Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Þær kölluðu pabba „úlfinn“

Bragi Guð­brands­son hjá Barna­vernd­ar­stofu beitti sér fyr­ir því að prests­son­ur fengi að um­gang­ast dæt­ur sín­ar sem hann var grun­að­ur um að mis­nota. Ásmund­ur Ein­ar Daða­son fé­lags­mála­ráð­herra vissi allt en hélt mál­inu leyndu fyr­ir Al­þingi.

Bragi Guðbrandsson hjá Barnaverndarstofu og frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, beitti sér fyrir því að ungur maður fengi að umgangast dætur sínar sem hann var grunaður um kynferðisbrot gegn. Um leið og Bragi hlutaðist til um meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd átti hann ítrekuð samskipti við föður mannsins, Þjóðkirkjuprest sem er málkunnugur Braga frá því þeir störfuðu báðir við barnaverndarmál.

Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar tilkynnti föður stúlknanna fyrst til lögreglu árið 2014 þegar í ljós kom að hann var virkur á klámsíðum þar sem hann lét í ljós áhuga á sifjaspelli. Árið 2015 kallaði heimilislæknir til lögreglu eftir læknisskoðun á annarri stúlkunni sem hafði kvartað undan verkjum í klofi. Maðurinn var svo tilkynntur í þriðja sinn í árslok 2016, þá af hálfu meðferðaraðila sem taldi að komið hefðu fram sterkar vísbendingar um kynferðisbrot í viðtölum við stúlkurnar. 

Gögn sem Stundin hefur undir höndum staðfesta að í árslok 2016 og byrjun ársins 2017 átti Bragi Guðbrandsson í stöðugum samskiptum við föðurafa stúlknanna um leið og hann beitti áhrifum sínum sem forstjóri Barnaverndarstofu til að hafa áhrif á framgang málsins hjá barnavernd Hafnarfjarðar.

Af upplýsingunum má ráða að Bragi hafi kennt í brjósti um föðurfjölskylduna vegna alvarlegra veikinda og þess vegna beitt þrýstingi í hennar þágu, en í þrýstingnum fólst sú krafa að móðir stúlknanna myndi hætta að „hamla umgengni“ þrátt fyrir að barnavernd Hafnarfjarðar hefði ráðlagt henni að halda dætrum sínum í öruggu skjóli frá föður þeirra meðan málið væri rannsakað. 

Á sama tíma og afskipti Braga áttu sér stað lá tilvísunarbréf barnaverndarnefndarinnar vegna málsins – þar sem farið var fram á rannsóknarviðtöl við stúlkurnar í ljósi sterkra og margvíslegra vísbendinga um að faðirinn hefði beitt þær kynferðisofbeldi – óhreyft í um mánuð í pósthólfi Barnahúss. Barnahús er rekið af Barnaverndarstofu og heyrði þannig óbeint undir Braga Guðbrandsson þegar afskipti hans af málinu fóru fram. Að sögn Braga bilaði jafnframt tölvukerfi Barnahúss um þetta leyti og skilaði tilvísunin sér því ekki, hvorki með stafrænum hætti né í pósti. 

Þann 4. janúar 2017, þegar liðnir voru 28 dagar frá sendingu tilvísunarbréfsins án þess að Barnahús hefði veitt því viðtöku, hringdi Bragi Guðbrandsson í starfsmann barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar og lýsti efasemdum um að vísa þyrfti málinu til Barnahúss. Þá þrýsti Bragi á starfsmanninn að „tala um fyrir móður“ og reyna að sannfæra hana um að leyfa föðurfjölskyldunni að umgangast stúlkurnar. 

Samkvæmt staðfestum útdrætti af símtalinu sem Stundin hefur undir höndum taldi Bragi óhætt að maðurinn fengi að umgangast dætur sínar í samræmi við umgengnissamning sem gerður var áður en sterkar vísbendingar um kynferðisbrot komu fram. Þegar honum var tjáð að hjá föðurfjölskyldunni hefðu dætur mannsins stundum verið skildar einar eftir hjá föðurnum sagði Bragi að honum þætti „ótrúlegt að ef maðurinn sé raunverulega með pedófílu að hann brjóti á dætrum sínum strax og hann fái að hitta þær“. 

Deilt hefur verið um valdsvið og verklag forstjóra Barnaverndarstofu. Í fyrra kvörtuðu barnaverndarnefndir til velferðarráðuneytisins undan síendurteknum og óeðlilegum afskiptum hans af einstaka málum. Í tilvikinu sem hér er fjallað um liggja fyrir gögn sem benda sterklega til þess að Bragi hafi hlutast til um framgang málsins hjá barnavernd af greiðasemi við fólk sem hann vorkenndi vegna veikinda. 

„Ég skal vera fyrstur manna til að játa að þetta tók á mig. Ég hef alltaf tekið þessi mál inn á mig en passað engu að síður að það stjórni ekki gerðum mínum,“ segir Bragi í samtali við Stundina og bætir því við að hann sé stoltur af framgöngu sinni í umræddu máli. 

„Ég hefði aldrei lagt til eitthvað sem fæli í sér lögbrot eða aðhafst nokkuð sem væri andstætt mínum skyldum. Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði í raun og veru engan áhuga á að vita það.“ 

Þrátt fyrir þetta bað Bragi starfsmann barnaverndar, samkvæmt gögnum málsins, um að greiða fyrir umgengni föðurins og föðurfjölskyldunnar við börnin.

