveitarfélögin og bankana sem vildu hækka gjaldskrár sínar langt umfram sett viðmið og fengum drengilegan stuðning þáverandi ríkisstjórnar.
Hinn 27. júní 1992 birtist sú frétt í fjölmiðlum að kjaradómur hefði daginn áður tilkynnt að nokkrir hópar æðstu embættismanna ríkisins skyldu fá 30% launahækkun og þar á meðal voru þingmenn. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið að þessi úrskurður kjaradóms „gæti ýft mjög með mönnum í þjóðfélaginu og gert mikinn skaða á landsvísu“ og óskaði eftir endurmati kjaradóms.
Reiði vegna kjaradóms
Við ákvörðun kjaradóms reis upp mikil reiði meðal almennings. Í leiðara Morgunblaðsins 30. júní var fullyrt að næðu niðurstöður kjaradóms fram að ganga myndi launastefna þjóðarsáttarinnar hrynja. Tækju embættismenn við þessum hækkunum gætu þeir ekki gert þær kröfur til almennra launþega að þeir sætti sig við að ákveðnir hópar þjóðfélagsþegna, stjórnendur þjóðarskútunnar, fái margfalt meiri launahækkanir.
Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, sagði um úrskurð kjaradóms: „Þetta er alveg skelfileg niðurstaða og mun að mínu viti stefna öllum efnahagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar í hættu og skapa upplausn á vinnumarkaði, nái þessi dómur fram að ganga. Ríkisvaldið hefur þær skyldur að koma í veg fyrir að dómurinn komi til framkvæmda.“
ASÍ stóð í framhaldi af þessu fyrir útifundi þann 2. júlí á Lækjartorgi þar sem allt að 10 þúsund manns mættu og kröfðust þess að Alþingi yrði kvatt saman þegar í stað. Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, sagði að tveir kostir væru í stöðunni, annaðhvort fengi almennt launafólk tilsvarandi hækkanir eða ákvörðun kjaradóms gengi til baka.
Ríkisstjórnin kölluð saman
Davíð Oddsson kallaði þá ríkisstjórnina til fundar á Þingvöllum að kvöldi 3. júlí og eftir 8 klukkustunda fund voru gefin út bráðabirgðalög um að kjaradómur skyldi kveða upp nýjan úrskurð á forsendum nýrra lagaskilyrða. Nýr úrskurður kom frá kjaradómi 13. júlí þar sem ákveðið var að þeir hópar, sem úrskurðurinn tæki til, myndu hækka í launum um 1,7%, eða eins og samið hafði verið á hinum almenna vinnumarkaði. Þannig væri þeirri hættu afstýrt, að þjóðarsamstaðan um efnahagslegan stöðugleika, sem myndast hefði á undanförnum misserum, splundrist.
Það er töluverður munur á heilindum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og núverandi ríkisstjórnar.
Það er töluverður munur á heilindum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og núverandi ríkisstjórnar. Þau stéttarfélög sem hafa gert kjarasamninga undanfarið hafa öll gert samninga sem renna út í byrjun næsta árs. Allir kjarasamningar stéttarfélaganna á almenna vinnumarkaðinum opnast um næstu áramót. Augljóst er að þá mun fara fram heiftarlegt uppgjör milli launamanna og stjórnmálaelítunnar, næsta örugglega með þeim afleiðingum sem Guðmundur Jaki lýsti í framangreindu viðtali.
Athugasemdir