Hátíð falskra og mótsagnakenndra kosningaloforða er hafin í Reykjavík í tilefni komandi borgarstjórnarkosninga. Fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 virðist hafa komið af stað kapphlaupi framboða sem vilja stórauka útgjöld, en spara á óskilgreindan hátt í kerfinu, án þess þó að fækka aftur borgarfulltrúum.
Nokkur framboð sem uppfylla skilyrði þess að vera flokkuð undir popúlisma ætla að bjóða okkur kostnaðarsama þjónustu „ókeypis“ og jafnvel að útrýma svifryki með undraverðum hætti, samhliða því að innleiða aðgerðir sem auka bílaumferð – en 80 prósent svifryks í Reykjavík er einmitt af völdum bílaumferðar, samkvæmt rannsókn frá því í fyrra.
Moskur og svifryk
Frambjóðendur Frelsisflokksins gengu einna lengst í tvískinnungnum þegar þeir fóru að ráðhúsinu í Reykjavík til að færa borgarstjóranum meðal annars rykgrímu til að verjast svifryki, en sjálfir vilja þeir setja í forgang að stækka stofnæðar í umferðarkerfinu og hætta við framþróun almenningsamgöngukerfisins, sem þeir kalla „þunglamalegar gripaflutningalestir“.
Til að toppa sig segjast þeir vilja „byggja upp góða borg og íbúðir fyrir alla“, en alls ekki að „Reykjavík verði hælisgreni“ og vilja „stöðva þessar byggingar á moskum“, en eru að sjálfsögðu „ekkert á móti útlendingum, ekkert“. Þrátt fyrir inngróna mismununar- og útlendingahatursstefnu segir formaður flokksins, Gunnlaugur Ingvarsson, að fólk eigi að „vera hér á jafnréttisgrundvelli“.
Íslenska þjóðfylkingin, hitt framboðið sem setur í forgang að stöðva byggingu mosku, hafnar Borgarlínunni og vill fleiri mislæg gatnamót, eða með öðrum orðum auka bílaumferð – til að „minnka mengun“.
Ekki í mínum bakgarði
Hinn nýi Höfuðborgarlisti ástundar álíka hræsni og Frelsisflokkurinn. Eitt slagorða flokksins er „Ekkert svifryk“. Hvernig sem á að ná því fram. Hins vegar bendir sagan til þess að áherslur flokksmanna liggi ekki raunverulega í því að undirbyggja ferðamáta sem valda minnstri svifryksmengun. Formaður flokksins hóf til dæmis stjórnmálaþátttöku sína eftir að hafa kallað til lögreglu og stöðvað framkvæmdir við hjólastíga nálægt heimili hennar og annarra ósáttra íbúa við Rauðagerði. En í ljós hafði komið að íbúarnir höfðu meðal annars helgað sér svæði út fyrir lóðamörk sín.
Eitt af kosningaloforðum Höfuðborgarlistans virðist síðan vera fengið beint úr smiðju Donalds Trumps, það er að byggja brú yfir í Kópavog, en „Kópavogur greiðir brúna“.
Að endurvekja lýðræðið en hunsa þjóðaratkvæði
Ein mesta hræsnin í íslenskum stjórnmálum í dag birtist síðan á fyrsta landsþingi Miðflokksins, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, sagðist vilja ný stjórnmál og „endurvirkja virkni lýðræðisins“. Sigmundur Davíð hefur meðal annars á afreksskránni að hafa viljað hunsa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um innleiðingu nýrrar stjórnarskrár. Það var í fyrsta skiptið sem ekki var fylgt niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í lýðveldissögunni. Svo vill til að flokkurinn hans hafði beinlínis sett sem skilyrði að haldið yrði stjórnlagaþing, eins og var gert, kosið beint af almenningi, til þess að móta nýja stjórnarskrá. Annað skiptið sem Sigmundur átti sögulega aðkomu að lýðræðinu var þegar hann sagði fyrir kosningarnar 2013 að hann myndi styðja að boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, eins og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði, en hætti síðan við eftir kosningar. „Að sjálfsögðu kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði hann þó fyrir kosningarnar.
Til að toppa virkni lýðræðisins var hann síðan kjörinn formaður með 100 prósentum atkvæða.
Miðflokkurinn í Reykjavík lofar að „margfalda húsnæði fyrir fjölskyldur og ungt fólk í úthverfum borgarinnar“ en samt „stytta ferðatímann fyrir fjölskyldubílinn“, en helsta orsök umferðaröngþveita er úthverfavæðing. Á sama tíma og forgangsraða á fyrir grunnþjónustu á að stórauka útgjöld með því að „bjóða upp á gjaldfrjálsan Strætó fyrir alla með lögheimili í Reykjavík“.
Eyþór Arnalds borgarstjóri
Miðað við skoðanakannanir er Eyþór Arnalds líklega verðandi borgarstjóri í Reykjavík. Þar sem Samfylkingin og Vinstri græn hafa gefið til kynna að þau vilji ekki samstarf með Sjálfstæðisflokki eða Miðflokki, er einna líklegast að breiðfylkingu Sjálfstæðisflokks og popúlísku flokkanna þurfi til að Eyþór Arnalds verði borgarstjóri í íhaldsblokk, þar sem auðugustu borgararnir fá skattaafslátt, múslimar verða sviptir hluta trúfrelsis síns, svifryk hverfur í andstöðu við vísindalegar skýringar og það verður frítt í strætó á sérakreinum með upphituðum biðskýlum og fimm til sjö mínútna ferðatíðni, en það mun bara ekki heita borgarlína og ekki kosta neitt, því kostnaðurinn af slíkri þjónustu væri „myllusteinn um háls skattgreiðenda“.
Athugasemdir