Fyrstu viðbrögðin voru feimnisleg þegar ég spurði í lokuðum hópi kvenna í kvikmynda- og sjónvarpsbransanum á Íslandi hvort þær hefðu orðið varar við kynferðislega áreitni í starfi sínu. Ættum við nokkuð að vera velta okkur upp úr svoleiðis neikvæðni? spurðu sumar þeirra á móti. Er ekki best að halda fram veginn?
Nokkrum dögum eftir að ég bar upp fyrirspurnina við bransasystur mínar riðu stjórnmálakonur á vaðið með frásagnir af áreitni og yfirgangi sem þær hafa mátt þola af hálfu karlkyns samstarfsmanna. Innblásin af hugrekki þeirra stofnaði ég #metoo hóp fyrir konur í sviðslistum og kvikmyndagerð. Sólarhring síðar voru 400 komnar í hópinn, tveimur dögum síðar náðum við 1.000 kvenna markinu og frásagnirnar streymdu inn. Ég var greinilega ekki sú eina sem hafði hrifist af kjarki stjórnmálasystra okkar. Sem stofnandi hópsins féll það í mitt skaut að taka við megninu af sögum þeirra kvenna sem kusu að vera nafnlausar, sjálfar. Sumar þeirra vildu ekki einu sinni að ég birti frásögnina í fésbókarhópnum, þær vildu bara að ég læsi hana. „Ég varð bara að segja einhverjum,“ sagði ein þeirra. „Ég gat ekki haldið á þessu ein, lengur.“
Mósaíkmyndin sem frásagnir þeirra mynda er ófögur. Þær lýsa áreitni í inntökuprófum í skóla, tungum sem er troðið upp í þær og höndum ofan í nærbuxur. Þær lýsa kennurum sem misnota aðstöðu sína gagnvart nemendum með kynferðislegum hætti, í náminu. Bjargarleysinu þegar mótleikarinn eða tæknimaðurinn káfar á þeim í miðri sýningu og þær geta ekki dregið mörk án þess að trufla áhorfendur. Auðmýkingunni þegar þær eru smættaðar niður í brjóst og rass í „bröndurum“ samstarfsfólks síns. Vanmættinum þegar þær segja stjórnendum frá en komast að því að verkferlar eru ekki til staðar, eða horfa upp á gerandann ganga beint inn í næsta starf án vandkvæða. Sumar þeirra lýsa hryllingnum sem felst í því að vera nauðgað og neyðast til að vinna með nauðgaranum eða sjá hann á forsíðum tímarita og hlusta á rödd hans í útvarpinu. Þótt fæstir þolendanna hafi tilgreint hver gerandi þeirra er virðist nokkuð ljóst að í sumum tilvikum er um sömu menn að ræða, miðað við lýsingar á aðferðunum og orðunum sem þeir viðhafa gagnvart þolendum sínum. Óhætt er að fullyrða að við Íslendingar eigum okkar eigin Weinstein. Og fleiri en einn, að öllum líkindum.
„Það síðasta sem þolendur þurfa er að neyðast til að greiða gerendum sínum háar fjárhæðir og lenda á sakaskrá fyrir að segja sannleikann.“
Þótt frásagnirnar séu jafn ólíkar og þær eru margar (og lesa má á tjaldidfellur.com) eiga þær allar sameiginlegt að lýsa hugrekki og styrk þeirra sem segja frá. Ísland er lítið land, bransinn okkar er ennþá minni, starfsöryggið er nær ekkert og því reiðir fólk sig á orðspor. Engin vill verða „klöguskjóðan“ eða „þessi húmorslausa“ sem fattaði ekki grínið þegar leikstjórinn kallaði hana hóru fyrir framan allt tökuliðið. Engu að síður standa þolendur með sér. Í hverri einustu frásögn skín styrkur kvenna í gegn, hvernig þær slá af sér þuklandi hendur og mótmæla yfirgangi og berjast á móti þegar á þær er ráðist. Því miður dugar það ekki alltaf til. En aðalatriðið er að engin þeirra ætti að þurfa þess, því áreitni og ofbeldi ætti ekki að líðast yfir höfuð. Allra síst á vinnustað, þar sem flest okkar verjum stærsta hluta dagsins.
Nú er freistandi að hefja heykvíslarnar á loft og heimta nöfn gerendanna sem eiga flesta þolendur að baki. Ég skil þá löngun og sjálf hef ég titrað af reiði við lestur sumra frásagnanna. En bræði okkar má ekki verða til þess að við köstum þolendum á spjótin. Sumir þeirra hafa engar sannanir í höndunum til að styrkja frásagnir sínar og ef við krefjum þá um nöfn gerenda sinna erum við um leið að baka þeim ærumeiðingarlögsókn. Það síðasta sem þolendur þurfa er að neyðast til að greiða gerendum sínum háar fjárhæðir og lenda á sakaskrá fyrir að segja sannleikann. Til þess er ekki hægt að ætlast. Auk þess verður vandi af þessari stærðargráðu ekki leystur með því einu að fjarlægja rotnustu eplin og telja málið dautt. Hér er þörf á gagngerri viðhorfsbreytingu innan stéttarinnar, því öll höfum við með einum eða öðrum hætti tekið þátt í andrúmsloftinu og þögguninni sem ríkt hefur hingað til. Öll höfum við hlutverki að gegna í upprætingu þess.
Fyrir okkur konurnar í sviðslistum og kvikmyndabransanum er ljóst að bylting hefur átt sér stað. Hún breytti kannski ekki Weinsteinunum á meðal okkar í einu vetfangi, en hún breytti okkur sjálfum. Við erum hættar að þjást í einrúmi. Við vitum hvers við erum megnugar og við finnum styrkinn í fjöldanum.
Lífið er það sem tekur við þegar tjaldið fellur.
Og við krefjumst þess að það sé boðlegt okkur öllum.
Athugasemdir