Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðingur greinir frá því í kvöld að hann sé loks orðinn ósammála Donald Trump Bandaríkjaforseta, þegar kemur að yfirtöku Grænlands. Hann segir þó að margir séu haldnir Trumptruflunarheilkenni.
Hannes var lengi vel einn helsti hugmyndafræðingur íslenskra stjórnmála, sem náinn bandamaður Davíðs Oddssonar, áður forsætisráðherra og nú ritstjóra Morgunblaðsins. Talaði Hannes fyrir harðri frjálshyggju, en eftir efnahagshrunið var hann meðal annars fenginn af þáverandi formanni Sjálfstæðisflokksins til að vinna skýrslu, fjármagnaða af íslenska ríkinu, um erlendar orsakir hrunsins.
„Ég hef verið hlynntur mörgu, sem Trump gerir,“ segir Hannes Hólmsteinn á Facebook í kvöld.
„Evrópuríkin eiga að greiða sjálf fyrir varnir sínar. Rétt er að lækka skatta og fækka reglugerðum. Kenningin um hamfarahlýnun er studd hæpnum rökum, enda hljóta loftslagsbreytingar að vera að miklu leyti náttúrunnar verk, og því rétt að laga sig að þeim og virkja nýjustu tækni til þess. Karlar eiga ekki að keppa í kvennaíþróttum. Landamæri geta ekki verið galopin fyrir þá, sem koma í þeim tilgangi einum að komast á bætur,“ segir hann.
Þá kvartar hann undan hugmyndafræðilegum áherslum í háskólum í fjölmiðlum. „Öfgavinstrimenn hafa hreiðrað um sig í háskólum og á fjölmiðlum og misnota aðstöðu sína,“ segir hann og lýsir stuðningi við málstað Ísraels, þrátt fyrir að alþjóðastofnanir hafi komist að þeirri niðurstöðu að Ísrael stundi þjóðarmorð. Einnig styður hann ýmsar hernaðaraðgerðir Trumps.
„Rétt er að styðja af alefli eina vestræna lýðræðisríkið í Miðausturlöndum, Ísrael. Það var þjóðþrifaverk að sprengja í tætlur kjarnorkubúnað erkiklerkanna í Íran og sækja Maduro til Venesúela, og sýndi hvort tveggja undraverða tæknilega getu Bandaríkjahers. Margt fleira má telja.“
Hannes tekur fram að þrátt fyrir að hann sé nú ósammála Trump í því máli sem viðkemur yfirtöku hans á Grænlandi, segist hann ekki haldinn trumptruflun.
„Ég hef ekki talið mig haldinn Trump-heilkenninu, Trump Derangement Syndrome, en sé það ljóslifandi á sumum vinum mínum, sem geta ekki viðurkennt neitt rétt eða eðlilegt frá Trump. En í Grænlandsmálinu hefur Trump farið langt fram úr sjálfum sér. Þessi færsla hans er með ólíkindum.“
Hannes bendir þar á færslu Bandaríkjaforseta þar sem hann hótar refsitollum upp á 10% og svo 25% gegn þeim þjóðríkjum sem standa gegn yfirtöku hans á Grænlandi.



















































Athugasemdir (1)