Talsmaður rússneskra stjórnvalda sagði í dag að nýjustu yfirlýsingar Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um Úkraínu – þar sem hann sagði að Rússland myndi vinna stríðið og að Úkraína yrði að láta af hendi land – væru í samræmi við sjónarmið Rússa.
Í viðtali við Politico sagði Trump einnig að leiðtogar Evrópu væru „veikir“ og skoraði á Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, að halda kosningar.
„Að mörgu leyti, hvað varðar NATO-aðild, hvað varðar landsvæði, hvað varðar hvernig Úkraína er að tapa landi, þá er það í takt við okkar skilning,“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, við fréttamenn, þar á meðal AFP, í dag.
Hann kallaði ummæli Trumps „mjög mikilvæg“.
Trump sagði að Rússar hefðu sterkari samningsstöðu í viðræðum um að binda enda á stríðið vegna stærðar landsins og sagði að Úkraína myndi aldrei ganga í NATO.
Eftir viðtalið sagði Zelensky að hann væri reiðubúinn að halda nýjar kosningar í Úkraínu að því gefnu að öryggi yrði tryggt.
Innrás Rússlandshers – sem varð til þess að stjórnvöld í Kyiv settu herlög – hefur gert ómögulegt að halda kosningar í landinu samkvæmt úkraínskum lögum.
Rússar hafa lengi kallað eftir falli Zelenskys og kallað hann ólögmætan leiðtoga. Áður höfðu þeir vísað til þess að nasismi réði ríkjum í Úkraínu, en Zelensky er þó Gyðingur.
„Við munum sjá hvernig atburðir þróast,“ sagði Peskov um tilkynningu Zelenskys. Þrátt fyrir gagnrýni á úkraínskt lýðræði er lýðræði í Rússlandi fótum troðið og stjórnarandstæðingar hafa verið fangelsaðir og myrtir á síðustu árum. Frelsi fjölmiðla, sem var lítið fyrir, var að miklu leyti afnumið eftir „sértæku hernaðaraðgerðina“ sem refsivert var að kalla „stríð“.
Bandaríkin hafa aukið viðræður sínar við bæði Rússland og Úkraínu til að binda enda á verstu átök Evrópu síðan í seinni heimsstyrjöldinni.
Í viðtali sínu við Politico sagði Trump að það væri „erfitt“ að ná samkomulagi og að „ein af ástæðunum er sú að hatrið milli Pútíns og Zelenskys er gríðarlegt“. Hann hafði lýst því yfir fyrir forsetakosningarnar í fyrra að hann myndi binda enda á stríðið á fyrsta degi sínum sem forseti, en gagnrýnendur hans vöruðu við því að hann myndi þvinga fram uppgjöf Úkraínu í því skyni.

















































Athugasemdir