„Ég náttúrlega kannast við
Braga frá því í gamla daga“

Föðurafinn er prestur og hefur sjálfur komið að barnaverndarstörfum. „Ég náttúrlega kannast við Braga frá því í gamla daga,“ segir hann. „Ég hef sjálfur verið formaður barnaverndarnefndar úti á landi. Það var barnaverndarnefnd í litlu sveitarfélagi sem hafði enga burði og enga starfsmenn. Í erfiðum málum leitaði ég til Braga sem ráðgjafa. Ég þekkti hann á þeim tíma, svo ég er málkunnugur honum, en þegar ég hringdi í hann núna hafði ég ekki hitt hann í 20 eða 25 ár. Það er enginn kunnningsskapur milli okkar þannig.“

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra var upplýstur um málsatvik og afskipti Braga Guðbrandssonar af umræddu barnaverndarmáli á fundi í ráðuneytinu í lok janúar 2018. Þrátt fyrir að upplýsingarnar hafi komið á borð ráðherra barnaverndarmála ákvað ríkisstjórnin þann 23. febrúar síðastliðinn að tilnefna Braga Guðbrandsson til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd. 

Hér á eftir verður fjallað ítarlega um barnaverndarmálið, forsögu þess og meðferðina hjá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, Barnahúsi, Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytinu. 

Umfjöllunin byggir að mestu á gögnum sem eiga uppruna sinn hjá barnaverndarnefndum Hafnarfjarðar og Reykjavíkur en hafa átt viðkomu á fleiri stigum stjórnsýslunnar, meðal annars hjá Barnaverndarstofu, Sýslumanni, dómsmálaráðuneytinu og velferðarráðuneytinu. 

Um hina pólitísku hlið málsins – vitneskju félagsmálaráðherra um málsatvik, yfirlýsingar hans til stuðnings Braga Guðbrandssyni, upplýsingaleynd og samskipti ráðherra við Alþingi og framboð Braga til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna – er fjallað á næstu opnu. Stundin bauð honum viðtal um málið en hann setti slíku viðtali skilyrði sem blaðið gat ekki samþykkt.

Hafði áhuga á sifjaspelli

Í desember 2014 hafði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar samband við yfirmann kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna upplýsinga sem höfðu borist um netnotkun ungs föður. Maðurinn býr heima hjá foreldrum sínum en á þessum tíma voru dætur hans á fjórða aldursári. 

Í ljós kom að maðurinn var virkur á kynlífssíðunum Rapeboard.com og FetLife.com. Þar kallaði hann sig „Perrabarn“, birti myndir af sér og getnaðarlimi sínum og hakaði við hvers konar myndefni hann hefði áhuga á og hvað hann væri forvitinn um. 

Fram kom að hann hefði meðal annars áhuga á sifjaspelli og því að „stunda kynlíf með dætrum sínum“ eins og það er orðað í tilkynningu barnaverndarnefndar til lögreglu.  Barnaverndarnefnd lýsti áhyggjum af netnotkuninni og benti á að maðurinn væri faðir tveggja stúlkna sem væru í reglulegri umgengni hjá honum á heimili afans og ömmunnar. „Móðir hans segir að önnur stúlkan gisti yfirleitt uppí hjá honum. [Maðurinn] hefur einnig verið að spjalla á þessum síðum með stúlkurnar í fanginu,“ segir í tilkynningunni til lögreglu. 

Starfsmaður barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar staðfesti að prófílmyndin og mynd af hendi sem héldi uppi getnaðarlimi væri af manninum. „Starfsmaðurinn þekkir hönd hans og hringinn sem hann er með á myndinni. Starfsmaður og undirrituð hafa séð síðuna á netinu. Áhyggjur eru af því hvað geti gerst þegar stúlkurnar eru í umgengni auk þess sem grunur er að fleira efni sé að finna í tölvu hans. Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar óskar eftir lögreglurannsókn á tölvunotkun [mannsins]“. Lögregla kannaði málið en fann ekkert saknæmt og lét það niður falla. 

Faðirinn segir í samtali við Stundina að ekkert í netnotkuninni hafi bent til þess að hann vildi gera börnum sínum mein. Kynferðislegu hugðarefnin sem er hakað við á síðunni endurspegli orðfæri sem sé algengt í klámi en hafi ekkert raunverulega með sifjaspell að gera. Hann og afi stúlknanna fullyrða að móðirin hafi tilkynnt netnotkunina. Afinn bendir á að strákar séu gjarnir á að þvælast inni á vafasömum vefsíðum á netinu. „Það er ekkert til fyrirmyndar og ég er ekkert að verja það, en ég spyr mig á móti: hvernig vissi hún að hann var inni á þessum síðum nema hún hafi þá verið þar sjálf?“ segir hann í samtali við Stundina. Faðirinn segir upplýsingarnar ekki hafa verið aðgengilegar öðrum en þeim sem sjálfir eru með aðgang að síðunni. Tilkynningin hljóti að hafa borist frá móðurinni, en hún hefur hafnað því. 

Lögreglustjóri sagður hafa beðist afsökunar

Þann 23. september 2015 sömdu móðirin og faðirinn um að faðirinn fengi dætur sínar til sín, það er heim til foreldra sinna, frá föstudegi til mánudags aðra hverja helgi. Umgengnissamkomulagið var staðfest hjá sýslumanni þann 12. október. Síðar hefur móðirin sagst ekki hafa notið liðsinnis lögfræðings eða réttargæslumanns við gerð samningsins og greint frá því að hún hafi fallist á umgengnina af ótta við afleiðingarnar af að gera það ekki. 

Á þessum tíma var barnsfaðir hennar ekki undir smásjá lögreglu eða barnaverndaryfirvalda vegna meintra kynferðisbrota. Þetta breyttist mánuði seinna, í nóvember 2015. Þá kom mál stúlknanna aftur til kasta lögreglu – að þessu sinni vegna tilkynningar frá heimilislækni. Langamma hafði leitað til heilsugæslulæknis á Sólvangi í Hafnarfirði eftir að önnur stúlknanna kvartaði undan því að henni væri „illt í klobbanum“ skömmu eftir umgengni við föðurinn. Þegar læknirinn hafði skoðað stúlkuna taldi hann rétt að kalla til lögreglu. 

