Benedikt Jóhannesson er hættur sem formaður Viðreisnar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingkona flokksins og starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er tekin við forystuhlutverkinu.
Þingflokkur Viðreisnar kom sér saman um þetta í dag og var ákvörðunin „staðfest af ráðgjafarráði flokksins“ að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Benedikt ákvað sjálfur að stíga til hliðar sem formaður og tilkynnti ákvörðun sína á fundi með þingflokki og stjórn flokksins. Á sama fundi var ákveðið að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, oddviti framboðs Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, tæki við hlutverki hans.
Jóna Sólveig Elínardóttir mun áfram gegna varaformannshlutverki í flokknum. Að þessu leyti er hin nýja skipan forystu Viðreisnar á skjön við 4. mgr. greinar 5.1. í samþykktum flokksins, en sú regla felur í sér að „formaður og varaformaður skulu ekki vera af sama kyni“. Á fundinum í kvöld var tilkynnt sérstaklega að gera þyrfti undanþágu frá umræddri reglu.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar eru ekki allir á eitt sáttir með formannsskiptin og hvernig staðið var að þeim. Stundin hefur rætt við trúnaðarmenn í flokknum sem segja að sér hafi brugðið hvernig ákvarðanatökunni var háttað. Eðlilegast hefði verið að fela Jónu Sólveigu, varaformanni Viðreisnar, að taka við keflinu af fráfarandi formanni. Í staðinn hafi þingflokkurinn og stjórn flokksins tekið ákvörðun um formannsskipti án samráðs við grasrótina og falið ráðgjafaráðinu að staðfesta þá ákvörðun.
Athugasemdir