Hér landi skortir skýra stefnu stjórnvalda í lífeyrismálum, þar á bæ hefur stefnan (stefnuleysið) einkennst af því eina að koma sem mestu yfir á lífeyrissjóðina og draga úr framlögum til Tryggingastofnunar. Það er óásættanlegt að svo mikilvægur málaflokkur skuli búa við jafn óljósa stefnu stjórnvalda og raun ber vitni. Í umræðum um stefnu stjórnmálaflokka um lífeyrismál opinberast oft mikið skilningsleysi og þjóðfélagsumræðan um lífeyrismál verður því miður oft í samræmi við það.
Látið er að því liggja að lífeyrissjóðakerfið sé lélegt, það kosti of mikið og kerfið skili ekki til lífeyrisþega því sem lofað var. Í skýrslum OECD er því hins vegar haldið fram að íslenska lífeyriskerfið standist fyllilega samanburð við vestrænar þjóðir. Íslendingar séu komnir mjög langt á þeirri vegferð að byggja upp þriggja stoða kerfi að fyrirmynd Alþjóðabankans og Evrópusambandsins. Fáar þjóðir hafi náð jafn langt og Ísland í þeim efnum. Staðreyndin er hins vegar sú að þær kannanir ná ekki til þeirra breytinga sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til á síðustu árum.
Vaxandi jaðarskattlagning stjórnmálamanna á skyldusparnað launamanna í lífeyrissjóðunum er nefnilega langstærsti þátturinn í skerðingu lífeyris aldraðra og hefur réttilega verið gagnrýnd af hálfu lífeyrisþega. Lífeyrissjóðirnir hafa skilað því sem gert var ráð fyrir í upphafi. Ríkisstjórnir Íslands síðustu áratugi hafa hins vegar markvisst skert lífeyri í gegnum jaðarskatta með því að nánast afnema grunnlífeyri TR. Í samningum milli stjórnvalda og launamanna átti grunnlífeyrir TR hins vegar að vera fyrsta stoð í lífeyriskerfi landsmanna. Engin ríkistjórn í Evrópu utan Íslands hefur haft til að bera það hugarflug að ganga jafn langt og íslenska þjóðþingið og afnema stjórnarskrárvarinn rétt skattborgara til grunnlífeyris.
„Lífeyrisþegum hefur verið gert að búa við allt að 100% jaðarsköttun“
Vandinn felst í vanhugsuðum ákvörðunum stjórnmálamanna sem hafa framkallað miklar víxlverkanir og mismunun í skattlagningu. Lífeyrisþegum hefur verið gert að búa við allt að 100% jaðarsköttun og þá þverbrotin sú stefnan sem mörkuð var í upphafi með ákvæði um grunnlífeyri úr gegnumstreymiskerfi almenna tryggingakerfisins. Þær þjóðir sem við berum okkur saman við viðurkenna þessa reglu og lágmarksgrunnlífeyrir almenna tryggingakerfisins í nágrannalöndum okkar nemur um 200 þúsund krónum á mánuði.
Í áðurnefndum samningum um lífeyri hefur önnur stoð lífeyrisgreiðslna verið sjóðsöfnun með skyldusparnaði í sameignarlífeyrissjóð og þriðja stoð söfnun í séreignarsjóð. Þessar stoðir áttu að koma ofan á grunnlífeyrinn, þannig myndi lífeyrir samtals nema að lágmarki um 70% af þeim meðalævilaunum sem greitt var af í gegnumstreymi skattkerfisins og skyldusparnað í lífeyriskerfinu.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, hefur komið fram með ábendingar sem eru sannarlega umhugsunarverðar og ekki síst vegna þeirrar stefnubreytingar sem stjórnmálamenn okkar hafa lagt í. Hann bendir á að líkur séu á að lífeyrissjóðirnir geti ekki einir skilað þeirri ávöxtun sem þarf til að viðhalda þeim lífeyri sem dugi lífeyrisþegum til framfærslu. Hlutabréfamarkaðurinn muni ekki vaxa nægilega mikið til að mæta fjárfestingarþörf sjóðanna. Raunvextir á Íslandi hafi lækkað mikið og gætu hæglega lækkað enn frekar. Lífeyrissjóðir verði að búa sig undir að raunvextir ríkisbréfa verði á bilinu 0-3% og takast á við þann veruleika.
Þarna eru gild rök fyrir því að nauðsynlegt sé að viðhalda gegnumstreymiskerfi almenna tryggingakerfisins og það sé skynsamlegra og réttlátara að styrkja gegnumstreymiskerfið (grunnlífeyri almannatrygginga). Það er hins vegar sannarlega þvert á þá stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa fylgt undanfarin ár. Það er eins og áður er getið reyndar þvert á þá samninga sem gerðir voru milli ríkisvaldsins og verkalýðshreyfingarinnar við stofnun almenna lífeyriskerfisins og þvert á þá stefnu sem fylgt er í nágrannalöndum okkar.
Athugasemdir