Faðirinn var yfirheyrður, héraðslæknir ræstur út og stúlkurnar sendar á Barnaspítala Hringsins þar sem teknar voru myndir, þvagsýni og strok. Þótt önnur þeirra væri rauð og þrútin á kynfærum fundust engir áverkar. Systurnar voru teknar í skýrslutöku í Barnahúsi en framburður þeirra þótti óljós. Þær héldu svo áfram að fara í meðferðarviðtöl í Barnahúsi fram eftir árinu 2016. 

Afinn segir í samtali við Stundina að þarna hafi lögreglumenn stormað inn á heimili þeirra öðru sinni og lagt hald á tölvu og annað. Ekkert hafi fundist en tölvunni ekki verið skilað fyrr en mánuðum síðar þótt þá hefði verið búið að fara í gegnum öll gögn sem þar var að finna. 

„Það urðu mistök hjá lögreglunni og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu bað hann formlega afsökunar. Talaði um að sennilega gæti hann farið í skaðabótamál út af þessu,“ segir afinn. Hann fullyrðir að eina gagnið sem lögregla hélt eftir hafi verið drif úr gamalli tölvu sem móðirin hafi átt.

Úlfurinn sem er pabbi

Lögregla hætti rannsókn málsins þann 11. apríl 2016 en tilkynnti að ef ný sakargögn kæmu fram kynni rannsókn þess að verða tekin upp að nýju. Í framhaldinu fóru stúlkurnar í meðferð hjá listmeðferðarfræðingi. Í slíku meðferðarúrræði, sem tíðkast t.d. á geðdeild Landspítalans og fjölda meðferðarheimila, felst að myndræn tjáning er notuð til að vinna úr reynslu og upplifun einstaklinga. Um var að ræða reyndan og virtan listmeðferðarfræðing sem hefur starfað á BUGL og nýtur trausts Barnahúss. 

Í viðtölum við listmeðferðarfræðinginn, þar sem stúlkurnar fengu að tjá sig frjálst í máli og myndum, komu fram vísbendingar um að brotið hefði verið gegn þeim. Í byrjun nóvember 2016 greindi listmeðferðarfræðingurinn barnaverndarnefnd frá því að svo virtist sem eitthvað óeðlilegt hefði gerst og að önnur stúlkan hefði verið meidd „í klofinu“. 

Skömmu seinna sagði önnur stúlkan listmeðferðarfræðingnum frá því að „eitthvað óþægilegt“ hefði gerst hjá pabba sínum. Hún talaði um úlf sem réðist á hana. Úlfurinn væri pabbi. „Ekki pabbi, nei pabbi,“ er haft eftir henni í gögnum málsins. Þar kemur jafnframt fram að þegar stúlkurnar séu í umgengni hjá föðurnum sjái föðuramma þeirra um þær en stundum fari afinn og amman út í einn tvo tíma og skilji stúlkurnar eftir hjá pabba sínum. 

Hegðun hinnar stúlkunnar vakti einnig grunsemdir. Á kvöldin neitaði hún að fara sofa. Hún sagði að á nóttinni gerðist eitthvað slæmt en hún mætti ekki segja hvað það væri. Það væri nefnilega leyndarmál og ef hún segði frá leyndarmálinu gæti hin systirin meiðst. Stúlkan sagði langömmu sinni frá því að hún þyrfti að passa systur sína og var leið yfir því að nýlega hefði systir sín verið skilin eftir ein hjá pabba sínum þegar þær voru í umgengni þar.

Þegar hér er komið sögu ráðlagði barnaverndarnefnd móðurinni eindregið að tryggja að stúlkurnar væru í öruggu skjóli meðan málið yrði kannað – þ.e. að umgangast ekki föðurinn án eftirlits. Þetta var gert í kjölfar þess að leitað hafði verið ráðgjafar frá lögfræðingi hjá Barnaverndarstofu sem benti á, í símtali þann 25. nóvember 2016, að ef grunur væri um kynferðislegt ofbeldi í umgengni væri það skylda barnaverndarnefndar að fylgja því eftir að forsjáraðili leitaði til sýslumanns til að tryggja öryggi barnanna. 

Þann 5. desember 2016 tilkynnti barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar málið til lögreglu. Um leið var Barnahúsi sent tilvísunarbréf með beiðni um rannsóknarviðtal fyrir stúlkurnar. Bréfinu fylgdu skýrslur listmeðferðarfræðingsins og ítarlegar upplýsingar um hvers vegna meðferðaraðilinn og barnaverndarnefnd óttuðust að brotið hefði verið gegn stúlkunni, meðal annars þau atriði sem greint er frá hér að ofan. 

Það er þetta tilvísunarbréf sem lá óhreyft í pósthólfi Barnahúss í mánuð og það var á þessum tímapunkti sem Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hóf afskipti af málinu í samráði við föðurfjölskylduna. 

Afskipti og þrýstingur Braga fólu í sér að hann beitti sér fyrir því að áfram yrði farið eftir umgengnissamningnum sem var staðfestur í október 2015, samningi um eftirlitslausa umgengni sem móðirin og faðirinn gerðu áður en sterkar vísbendingar um kynferðisbrot komu fram í dagsljósið.  

„Við fórum að þínum ráðum, Bragi“

Stundin hefur undir höndum tölvupóstssamskipti milli Braga Guðbrandssonar og föður mannsins sem grunaður var um kynferðisbrot, það er föðurafa stúlknanna. Tölvupóstssamskiptin, sem fara fram í gegnum tölvupóstfang afans hjá Þjóðkirkjunni og póstfang Braga hjá Barnaverndarstofu, benda til þess að Bragi hafi gengið erinda föðurfjölskyldunnar þegar hann hafði afskipti af málinu.

