Samkvæmt fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar verða frumgjöld ríkisins, þ.e. heildargjöld að frádregnum vaxtagjöldum, um 35 milljörðum hærri árið 2019 á verðlagi þess árs heldur en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar.
Þessi mismunur er fyrst og fremst dekkaður með svigrúminu sem skapast vegna þess að vaxtakostnaður ríkissjóðs verður lægri en áður var áætlað, en einnig með einskiptistekjum í formi arðgreiðslna frá bönkunum og með því að klípa af rekstrarafgangi ríkisins.
Viðbótararðgreiðslur bankanna nema 8 milljörðum árið 2019, en þá verða jafnframt vaxtagjöld 13,7 milljörðum lægri heldur en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar, fyrirrennara Bjarna á ráðherrastóli. Þetta skapar útgjaldasvigrúm upp á samtals 21,7 milljarða.
Ofan á það eru 12,2 milljarðar klipptir af fjárlagaafganginum sem fyrri ríkisstjórn reiknaði með árið 2019. Samtals jafngilda þessar ráðstafanir nær öllum útgjaldamismununinum milli fjármálaáætlunar Benedikts og fjármálaáætlunar Bjarna árið 2019.
Samhliða útgjaldaaukningunni verða skattar lækkaðir um 7,2 milljarða á næsta ári. Tryggingagjald lækkar úr 6,85% í 6,6% auk þess sem virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn.
Athugasemdir