Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hefur afboðað sig á opinn fund velferðarnefndar Alþingis á mánudaginn. Þetta var nefndinni tilkynnt áðan samkvæmt heimildum Stundarinnar og mun því fundurinn falla niður. Ásmundur sagði í viðtali við RÚV í gær að hann hlakkaði til að mæta á fundinn og fara yfir málið, en framboðsfrestur til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna rennur út á mánudag.
Eins og Stundin greindi frá í gær hefur Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra búið yfir ítarlegum upplýsingum um afskipti Braga Guðbrandssonar af barnaverndarmáli í Hafnarfirði frá 31. janúar 2018.
Líkt og fram kom í umfjöllun blaðsins hlutaðist Bragi til um meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd um leið og hann átti hann ítrekuð samskipti við föður málsaðila, Þjóðkirkjuprest sem er málkunnugur Braga frá því þeir störfuðu báðir við barnaverndarmál.
Samkvæmt þeim gögnum sem Stundin hefur undir höndum fólst í þrýstingi Braga sú krafa að móðir stúlknanna myndi hætta að „hamla umgengni“ þrátt fyrir að barnavernd Hafnarfjarðar hefði ráðlagt henni að halda dætrum sínum í öruggu skjóli frá föður þeirra meðan málið væri rannsakað. Á sama tíma og afskipti Braga áttu sér stað lá tilvísunarbréf barnaverndarnefndarinnar vegna málsins – þar sem farið var fram á rannsóknarviðtöl við stúlkurnar í ljósi sterkra og margvíslegra vísbendinga um að faðirinn hefði beitt þær kynferðisofbeldi – óhreyft í um mánuð í pósthólfi Barnahúss. Barnahús er rekið af Barnaverndarstofu og heyrði þannig óbeint undir Braga Guðbrandsson þegar afskipti hans af málinu fóru fram. Að sögn Braga bilaði jafnframt tölvukerfi Barnahúss um þetta leyti og skilaði tilvísunin sér því ekki, hvorki með stafrænum hætti né í pósti.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi Stundinni frá því í gær að Ásmundur hygðist fara ítarlega yfir málið á fundi nefndarinnar. Þá staðfesti hún að engin gögn um efnislegar niðurstöður velferðarráðuneytisins í kvörtunarmálum barnaverndarnefnda gegn Barnaverndarstofu hefðu verið lögð fyrir ríkisstjórn Íslands þann 23. febrúar þegar samþykkt var að bjóða Braga Guðbrandsson fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Ísland hönd. Umsóknarfresturinn rennur út á mánudaginn, en framboð Braga er hugsað sem eins konar samnorrænt framboð. Hefur Bragi boðið velferðarnefnd að útskýra sína hlið á málinu og segist geta „kollvarpað þeirri mynd“ sem Stundin hafi dregið upp af því.
Uppfært kl. 20:30:
Ákveðið hefur verið að ráðherra mæti á fundinn eins og upphaflega stóð til, en ráðuneytið virðist hafa gefið velferðarnefnd upplýsingar um annað fyrir misskilning eða slysni, sjá frétt Kjarnans.
Athugasemdir