Rannsakendur á Íslandi telja að meintar mútugreiðslur Samherja til namibískra áhrifamanna hafi verið nær tvöfalt hærri en upphaflega var talið, eða hátt í 3 milljarðar króna á tímabilinu 2012 til 2019 en ekki 1,5 milljarður eins og áður var talið.
Þetta kom fram í Speglinum á RÚV í gær.
Forsvarsmenn Samherja hafa varpað ábyrgð á greiðslunum á fyrrverandi framkvæmdastjóra Samherja í Namibíu, Jóhannes Stefánsson. En samkvæmt rannsakendum fór megnið af greiðslunum fram eftir að Jóhannes hætti, eða ríflega 2 milljarðar króna, og í sumum tilfellum í gegnum félög sem hann stýrði aldrei eða voru ekki starfandi þegar hann lét af störfum.
„Samherji hefur engin viðbrögð við þessari frétt“
„Samherji hefur engin viðbrögð við þessari frétt,“ sagði í svari Samherja við umfjöllun Spegilsins. „Við horfum til framtíðar og sem íslenskt fyrirtæki í dag einbeitum við okkur að rekstrinum hér á landi og þeim áskorunum sem honum fylgja.“
Jóhannes steig fram sem uppljóstrari árið 2019 þegar Kveikur, Stundin (fyrirrennari Heimildarinnar), Al Jazeera og Wikileaks fjölluðu um Samherjamálið sem varðaði meintar mútugreiðslur Samherja til að komast yfir fiskveiðiheimildir í Namibíu og flókið net félaga sem vakti grunsemdir um skattaundanskot.
Héraðssaksóknari lauk í sumar rannsókn á málinu en níu Íslendingar hafa réttarstöðu sakbornings samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar. Beðið er þess að saksóknari taki ákvörðun um ákærur í málinu.
Vörpuðu ábyrgð á uppljóstrarann
„Það er alveg ljóst að fyrrverandi framkvæmdastjóri stýrði starfseminni frá A til Ö,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, sem tók tímabundið við sem forstjóri Samherja þegar málið kom fyrst upp. „Það var allt of lítil vitneskja um það innan yfirstjórnar Samherja hvað var í gangi í Namibíu. Það voru í raun engin svona tæki til staðar sem gáfu einhver ljós um það að það væri eitthvað í ólagi.“
Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, hefur sömuleiðis vísað ábyrgðinni á Jóhannes. „Mistök Samherja eru að hafa ekki haft betra eftirlit með rekstrinum í Namibíu og þar af leiðandi betri yfirsýn.“
Tveir namibískir ráðherrar sögðu af sér út af málinu, Bernhardt Esau sjávarútvegsmálaráðherra og Sacky Shangala dómsmálaráðherra.
Í Namibíu er búist við því að réttarhöld í málinu þarlendis hefjist upp úr áramótum. Tíu hafa verið ákærð í namibíska hluta málsins.




















































Athugasemdir