Bjarni Benediktsson forsætisráðherra notaði stefnuræðu sína í gærkvöldi til að lýsa því yfir að „vinnumarkaðslíkanið“ - það hvernig við ákveðum launakjör í landinu - sé „ónýtt“ vegna þess að fólk fái of miklar launahækkanir.
Bjarni tók sérstaklega fram að það hefði gengið vel að „stjórna málum okkar“ á undanförnum áratugum, en „gamalgróið sundurlyndi á vinnumarkaði“ sé vandamálið.
Í grófum dráttum er það þannig að þeir sem stjórna hafa staðið sig vel, en þeir sem eru ekki í stjórnunarhlutverki og fara fram á bætt launakjör séu íslenska meinið.
Óstöðugleiki á ábyrgð Bjarna
En hver sem hefur fylgst með kjaramálum á Íslandi undanfarin ár sér hvað gerðist þar. Allt virtist „á réttri leið“ þegar kjararáð - skipað af stórum hluta af Bjarna sjálfum - tók ákvörðun um að hækka laun kjörinna fulltrúa um 44 prósent í einu skrefi á kjördag. Kjararáð hagaði því þannig að fólk gat ekki tekið afstöðu til þessarar hækkunar í alþingiskosningunum, vegna þess að ákvörðunin sjálf var tekin sama dag og við fáum tækifæri á fjögurra ára fresti til að hafa áhrif á gang mála, og tilkynnt eftir á.
Við vorum sem sagt gerð ófær um að hafa áhrif á þetta, fyrr en eftir fjögur ár, rétt eins og við fengum ekki tækifæri til að taka afstöðu á grundvelli skýrslu um skattaskjól, því Bjarni ákvað að geyma að birta hana fram yfir kosningar. Ef við hefðum viljað allsherjarábyrgð hefðum við hins vegar getað kosið þá flokka sem stæðu gegn óhóflegum launahækkunum hæst launaða fólks stjórnkerfisins.
Þau sem eru ósátt eru vandamálið
Þannig að þegar vantraust og deilur koma upp eftir að Bjarni fær 500 þúsund króna launahækkun á einu bretti og þingmenn 340 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum, er „gamalgróið sundurlyndi“ vandamálið, en ekki það hvernig sameiginlegum fjármunum okkar er beint til valdaelítu án þess að við fáum réttmætt tækifæri til að bregðast við því með lýðræðislegum hætti ef okkur langar.
Fólkið sem kjararáð hækkaði launin hjá velur hverjir sitja í kjararáði. Hagsmunaáreksturinn er áþreifanlegur og ásetningur um ógagnsæi augljós. Þrír af fimm fulltrúum kjararáðs eru skipaðir af Alþingi, þar með miðstjórnarmaður Sjálfstæðisflokksins sem er formaður, og einn til viðbótar skipaður beint af Bjarna Benediktssyni sjálfum.
Vinnumarkaðslíkanið á Íslandi væri sannarlega ónýtt ef þeir sem gæta hagsmuna launþega myndu sætta sig við að þröngur valdahópur hljóti 44 prósent launahækkanir á einu bretti á sama tíma og samkomulag er í gildi um hóflegar launahækkanir almennra launþega.
En þetta er klassískt hagsmunamódel sem þekkist um allan heim: Þeir sem stjórna beina verðmætum úr sameiginlegum sjóðum lands síns í áttina að sjálfum sér á laun. Og þegar kvartað er undan því er sá sem gagnrýnir vandamálið sjálft. „Ekkert efni í eitthvert rifrildi hér,“ sagði Bjarni í desember síðastliðnum, þegar hann varaði við því að Íslendingar „kunni sér ekki hóf þegar vel árar.“
Fólkið er „erfiðara viðureignar“
Kannski vill fólk halda því þannig að almennir launþegar séu á lágum launum til að hámarka hagnað og arð fyrirtækja og eigenda þeirra. Eins og til dæmis ISS, sem er í eigu fjölskyldunnar hans Bjarna. Sem varar við því í síðasta ársreikningi að hagvöxtur sé vandamál vegna þess að láglaunafólk í vinnu við hreingerningar vilji hærri laun: „Hagvöxtur gerir það hins vegar að verkum að starfsmannamál verða erfiðari viðureignar á því sviði er félagið starfar“.
En ef fólk vill halda almennum launþegum niðri í kjörum, í tilraun til að reyna að ná upp hagvexti með auknum arðgreiðslum og mögulegri fjárfestingu í kjölfarið, væri heiðarlegast að segja það bara, frekar en að útmála launþega sem sundurlynt vandræðafólk. Því með þessum aðferðum er efni umræðunnar fært yfir í það grundvallaratriði hvort fólk hafi heimtingu á því að vera ósammála því sem gert er. En þar sem þetta eru skilaboðin í stefnuræðu hans virðist vera að stefnan sé að setja umræðuna á núllpunkt.
Gagnstæðis hagsmunir eru óumflýjanlegir og varanleg samstaða er ekki einkenni lýðræðisríkis. Vandamálið á Íslandi er hugsanlega ekki sundurlyndið sem slíkt, heldur orsökin - réttmætt tilefni sundurlyndis.
Líklega væri heilbrigðara að horfa á þetta öfugt: Ef krafa þín sem leiðtoga er að aðrir axli ábyrgð þarftu að byrja á sjálfum þér. En í staðinn er stefna Bjarna að útmála þig sem vandamálið - vandamálið sé sú afstaða þín að þú eigir rétt á að vera ósátt(ur) ef kjör þín styrkjast ekki til jafns við hann og hans hóp - það sem þau kalla „sundurlyndi“, „sundurlyndisfjandann“ og svo framvegis.
Það sem er ónýtt á Íslandi er ábyrgðarlíkanið - hvernig fólk í ábyrgðarstöðu álítur sig ábyrgt fyrir því sem gengur vel en krefur aðra, í erfiðari stöðu, um að taka á sig óþægilega ábyrgð sem það sleppur sjálft við.
---
Nánar um efnið: OECD - Efnahags- og framfarastofnun Evrópu - benti á það í skýrslu sinni um Ísland í júní að gera mætti umbætur vinnumarkaði, þótt niðurstaðan væri að „þetta kerfi hefði náð miklum árangri“ í því að dreifa verðmætasköpun í samfélaginu. Eitt lykilatriðið væri hins vegar að skapa traust á vinnumarkaði. Formenn stéttarfélaga hafa margir bent á að friðurinn á vinnumarkaði hafi verið rofinn með óhóflegum launahækkunum kjararáðs, sem heyrir undir ábyrgðarsvið Bjarna Benediktssonar, sem bendir aftur á annað og aðra sem vandamálið.
Athugasemdir