Ahmadi fjölskyldan, átta manna fjölskylda frá Afganistan, hefur fengið alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi til fjögurra ára. Fjölskyldunni var tilkynnt ákvörðun Útlendingastofnunar í hádeginu í dag, en hún hefur verið hér á landi frá því í desember 2015. „Þetta eru frábærar fréttir og stór sigur fyrir þau,“ segir Eva Dóra Kolbrúnardóttir, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við Stundina. „Þau eru öll mjög þakklát og glöð í dag. Þeim líður mjög vel á Íslandi og segja að allir hér á landi hafi reynst þeim vel. Þau geta sofið rólega í nótt en þau hafa búið við mikið óöryggi og óvissu undanfarin ár.“ Eva Dóra segist virkilega ánægð með niðurstöðuna og segir bæði Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafa unnið málið af mikilli fagmennsku.
Ahmadi fjölskyldan flúði ofsóknir og árásir talibana, en á meðal þeirra er stúlka sem var barin til óbóta af talibönum aðeins þriggja ára gömul með þeim afleiðingum að hún lamaðist öðrum megin í andlitinu. Fjölskyldan telur ung hjón, fjögur ung börn þeirra og aldraða foreldra fjölskylduföðursins, Mir Ahmad Ahmadi. Útlendingastofnun, sem og kærunefnd Útlendingamála, hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að vísa fjölskyldunni úr landi til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, en fjölskyldan átti viðkomu í Þýskalandi á leið sinni til Íslands.
Flúðu eftir skelfilega árás
Stundin sagði sögu Ahmadi fjölskyldunnar í desember síðastliðnum. Fjölskyldan kemur frá litlu héraði skammt frá Jalalabad og er af litlu þjóðarbroti Shía-múslima, en níutíu prósent Afgana eru hins vegar Súnní-múslimar. Þau störfuðu sem bændur í Afganistan og segja lífið hafa verið gott þar til talibanar herjuðu á héraðið og reyndu að fá unga menn, Mir þar með talinn, til að ganga til liðs við sig. Mir segist hins vegar alltaf hafa neitað. „Ég vissi að það myndi aðeins þýða dauði. Ef ég myndi ganga til liðs við talibana yrði ég drepinn af annaðhvort afgönskum stjórnvöldum eða bandarískum, og ef ég myndi ganga til liðs við Bandaríkjamenn yrði ég drepinn af talibönum. Ég vildi bara fá að lifa í friði. Ég vil ekki stríð,“ sagði Mir í viðtali við Stundina.
Einn daginn réðust talibanar hins vegar til atlögu og beittu fjölskylduna hryllilegu ofbeldi, árás sem átti eftir að hafa gríðarlegar afleiðingar í för með sér. Mennirnir brutust inn á heimili fjölskyldunnar og byrjuðu á því að berja Mir í andlitið með þeim afleiðingum að hann missti tvær tennur. Við það hljóp elsti sonur þeirra hjóna, Mostaf, sem þá var fimm ára, til föður síns og tók utan um hann. Mennirnir köstuðu drengnum þá ofan í tóma kartöflugeymslu, nokkurs konar op í gólfinu, sem handleggsbrotnaði illa við fallið. Því næst réðust mennirnir á dóttur þeirra, Rokshar, sem þá var tæplega þriggja ára gömul, og börðu hana aftan í hnakkann með riffilskafti. Rokshar féll í gólfið við árásina og lýsir Mir því hvernig það hafi strax byrjað að blæða úr nefinu á henni og eyrum. Eftir það flúðu árásarmennirnir af vettvangi.
Yngsta barnið, Saheh, var aðeins tæplega tveggja ára þegar árásin átti sér stað. Hann var talandi áður en atburðirnir gerðust, en hætti að tjá sig eftir að hafa orðið vitni að öllu því sem fram fór. Fjórða barnið kom síðan í heiminn á Íslandi á síðasta ári.
Rokshar missti meðvitund við árásina og fékk ekki meðvitund aftur fyrr en um viku síðar. Læknar á spítalanum bjuggu fjölskylduna undir það versta og sögðu ólíklegt að hún myndi lifa þetta af. Höggið hefði verið of fast fyrir lítið, óþroskað höfuð telpunnar og það hefði blætt inn á heila hennar. Það kom því bæði fjölskyldunni og læknum á óvart þegar sú litla vaknaði úr dáinu viku eftir árásina. Hún hlaut hins vegar varanlega lömun í hægri hluta andlits.
Erfiður flótti
Eftir árásina tók fjölskyldan ákvörðun um að flýja heimalandið. Fyrst fóru þau til höfuðborgarinnar, Kabúl, þar sem þau dvöldu í nokkra mánuði á meðan þau skipulögðu flóttann. Þar hafi þau hins vegar fundið fyrir miklu óöryggi, enda árásir á Shía-múslima daglegt brauð í borginni. Eitt af því sem þau þurftu meðal annars að ákveða var hvar þau gátu séð fyrir sér að setjast að með börnin. Eftir að hafa kynnt sér málin rækilega var aðeins eitt land sem kom til greina – Ísland. „Við veltum fyrir okkur hvar væri gott fólk, hvar við myndum ekki upplifa kynþáttahatur og hvar væri gott að búa. Við komumst að því að á Íslandi væri enginn her og ef það er enginn her er landið örugglega öruggt. Þið þurfið ekki að berjast, þurfið ekki að fara í stríð. Þess vegna ákváðum við að koma til Íslands,“ útskýrir Mir.
Fjölskyldan notaði aleigu sína til þess að borga smyglara alls um tuttugu þúsund dollara til þess að komast til Evrópu. Í upphafi ferðar voru þau um sjötíu í hóp sem ýmist gekk eða fór með bílum í gegnum Íran og gisti ýmist í gripahúsum eða undir berum himni. Þau fóru til að mynda fótgangandi yfir landamæri Tyrklands og Íran. Frá Tyrklandi fór fjölskyldan með gömlum bát að næturlagi yfir til Grikklands, en þau telja að um fimmtíu manns hafi verið um borð í bátnum – þar af fjöldi barna. Frá Grikklandi lá leiðin til Þýskalands í gegnum Makedóníu, Serbíu, Ungverjaland og Austurríki. Þau komu til Þýskalands í rútu ásamt öðrum flóttamönnum og tók herinn á móti þeim, að sögn Mirs. Hann segist strax hafa gert mönnunum ljóst að fjölskyldan hygðist ekki sækja um hæli í Þýskalandi, heldur væru þau á leiðinni til Íslands. Þeim hafi hins vegar verið sagt að þau yrðu að gefa fingraförin sín í Þýskalandi, en það væri eingöngu til þess að halda utan um hversu margir flóttamenn færu í gegnum landið. Þegar þau hefðu gefið fingraförin sín væri þeim frjálst að halda ferð sinni til Íslands áfram. Eins og átti eftir að koma í ljós gerði fjölskyldan sér ekki grein fyrir afleiðingum fingrafaratökunnar, en það er á grundvelli hennar sem Útlendingastofnun vildi senda þau aftur til Þýskalands.
Athugasemdir