Dómsmálaráðuneyti Sigríðar Andersen braut lög til að neita fjölmiðlum um upplýsingar um meðmælendur Róberts Downey til uppreistar æru.
Dómsmálaráðuneytið dró líka að svara fyrirspurnum um meðmælendur Hjalta Haukssonar, meira að segja eftir að úrskurður hafði fallið um skyldu stjórnvalda til að veita þær upplýsingar.
Nú liggur fyrir að faðir Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra í sama stjórnmálaflokki og dómsmálaráðherra, var einn meðmælendanna.
Látum vera að faðir forsætisráðherra veiti jafn ógeðslegum manni meðmæli til uppreistar æru (þið getið lesið dóminn til að sannfærast um að hann er ekkert minna en skrímsli). Það er fráleitt að dæma soninn fyrir föðurinn. En hvernig er hægt — og nú ávarpa ég stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins því öðrum finnst það ekki vera hægt — að hundsa hvernig framkvæmdavaldið er misnotað til að verja orðspor forsætisráðherra og ættingja hans? Hvernig getið þið endalaust stutt slíkt? Er þessi hegðun ósýnileg fyrir ykkur?
Minnumst þess að brotaþolar kölluðu eftir svörum: „Hvað gerðist í þessu ferli? Af hverju er öll þessi leynd?“ spurði Nína Rún Bergsdóttir, ein af brotaþolum Roberts Downey.
Sjálfur hugsa ég til orða Kára Stefánssonar um forsætisráðherra:
Þegar menn tilheyra fjölskyldu þar sem börn hafa fæðst með silfurskeið í munni í tvær kynslóðir er hætta á því að þeim sé eðlilegara að vera kóngulóin sem situr í miðjum vefnum sem tengir saman viðskipti og stjórnmál en að hlúa að almúganum í landinu. Eðlið er nefnilega oftast viljanum yfirsterkara.
Kæri Sjálfstæðismaður, hvar dregur þú mörkin?
Athugasemdir