Þann 28. desember 2016 sendir afinn tölvupóst til Braga Guðbrandssonar með formlegri kvörtun frá syni sínum vegna vinnubragða barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar. Í tölvupóstinum er vikið að veikindum í fjölskyldunni og af orðalaginu má ráða að þeir Bragi hafi áður rætt um málið. Afinn staðfestir í samtali við Stundina að svo hafi verið. Hann segist áður hafa hringt í Braga og greint honum frá því hvernig móðirin hætti við, á síðustu stundu, að leyfa börnunum að hitta föðurfjölskylduna á samverustund í kirkju undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns. Þetta hafi fengið mjög á fjölskyldumeðlim sem glímdi við alvarleg veikindi. Auk þess hefði barnavernd Hafnarfjarðar gleymt að tryggja að kirkjan yrði opin og fjölskyldan þurft að hírast úti í kuldanum. „Þegar þetta gerist þá hringi ég í Braga og segi honum frá þessari uppákomu. Hvað eigum við að gera, Bragi? Ég hafði þá talað við hann áður um nefndina. Hann sagði að við yrðum bara að fara til sýslumanns og gefa skýrslu um þetta. Sem við gerðum,“ segir afinn. Bragi staðfestir þessa frásögn. 

Daginn eftir sendi hann Braga annað bréf sem hefst á orðunum: „Sæll Bragi! Ég verð að byrja á því að biðja þig afsökunar á því hvað þú hefur fengið lítinn frið fyrir mér og mun ég í framtíðinni leitast við að reyna að trufla þig sem minnst í þínum miklu og erfiðu verkefnum.“ 

Í framhaldinu er rakið hvernig fjölskyldan hafi orðið fyrir „hreinni ofbeldisaðgerð“ daginn áður, þegar móðirin hætti við að senda stúlkurnar á samverustundina þar sem lá fyrir að faðirinn yrði viðstaddur. Fullyrt er að móðirin sé föst í „fantasýjuheimi“, vilji „deila og drottna“ og beiti „andlegu ofbeldi“. Þá vísar afinn sérstaklega til ráðlegginga Braga Guðbrandssonar: „Við fórum að þínum ráðum, Bragi, og tilkynntum þessa uppákomu strax til sýslumanns.“ Jafnframt skrifar hann: „Að lokum bið ég þig aftur fyrirgefningar á því að vera að ónáða þig með þetta mál enn einu sinni, en leyfi mér þó samt, í ljósi þeirrar uppákomu sem varð í gær, að spyrja hvort þú sért enn tilbúinn til að reyna nokkur símtöl til að koma á einhvers konar sáttum, eins og þú bauðst til að gera um daginn, þannig að við fáum hugsanlega að hitta stúlkurnar einhvern tímann á næstunni?“ 

Tekið skal fram að á þessum tíma bauðst ömmunni og afanum að hitta stúlkurnar á heimili móðurinnar. Krafa föðurfjölskyldunnar og álit Braga Guðbrandssonar var hins vegar að virða yrði fyrra samkomulag um umgengni án eftirlits þrátt að á þessum tímapunkti hefðu aftur verið komnar fram sterkar vísbendingar um kynferðisbrot. Bragi segir í samtali við Stundina að það hafi verið eðlilegt af sinni hálfu að kanna hvort barnaverndarnefnd væri með ólögmætum hætti að beina því til móðurinnar að tálma umgengni og brjóta þannig umgengnissamning, enda væru slíkar ráðstafanir ekki í verkahring barnaverndarnefndar heldur sýslumanns.

Afinn hafði aftur samband eftir hátíðarnar. Hann óskaði Braga gleðilegs árs og rakti hvernig veikindi í fjölskyldunni hefðu ágerst vegna „ástandsins í þessu umgengnismáli“ sem hefði valdið þunglyndi. „Ég vildi bara í ljósi þessa fá að spyrja, hvort þér hefði orðið nokkuð ágengt gagnvart barnaverndaryfirvöldum í Hafnarfirði, sem virðast ekki sjá neina ástæðu til að breyta um stefnu í þessu máli,“ sagði hann. 

Vildi að barnavernd talaði um fyrir móður

Bragi brást við beiðninni eftir hátíðarnar og hringdi í þann starfsmann barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar sem fór með málið. 

Stundin hefur undir höndum staðfestan útdrátt úr símtalinu þar sem rakið er nákvæmlega hvað Braga og barnaverndarstarfsmanninum fór á milli samkvæmt gögnum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar. 

Frásögnin verður ekki skilin öðruvísi en svo að Bragi hafi látið undan kröfum föður málsaðilans og beitt sér í þágu föðurfjölskyldunnar, og þar með mannsins sem grunaður var um kynferðisbrot, þegar hann hafði samband við barnaverndarnefnd og reyndi að hafa áhrif á gang málsins. 

Í upphafi símtalsins kom fram að Bragi hefði þegar aflað sér upplýsinga frá Barnahúsi um vinnslu málsins þar. Þannig mátti honum vera ljóst að maðurinn hafði tvívegis áður verið tilkynntur vegna meintra kynferðisbrota, annars vegar af barnavernd Hafnarfjarðar vegna grunsamlegrar netnotkunar og hins vegar að frumkvæði heimilislæknis eftir læknisskoðun á annarri stúlkunni. 

„Bragi spurði um efni tilkynningarinnar og spyr hvort að ástæða hafi verið að kanna málið að nýju og senda stúlkurnar aftur í Barnahús,“ segir í útdrættinum. 

