Árás Tyrkja á Afrin-hérað í norðurhluta Sýrlands er skýrt brot á alþjóðalögum rétt eins og þeir stríðsglæpir sem ríkisstjórn Bashar al-Assads í Sýrlandi hefur gerst sek um. Ríkisstjórn Bandaríkjanna og Donald Trump Bandaríkjaforseti hafa með hjáróma og veigalitlum mótmælum sínum á framferði Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi gerst meðsek í þjóðernishreinsunum Erdogans forseta Tyrklands. Einangra verður Tyrkland efnahagslega, diplómatískt og hernaðalega þar til hersveitir þess verða kallaðar til baka frá norðurhluta Sýrlands.
Mannúðarsinnaðir fræðimenn fordæma Trump
Þetta er efnislegt innihald opins bréfs sem ritað er af Neyðarnefndinni fyrir Rojava, félagsskap stofnuðum af hópi mannúðarsinnaðra fræðimanna víðs vegar að úr heiminum, með það að markmiði að hefja alþjóðlega herferð til stuðnings Kúrdum og til hjálpar Afrin-héraði.
Meðal þeirra sem undirrita bréfið eru Noam Chomsky, einn áhrifamesti málvísindamaður og samfélagsrýnir samtímans; Gloria Steinem, blaðamaður og einn þekktasti femíniski aðgerðarsinni heims; Judith Butler, þekktur femínískur heimspekingur, Sally Haslanger, prófessor í sálfræði sem hefur verið leiðandi í kvenna- og kynjafræðum undanfarin ár; Michael Walzer, heiðursprófessor í félagsvísindum sem er meðal annars höfundur bókarinnar Just and Unjust Wars; David Graeber, prófessor í mannfræði og anarkískur aktívisti; og Íslendingurinn Ásta Kristjana Sveinsdóttir, dósent í heimspeki við San Fransisco-háskóla.
Í bréfinu er rakið hvernig kúrdískar hersveitir SDF áttu mestan þátt í að ná sýrlensku borginni Raqqa úr höndum ISIS og að eftir það hafi menn talið hryðjuverkasamtökin svo gott sem sigruð. Í janúar réðust hins vegar tyrkneskar hersveitir inn í Afrin, sem er eitt þriggja héraða sem saman mynda Rojava, svæði sem er undir stjórn Kúrda í norðurhluta Sýrlands. Það olli því að hermenn Kúrda sáu sig tilneydda að snúa heim til Afrin til að verjast tyrkneska hernum. Borgin Afrin féll eftir miklar loftárásir 18. mars síðastliðinn og olli það enn frekari hörmungum fyrir íbúa borgarinnar sem neyddust til að flýja undan hersveitum Tyrkja og Þjóðarhers Sýrlands.
„Margir þeirra sem flýðu Afrin sofa nú undir berum himni eða í tjaldborgum, án helstu nauðþurfta,“ segir í bréfinu. Þeir sem urðu eftir verða nú fyrir mismunum á grundvelli þjóðernis og kynferðislegu ofbeldi, líkt og ISIS sýndi af sér í Írak.
Engin ástæða var fyrir árásinni á Afrin segja bréfritarar enda hafi Afrin verið friðsamur griðastaður fyrir tugi þúsunda flóttamanna. Tyrkir haldi því hins vegar fram að ógn hafi staðið af Rojava því fólkið sem þar stýrir málum, Kúrdar sem hafa verið helstu bandamenn Bandaríkjanna á baráttunni gegn ISIS í Sýrlandi, séu „hryðjuverkamenn“.
Árás Tyrkja á Afrin er brot á alþjóðalögum og Bandaríkjastjórn hefur aðeins mótmælt framferði þeirra með lágróma röddu. Af þeim sökum, segja bréfritarar, eru Bandaríkin meðsek í þjóðernishreinsunum Erdogans og áætlunum hans um að hrekja Kúrda burt af því svæði í norðurhluta Sýrlands þar sem þeir hafa búið árhundruðum saman. Til að stöðva þetta brjálæði verði að einangra Tyrkland efnahagslega, pólitískt og hernaðarlega.
Íslensk stjórnvöld gagnrýna ekki hernað Tyrkja opinberlega
Í samhengi við þessa hörðu gagnrýni fræðafólks á Tyrki og aðgerðarleysi ríkisstjórnar Donalds Trumps í Bandaríkjunum má benda á að íslensk stjórnvöld hafa ekki fordæmt hernað Tyrkja í Rojava með afgerandi hætti. Þó hafa borist fregnir af því að Haukur Hilmarsson, íslenskur aktívisti, hafi fallið í aðgerðum Tyrkja.
Einu heimildir um að Ísland hafi hreyft mótbárum við aðgerðum Tyrkja eru þær að Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, lýsti því við fréttavefinn Eyjuna að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefði eftir diplómatískum leiðum fordæmt framferði Tyrkja gegn Kúrdum í Sýrlandi. Þá svaraði Guðlaugur Þór því einnig til í fyrirspurnartíma á Alþingi 22. mars síðastliðinn að það hefði hann gert fáeinum dögum eftir að hernaðurinn hófst 20. janúar síðastliðinn, og þá beint við sendiherra Tyrklands gagnvart Íslandi.
Framferði Tyrkja hefur ekki verið fordæmt opinberlega af hálfu íslenskra stjórnvalda, svo sem í formi yfirlýsinga eins og dæmi eru um að gert sé vegna hernaðaraðgerða.
Athugasemdir