Þegar þetta er skrifað hefur ekki enn fundist nein skýring á hinu hrikalega morðæði sem greip Stephen Paddock í Las Vegas á sunnudaginn.
Og raunar verður að teljast vafasamt að nokkru sinni muni finnast einhver skiljanleg skýring á þessu athæfi.
Önnur en sú að í hinni friðsælu Mesquite-borg í eyðimörkinni í Nevada hafi leynst nútíma-Herostratus.
Það er ansi hætt við að fjöldamorðingjar af tagi Paddocks séu ansi oft helteknir af Herostratusar-syndróminu, og svo sem líka margir þeirra sem þykjast fremja slík hryllingsverk í nafni einhverra trúarbragða eða stjórnmálahugsjóna.
En hver var Herostratus?
Þá víkur sögunni um 2.350 ár aftur í tímann.
Í grísku borginni Efesus, sem nú er á Eyjahafsströnd Tyrklands, hófst um árið 550 f.Kr. bygging á hofi einu miklu sem helgað var veiðigyðjunni Artemis. Feðgar tveir önnuðust bygginguna, mestu byggingameistarar síns tíma, og var ekkert til sparað, enda var það ríkasti maður heims, Krösus kóngur í Lydíu, sem kostaði bygginguna.
Þetta mun hafa verið fyrsta marmarahofið í Grikklandi, og var 115 metra að lengd og 46 metrar að breidd. Þrettán metra háar súlur héldu uppi þakinu, allar skreyttar með lágmyndum og málaðar.
Hofið þótti svo glæsilegt að strax í fornöld taldist það vera eitt af hinum sjö undrum heimsins, og ferðamenn komu hvaðanæva að til að skoða það.
Oft geisaði ófriður við Eyjahafið um þær aldir, en Artemisar-hofið mikla var friðheilagt og ævinlega látið í friði. Fólk í Efesus var stolt af hofinu sínu og þótti vænt um það.
Árið 356 fyrir Krist kviknaði hins vegar í því. Maður nokkur lagði eld að trjábitum sem héldu uppi hluta þaksins og þegar þeir brunnu hrundi þakið niður og fjöldi súlna féll. Veggirnir riðuðu og hrundu.
Hofið þótti gjörónýtt og Efesus-búar voru niðurbrotnir.
Brennuvargurinn náðist. Hann hét Herostratus og í rauninni er ekki annað um hann vitað en nafnið.
Í einhverjum heimildum segir að hann hafi verið af lágum stigum og jafnvel þræll, en þær heimildir eru ekkert sérlega áreiðanlegar.
Hann gæti eins hafa verið vel stæður fjárhættuspilari.
Við vitum það ekki. Við þekkjum bara þetta nafn.
Herostratus.
Og svo það að illvirkið hafði hann framið til þess eins að nafn hans myndi varðveitast.
Það játaði hann fúslega eftir að hafa verið gómaður af yfirvöldum.
Hann kveikti sem sé í hofinu heittelskaða til þess að tryggja sér eilíft líf í minningu samferðamanna og eftirkomenda.
Hann var að sækjast eftir frægð, alvöru frægð, og þetta var eina ráðið sem hann kunni.
Samkvæmt skilgreiningunni að illt umtal sé betra en ekki neitt.
Herostratus var pyntaður til dauða í refsingarskyni og borgaryfirvöld í Efesus mæltu svo fyrir að enginn mætti nokkru sinni taka sér nafn hans í munn - svo hann næði ekki tilgangi sínum með glæpnum, að verða nafnfrægur að eilífu fyrir voðaverkið.
Sagnfræðingur nokkur gat hins vegar ekki stillt sig um að nefna Herostratus á nafn, og þannig náði brennuvargurinn ætlunarverki sínu.
Og þessi grein er líka til marks um það.
Var það eitthvað svipað sem vakti fyrir Stephen Paddock? Var það kannski svo skelfilega einfalt?
Þá er hann alla vega löngu búinn að ná takmarki sínu. Hann náði því um leið og hann hleypti af fyrstu skotunum út um gluggann á hótelinu í Las Vegas.
Nú þegar koma upp 1.580.000 vefsíður þegar nafnið „Stephen Paddock“ er slegið inn á Google.
Og einhvers staðar við tölvu í einhverjum öðrum bæ eins og Mesquite situr nýr uppvaxandi Herostratus og fylgist með æ meiri frægð Paddocks og veit að það verða gerðar um hann bíómyndir og sjónvarpsþættir og skrifaðar bækur og þessi ennþá óþekkti Herostratus hugsar með sér:
„Hví bara hann? Hví ekki ég líka? Er þetta ekki skárra en að gleymast?“
Athugasemdir