Þetta er í samræmi við lýsingu sem birtist í tölvupósti Þórdísar Bjarnadóttur, formanns barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar, í kvörtun undan Braga til velferðarráðuneytisins þann 16. nóvember 2017, en þar segir: „Hann lýsti efasemdum sínum um að nauðsynlegt hefði verið að fara aftur með málið í könnun og Barnahús.“

Þá kemur fram í útdrættinum að lesið hafi verið upp úr tilkynningu listmeðferðarfræðingsins fyrir Braga og honum verið greint frá því að samkvæmt mati barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar hefðu upplýsingarnar sem fram komu verið þess eðlis að nauðsynlegt væri að vísa stúlkunum aftur í Barnahús. 

Braga var jafnframt greint frá því að stúlkurnar hefðu umgengist föðurinn um vorið og sumarið en þá á þeim forsendum að afinn og amman væru ábyrg fyrir þeim og fylgdust með, enda bjó faðirinn hjá þeim. Þó hefði komið fram, af hálfu föðurfjölskyldunnar, að stundum fengi faðirinn að vera einn með dætrum sínum í stutta stund. 

Viðbrögðum Braga er lýst með eftirfarandi hætti: „Bragi bendir á að honum finnist ótrúlegt að ef maðurinn sé raunverulega með pedófílu að hann brjóti á dætrum sínum strax og hann fái að hitta þær.“ Bragi segir í samtali við Stundina að setningin hljóti að vera slitin úr samhengi ef hann hafi þá yfir höfuð sagt eitthvað í þessa átt. Hann voni að til sé upptaka af símtalinu. 

„Bragi bendir á að honum finnist ótrúlegt
að ef maðurinn sé raunverulega með pedófílu
að hann brjóti á dætrum sínum strax og
hann fái að hitta þær“

Í framhaldinu, samkvæmt símtalslýsingunni, benti barnaverndarstarfsmaðurinn á að fyrsta tilkynningin sem barst hefði snúist um netnotkun mannsins. „Inn á kynlífsspjallsíðu hafði hann hakað við það sem hann hafði áhuga á og var það m.a. áhugi á kynlífi með börnum sínum og fantasíur um að vakna með dóttur sína (barni sínu) ofan á sér og stunda með henni kynlíf. Önnur tilkynning hafi síðan borist frá lækni eftir læknisskoðun og nú sú þriðja frá listmeðferðarfræðingi stúlknanna.“

Bragi brást við með því að segja Barnahús ekki hafa fengið neina tilvísun vegna málsins. Raunin er hins vegar sú að á þessum tíma hafði tilvísunin þegar verið send en ekki verið sótt í pósthólf Barnahúss. Barnaverndarstarfsmaðurinn sagði Braga að tilvísun hefði verið útbúin þann 6. desember og send 7. desember. „Skv. upplýsingum frá póstinum er ekki búið að sækja hana í pósthólf Barnahúss.“ 

Aðspurður um þetta – hvort tilvísunin hafi í alvörunni legið óhreyfð allan þennan tíma – játar Bragi því. Þá segir hann einnig að tölvukerfi Barnahúss hafi bilað og tilvísunin því ekki borist eftir þeim leiðum. Það sé í þessu samhengi sem skoða verði samtal hans við barnaverndarstarfsmanninn. Hann hafi furðað sig á því að barnaverndarnefndin segði móðurinni að tálma umgengni meðan engin tilvísun til Barnahúss lægi fyrir.

„Ef ég hefði yppt öxlum og hugsað með mér: Þetta er eitthvað skrítið, það hlýtur að vera eitthvað mikið að gera í Barnahúsi. En það er af því að ég bregst við sem það kemur í ljós að tilvísunin er týnd. Og það er af því að ég bregst við sem menn fara að leita að tilvísuninni og finna hana. Ég tel að ég hafi gert allt rétt og ég er mjög stoltur af því sem ég gerði þarna, því þetta gerði það að verkum að málið fór í eðlilegan farveg,“ segir Bragi í samtali við Stundina. 

„Barnaverndin verði að passa að hafa ekki skoðun“

Í síðari hluta símtalsins frá 4. janúar 2017 segir Bragi að það sé „slæmt að móðir sé að hamla umgengni og að barnavernd þurfi að fara varlega í þeim efnum“. Hann biður barnaverndarstarfsmanninn að reyna að „tala um fyrir móður“ svo föðurfjölskyldan og faðirinn fái að hitta stúlkurnar. 

„Bragi segir einnig að vert sé að benda móður á að ef hún virkilega óttist um stúlkurnar í umsjá föður þá ætti hún ekki að vera með tálmun og Bragi sagðist telja að um tálmun sé að ræða. Hann sagði að föðurafi stúlknanna hafi sagt að ef þetta haldi áfram muni [faðirinn] fara í forræðisdeilu og ef að hún sé að tálma gæti hann fengið forræði.“ 

Barnaverndarstarfsmaðurinn benti Braga á að afanum og ömmunni væri velkomið að hitta stúlkurnar á heimili móðurinnar. „Segist Bragi vita það en að þá finnist þeim þau vera að svíkja son sinn sem þau trúa staðfastlega að sé saklaus.“ Þetta samræmist því sem fram kom í samtali Stundarinnar við föðurafann.

