„Það kemur ekki til greina að ráðherra ræði hér einstök mál,“ sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, spurði hana hvenær kynferðisbrotamaðurinn Robert Downey hefði sótt um uppreist æru.
Hún neitaði einnig að svara spurningu Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna, um hvort ráðuneytið hygðist setja veitingu uppreist æru almennt „í frost“ meðan unnið er að breytingum á þeim lögum sem gilda um málaflokkinn.
Eftir að Sigríður hafði neitað að svara spurningu Andrésar, sem hann tók fram að sneri með almennum hætti að verklagi í ráðuneytinu, tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, að fundurinn væri opinn og því yrði að gæta að meðferð trúnaðarupplýsinga.
Síðar á fundinum spurði Þórhildur Sunna aftur út í mál Roberts Downey og sagði Sigríður þingmenn þá verða að „bera þroska“ til þess að sætta sig við að einstök mál sem koma inn í ráðuneytið verði ekki rædd á þessum vettvangi.
Eins og Stundin greindi frá í gær beindi Áslaug Arna því til þingmanna nefndarinnar í síðustu viku að ekki mætti ræða efnislega um uppreist æru barnaníðingsins Robert Downey á opnum fundi nefndarinnar. Hún féll hins vegar frá þeirri kröfu eftir að nefndasvið Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að nefndarmenn hefðu rétt til þess að fara fram á og ræða upplýsingar um uppreist æru einstakra aðila.
Bergur Þór Ingólfsson, faðir stúlku sem Robert braut gegn þegar hún var á unglingsaldri, hefur haldið því fram að Downey hafi fengið sérmeðferð þegar hann sótti um og fékk uppreist æru.
Í hegningarlögum er kveðið á um að fimm ár séu liðin frá því að refsingu lauk áður en hægt sé að veita mönnum sem hafa framið alvarleg brot uppreist æru. Róbert sótti um uppreist æru árið 2014 en seinni dómurinn yfir honum, þar sem hann var dæmdur fyrir brot gegn fimmtu stúlkunni, féll árið 2010. Færsla Bergs á Facebook, þar sem hann gagnrýndi málsmeðferðin í máli Roberts Downey, vakti mikla athygli en þar skrifaði hann:
„Mál Roberts fær ekki neitun 2014 þótt ekki séu liðin fimm ár frá því að dómur er úttekinn eins og lög kveða á um og virðist vera reglan um aðra umsækjendur. Hann fær heldur ekki neitun árið 2015 þrátt fyrir að tíminn sé ekki liðinn en hann lauk fangelsisvist árið 2011 og fimm ár þurfa að líða frá því að dómur sé að fullu út tekinn. Umsókn hans er látin liggja inni í ráðuneytinu til ársins 2016 og forseti skrifar undir uppreist æru hans 16. september það ár.“
Athugasemdir