Undir lok símtalsins kom fram að afinn og amman vildu ekki hitta stúlkurnar án föðurins en móðirin teldi hins vegar rangt að leyfa dætrum sínum að umgangast föðurinn án eftirlits meðan meint kynferðisbrot væru til skoðunar. Brýndi Bragi fyrir barnaverndarnefndinni að gæta hlutleysis: „Bragi segir að barnaverndin verði að passa að hafa ekki skoðun.“ 

Sýslumaður vísaði til ummæla Braga

Eftir símtalið við starfsmann barnaverndarnefndar hafði Bragi Guðbrandsson strax samband við afann. Hann hóf mál sitt á því að senda föðurfjölskyldunni hlýjar kveðjur vegna hinna alvarlegu veikinda og sagðist svo hafa náð tali af þeim barnaverndarstarfsmanni sem færi með mál sonar hans og barnabarna. Í samtalinu hefði starfsmaðurinn hafnað því að móðirin hefði verið „hvött til að brjóta ákvæði umgengnissamnings“. Á meðal þess sem fram kemur í tölvupósti Braga til afans er eftirfarandi setning: „Ég skildi hana [starfsmann barnaverndarnefndar] svo að barnaverndin hafi ekkert við það að athuga að faðir systranna umgangist þær.“ 

Þann 14. desember 2016 fór faðir stúlknanna fram á að dagsektir yrðu lagðar á móðurina fyrir að tálma umgengni. Þegar málið var til meðferðar hjá sýslumanni hélt lögmaður föðurins frásögn Braga Guðbrandssonar sérstaklega á lofti og áframsendi öll tölvupóstssamskipti afans og Braga Guðbrandssonar til sýslumanns. Í tölvupósti frá 15. febrúar 2017 bendir lögmaðurinn sérstaklega á tiltekin ummæli Braga, meðal annars þau að „Bragi skildi ekki annað á starfsmanni en að barnavernd Hafnarfjarðar hafi ekkert við það að athuga að [faðirinn] umgengist dætur sínar“ eins og lögmaðurinn orðar það í tölvupóstinum. 

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kvað upp úrskurð í málinu þann 10. maí 2017 um að lagðar skyldu dagsektir á móðurina. Fjallað er ítarlega um málsmeðferðina hjá sýslumanni í Stundinni í dag, en vert er að staldra við atriði er varða aðkomu Braga Guðbrandssonar og samskipti hans við föðurafa og barnaverndarnefnd. 

Við meðferð málsins hjá sýslumanni var hvorki rætt við stúlkurnar sjálfar né leitað umsagnar barnaverndarefndar Hafnarfjarðar eða listmeðferðarfræðingsins. Hins vegar var vitnað sérstaklega í tölvupóst Braga Guðbrandssonar, tölvupóstinn þar sem fram kom að barnaverndarnefnd hefði ekkert við það að athuga að faðirinn umgengist stúlkurnar. Staðfestur útdráttur úr símtalinu bendir hins vegar ekki til þess að neitt slíkt hafi komið fram í máli barnaverndarstarfsmannsins sem Bragi hafði rætt við.  

Þórólfur Halldórsson gegnir embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

Þegar sýslumaður afhenti málsaðilum gögn málsins í upphafi fylgdu tölvupóstssamskipti Braga Guðbrandssonar og afans ekki með þrátt fyrir að vitnað væri í samskiptin í úrskurðinum. Var móðurinni tjáð að tölvupóstssamskiptin væru ekki hluti af gögnum máls vegna þess að afinn væri ekki aðili þess. Síðar þurfti sýslumannsfulltrúi að draga í land, afhenda tölvupóstssamskiptin og biðja móðurina afsökunar enda var augljóslega um málsgögn að ræða. 

Móðirin kærði úrskurð sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins þann 23. júní 2017. Í kærunni er gagnrýnt sérstaklega að svo virðist sem sýslumaður hafi tekið orð Braga trúanleg án þess að hafa samband við barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar sem hafði, ólíkt því sem Bragi hélt fram, ráðlagt móðurinni að halda stúlkunum í öruggu skjóli meðan meint kynferðisbrot væru til skoðunar. 

Dómsmálaráðuneytið felldi úrskurðinn úr gildi þann 17. nóvember 2017, meðal annars á þeim grundvelli að mál barnanna væru til skoðunar vegna meintrar misnotkunar föður og ekki þjónaði hagsmunum barnanna að leggja dagsektir á móðurina. Í úrskurði ráðuneytisins er bent á að meðferðaraðili, þ.e. listmeðferðarfræðingurinn sem tók viðtöl við stúlkurnar, telji þörf á að gæta að hag barnanna vegna gruns um kynferðismisnotkun hjá föður. „Vísbendingar séu um að eitthvað óeðlilegt hafi gerst í samskiptum föður við börnin. Vísi bæði börnin í ógnir og ofbeldi sem þau hafi orðið fyrir. Börnin eigi ávallt að njóta vafans þótt þau geti ekki með nákvæmum orðum sagt hvað hafi gerst að mati meðferðaraðilans.“ 

Vitnað er í skýrslur frá 10. apríl 2017 þar sem fram kemur meðal annars að annað barnið hafi „tekið fram af fyrra bragði að það vilji ekki gista hjá föður heldur bara koma í heimsókn“. 

„Ítrekar meðferðaraðilinn að hann hafi sterkan grun um að faðir hafi beitt börnin kynferðislegu ofbeldi og að skýrar vísbendingar komi fram um slíkt ofbeldi í meðferð barnanna. Telur meðferðaraðilinn að ekki sé öruggt fyrir börnin að gista hjá föður vegna sterkra vísbendinga um kynferðismisnotkun hans gagnvart þeim“. 

Þegar Stundin hafði samband við Braga til að heyra hans hlið á málinu dró hann málsatvik, eins og þau horfa við sér, saman með eftirfarandi hætti: 

„Málið var þannig vaxið að aðili mjög náinn barni sem deilt var um umgengni við hafði óskað eftir því að fá að umgangast barnið um jólin 2016. Aðilinn var dauðvona og var kvartað undan því að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hefði beitt sér gegn því að hann fengi að hitta barnið. Það er náttúrlega andstætt lögum ef barnaverndarnefnd eða starfsmenn gera það. Við hjá Barnaverndarstofu höfum auðvitað eftirlitsskyldu með barnaverndarnefndum og þá er viðtekin venja að taka upp tólið til að kynna sér hvort ráðstafanir eru réttmætar. Í því samtali sem ég átti við barnaverndarstarfsmann var varpað ljósi á málið og þær upplýsingar sem ég fékk voru þess efnis  að barnaverndarnefndin hafði ekki hlutast neitt til um að hindra þessi samskipti. Mín aðkoma að þessu máli var fólgin í því að upplýsa aðilann sem hafði kvartað um hver svör barnverndarnefndarinnar voru. Sá aðili sætti sig ekki við þau svör og ég leiðbeindi honum um hvernig bæri að koma formlegri kvörtun til Barnaverndarstofu. Ég gerði það í tölvupósti og útskýrði hvernig best væri að standa að slíkri kvörtun til Barnaverndarstofu en vakti einnig athygli á því að sjálf umgengnisdeilan heyrði undir sýslumann. Þar með var mínum afskiptum af þessu máli, hvað þennan aðila snertir, lokið.“

Lögreglan bíður eftir Barnahúsi en
Barnahús eftir listmeðferðarfræðingi

Enn í dag eru mál barnanna og föðurins til skoðunar. Aðeins þremur dögum eftir að meint kynferðisbrot voru tilkynnt yfirvöldum í þriðja sinn, þann 8. desember 2016, sendi Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, bréf til barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar. Þar kom fram að gögn málsins bæru með sér að barnavernd hefði þegar óskað eftir könnunarviðtali af barninu í Barnahúsi. „Lögreglustjóri óskar eftir að embættinu verði send skýrsla Barnahúss um könnunarviðtalið þegar skýrslan liggur fyrir. Fram að því mun lögregla ekki aðhafast neitt í málinu nema eitthvað nýtt komi fram sem gefur tilefni til rannsóknar.“ 

Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, hefur sagt barnavernd Hafnarfjarðar að hún telji upplýsingarnar frá listmeðferðarfræðingnum trúverðugar. Engu að síður sé ekki æskilegt að senda stúlkurnar í rannsóknarviðtal í Barnahúsi. 

Þann 21. febrúar 2017 greindi Ólöf frá því að Barnaverndarstofa, sem Bragi var þá í forsvari fyrir, myndi hafa samband við Barnahús ef nýjar upplýsingar kæmu fram eða ef þörf væri á frekari ráðgjöf. 

Í skjali barnaverndar frá 2. júní 2017 kemur meðal annars eftirfarandi fram: „Ólöf ræddi við [listmeðferðarfræðinginn] og taldi frásagnir stúlknanna trúverðugar og að þær kæmu fram í frjálsri frásögn. Hún taldi því ekki ástæðu til að þær færu í Barnahús að svo stöddu en ef að frásagnir verða nákvæmari eða nýjar upplýsingar komi fram væri vert að endurskoða það. Stúlkurnar eru því áfram í listmeðferð og sendi listmeðferðarfræðingur nýja skýrslu í apríl sl. þar sem fram koma sterkar vísbendingar um kynferðislega misnotkun föður.“ 

Í dag snýst meðferðin hjá listmeðferðarfræðingnum einna helst um að byggja stúlkurnar upp og vinna úr fortíðinni. Í ljósi þess að Barnahús bíður eftir listmeðferðarfræðingnum og lögreglan vill ekki aðhafast neitt fyrr en „skýrsla Barnahúss um könnunarviðtalið“ liggur fyrir er rannsókn hinna meintu kynferðisbrota í biðstöðu og faðirinn ekki með réttarstöðu grunaðs manns. 

Telja barnavernd fara offari

Afi stúlknanna furðar sig á því í samtali við Stundina hve lengi listmeðferðin hefur staðið yfir. „Málið er að síðast þegar við vissum – og það er orðið hálft ár síðan – þá voru þessar heimsóknir að verða fimmtíu talsins. Og eins og fulltrúi sýslumanns sagði: Hvað er í gangi? Ég hef aldrei heyrt um svona. Er bara verið að bíða eftir … ég veit ekki hvort þú hefur sett þig inn þessi mál, en það er til nokkuð sem heitir falskar minningar og það er mjög auðvelt að búa til falskar minningar hjá börnum. Hvað er eiginlega í gangi þegar svona er þjösnast á börnum? Er þá verið að reyna smám saman að búa til eitthvað þegar ekkert kemur?“

Hann telur ljóst að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hafi farið offari í málinu og þetta hafi valdið syni hans stórtjóni. Ásakanir um kynferðisbrot hafi ítrekað verið kannaðar án þess að nokkuð hafi komið fram sem renni stoðum undir þær. 

„Þetta er langt og erfitt ferli og hefur staðið í þó nokkur ár þar sem við höfum varla fengið að sjá gögnin. Starfsmaður barnaverndarnefndar ráðlagði móðurinni að stöðva umgengni. Þetta getur barnaverndarnefnd hugsanlega gert ef um er að ræða að barnaverndarnefndin sé að beina einhverju til lögreglu eða eitthvað slíkt. Svo var ekki í þessu tilviki,“ segir hann. Eins og áður hefur komið fram er raunin sú að barnavernd ráðlagði móður í byrjun desember 2016 að tryggja að stúlkurnar væru í öruggu skjóli eftir að hafa sent tilkynningu um grunsemdir listmeðferðarfræðings til lögreglu og jafnframt tilvísun til Barnahúss. 

„Bragi skoraði á barnaverndarnefndina og sagði: Ef þið teljið að það sé eitthvað, af hverju sendiði það þá ekki í Barnahús? En þau gera það ekki,“ segir afinn. Þegar blaðamaður nefnir að samkvæmt gögnum málsins hafi tilvísun verið send í Barnahús um mánuði áður, en legið þar óhreyfð þegar samtal Braga og barnaverndarstarfsmannsins fór fram, kom afinn af fjöllum. „Ég hef ekki heyrt af því áður að eitthvað hafi legið óhreyft, en málið er að þetta fór aldrei aftur til lögreglu og aldrei aftur í Barnahús. Annaðhvort þessa tveggja er frumskilyrði fyrir því að biðja móðurina um að hindra umgengni,“ segir hann. „Mér er sagt, og ég man ekki hvar það kom fram, að einhvern tímann hafi bara Barnahús sagt: nei, ekki oftar, og vísað frá sér einhverri tilvísun.“

Afinn segir að stúlkurnar hafi geislað af gleði hjá föðurfjölskyldunni og viljað verja sem mestum tíma með afa sínum og ömmu. Þar hafi þeim liðið vel.

Í kæru móðurinnar á dagsektarúrskurði sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins kemur fram að síðan stúlkurnar hættu reglulegri umgengni við föðurinn hafi hegðun þeirra breyst til hins betra. „Þær eru nánast hættar að fá martraðir um nætur og sjálfsöryggi þeirra hefur vaxið með hverjum degi, þær eru áberandi glaðari og ánægðari,“ segir þar. „Stúlkurnar ræða lítið sem ekkert um föður sinn. Umbjóðandi minn vinnur ekki á móti umgengni við föður stúlknanna og hans fólk heldur styður umbjóðandi minn dætur sínar og vilja þeirra þar sem þær vilja ekki hitta föður sinn einan og ekki nema í stutta stund í einu. Einnig ber móður að vernda stúlkurnar og þá líka meðtalið sálarheill þeirra. Umbjóðandi minn er að fara eftir þeim ráðleggingum sem henni hafa verið gefnar af barnavernd Hafnarfjarðar og telur sig ekki geta gert annað en að styðja dætur sínar í óskum þeirra og bregðast ekki trausti þeirra.“

Bíður eftir viðtali við ráðherra

Stundin hafði samband við lögfræðing móðurinnar og bauð henni eða móðurinni að tjá sig um málið. Þær vildu ekki veita fjölmiðlaviðtal að svo stöddu.

Faðir stúlknanna segir liggja ljóst fyrir, eftir ítrekaðar rannsóknir sem ekkert hafi komið út úr, að allar ásakanir á hendur sér séu tilhæfulausar. Gögn málsins beri það skýrt með sér og hann upplifi málið sem árás. Hann nefnir meðal annars að starfsmaður hjá barnavernd Hafnarfjarðar sé persónulegur vinur móðurinnar. Það viti hann frá því þau bjuggu saman, en þá hafi starfsmaðurinn heimsótt móðurina sem vinkona. 

Afinn telur umræðuna um Braga Guðbrandsson og afskipti hans af barnaverndarmálinu í Hafnarfirði hafa verið ósanngjarna og ódrengilega. Barnaverndarnefnd noti það gegn Braga að hann hafi reynt að fá barnaverndarnefnd til að koma fram af mannúð gagnvart föðurfjölskyldunni á tímum alvarlegra veikinda. 

„Það er þá sem ég hringi í Braga og involvera hann í þetta. Hann sér aumur á okkur og hugsar: get ég eitthvað gert? Þarna er einhver mannúð sem knýr hann. Hann segist munu athuga hvort hann geti beðið barnaverndarnefnd um að beita sér eitthvað. Ég er með dálítið samviskubit yfir því að þetta neyðarhróp mitt er notað gegn honum – eins og hann hafi gerst sekur um einhverja valdníðslu. Þess vegna hef ég beðið um viðtal við ráðherra til að gera honum grein fyrir þessu. Hvernig þau hugsanlegu afskipti sem þarna er kvartað yfir, hvernig þau bar að.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.
Tengdar greinar

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur

Stjórnarsáttmálinn er stefna Framsóknarflokksins
ÚttektRíkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur

Stjórn­arsátt­mál­inn er stefna Fram­sókn­ar­flokks­ins

Ný rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur er miðju­sæk­in íhalds­stjórn, að mati Ei­ríks Berg­manns Ein­ars­son­ar stjórn­mála­fræð­ings. Gera á allt fyr­ir alla, að mati Stef­an­íu Ósk­ars­dótt­ur stjórn­mála­fræð­ings. Sum þeirra mála sem ekki náðu fram að ganga á síð­asta kjör­tíma­bili ganga aft­ur í sátt­mál­an­um en annarra sér ekki stað.
Ný ríkisstjórn boðar einkaframkvæmdir, orkuskipti og bankasölu, en kvótakerfið og stjórnarskráin fara í nefnd
ÚttektRíkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur

Ný rík­is­stjórn boð­ar einkafram­kvæmd­ir, orku­skipti og banka­sölu, en kvóta­kerf­ið og stjórn­ar­skrá­in fara í nefnd

Ný rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur set­ur þrjú meg­in við­fangs­efni í for­grunn: Lofts­lags­mál, öldrun­ar- og heil­brigð­is­mál og tækni­breyt­ing­ar. Styðja á við sta­f­ræna tækni í heil­brigð­is­mál­um. Lít­ið er rætt um skatta­mál. Einkafram­kvæmd­ir verða í vega­kerf­inu og vænt­an­lega rukk­að fyr­ir notk­un vega.
Nýja ríkisstjórnin: Umhverfismálin færast frá Vinstri grænum til Sjálfstæðisflokks
FréttirRíkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur

Nýja rík­is­stjórn­in: Um­hverf­is­mál­in fær­ast frá Vinstri græn­um til Sjálf­stæð­is­flokks

Menn­ing­ar­mál og við­skipti fara í sama ráðu­neyti, og mennta­mál­in klofna í tvö ráðu­neyti. Guð­laug­ur Þór Þórð­ar­son úr Sjálf­stæð­is­flokki verð­ur um­hverf­is­ráð­herra í stað Guð­mund­ar Inga Guð­brands­son­ar úr Vinstri græn­um. Orku­mál­in verða færð und­ir um­hverf­is­ráð­herra.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár