Volodomyr Zelensky forseti Úkraínu þakkaði íslenskum stjórnvöldum og íslensku þjóðinni fyrir stuðning sinn við Úkraínumenn í ávarpi sínu til Alþingis Íslendinga nú um miðjan dag. Þingmenn voru snortnir yfir ávarpi Zelenskys, sem þeir lýstu sem áhrifamiklu og sögulegum viðburði. Samstaða er um að styðja áfram með kröftugum hætti við úkraínsku þjóðina.
Zelensky ávarpaði þingið og bauð góðan dag á íslensku. Hann minntist tengsla þjóðanna tveggja sem næðu aftur í aldir. Hann þakkaði íslenskum stjórnvöldum fyrir stuðning þeirra við refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi en hvatti til að enn yrði bætt við og engin viðskipti yrðu stunduð við einræðisríkið Rússland. Zelensky sagði að vinna þyrfti stríðið gegn Rússum en að því loknu gæti enduruppbygging Úkraínu hafist. Þar gæti reynsla Íslendinga að uppbyggingu í orkumálum komið að góðum notum. „Ég er þess fullviss að munum fljótlega geta tekist það verkefni á hendur en fyrst verðum við að verja frelsi okkar, sameiginlegt frelsi. Og við munum gera það. Takk fyrir Ísland. Dýrð sé Úkraínu.“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði í samtali við Stundina að hún hefði þurft að halda aftur af tárunum þegar hún hlýddi á ávarp Zelenskys. Þórdís Kolbrún sagði enn fremur að enginn punktur yrði settur við aðstoð við Úkraínu meðan stríðið geysaði, bætt yrði áfram í.
Útilokar ekki að vísa sendiherra Rússlands úr landi
Spurð hvort til greina komi að vísa sendiherra Rússlands úr landi sagði Þórdís að hún útilokaði ekkert í þeim efnum. „Ég hef líka sagt að við fylgjum okkar vina- og bandalagsþjóðum í slíkum ákvörðunum. Litháen hefur með ákveðnum hætti gripið til ákveðinna ráðstafana en önnur lönd hafa ekki vísað sendiherranum sjálfum úr landi,“ sagði Þórdís. „Diplómatísk samskipti eru ekki bara mikilvæg á friðartímum, þau eru líka mikilvæg á stríðstímum. Samskipti okkar við rússneska sendiráðið eru í algjöru lágmarki. Hann hefur verið kallaður inn í ráðuneytið þar sem við höfum getað komið okkar skilaboðum á framfæri.“
„Þegar kemur að Kína þá vandast málið aðeins.“
Spurð hvort til greina komi að gera breytingar á samskiptum við ríki sem hafi lýst stuðningi við Rússa eða neitað að fordæma innrásina, eins og Hvíta-Rússland eða Kína, svaraði Þórdís Kolbrún því til að þegar væru til staðar ákveðnar viðskiptaþvinganir eða refsiaðgerðir gagnvart Hvíta-Rússlandi. „Þegar kemur að Kína þá vandast málið aðeins. Þau hafa ekki lýst yfir stuðningi og talað um að landamæri skipti máli en hafa heldur ekki fordæmt [innrásina]. Þannig að við sjáum hvað setur en við erum í raun ennþá í fullum samskiptum og viðskiptum við Kína.“
Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi hafa stutt stríðsrekstur Rússa í Úkraínu með ráðum og dáð. Kjörræðismaður Íslands í Hvíta-Rússlandi, Aleksander Moshensky, hefur ítrekað verið nefndur til sögunnar sem líklegur til að lenda á lista Evrópusambandsins yfir þá sem sæta skuli refsiaðgerðum vegna náins sambands síns við forseta Hvíta-Rússlands, Aleksander Lukashenko. Í umfjöllun Stundarinnar um mál Moshenskys bar fjöldi viðmælenda að ástæða þess að hann hefði hingað til sloppið undan því væri að íslensk stjórnvöld hefðu beitt sérr fyrir hans hönd. Um miðjan apríl greindi Stundin þannig frá því að fulltrúar íslenska utanríkisráðuneytisins hefðu hringt hátt í þrjátíu símtöl í fulltrúa Evrópusambandsins vegna málsins.
Spurð hvort hún gæti frætt blaðamann um hvar mál Moshenskys væri statt, þegar kæmi að hugsanlegri veru hans á lista Evrópusambandsins um fólk sem beita ætti refsiaðgerðum, sagðist Þórdís Kolbrún ekki geta það. „Ég hef ekki heyrt af því en ég hef sagt að hvorki ég né utanríkisþjónustan munum halda hlífiskyldi yfir nokkrum sem á heima á slíkum lista.“
Augljóst að einhver hagsmunagæsla hefur átt sér stað
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði ávarp Zelenskys hafa hitt sig beint fyrir og með öðruvísi hætti en önnur hans ávörp sem hann hefði fram að þessu séð. Spurður hvort hann teldi nóg að gert í aðgerðum Íslands til stuðnings við Úkraínu sagði Logi að erfitt væri að svara því. „Aðalatriðið er að við gerum allt sem við getum,“ sagði Logi og vísað þar bæði til íslenskra stjórnvalda en eins til íslensks almennings.
Þegar Logi var spurður um afstöðu hans varðandi stöðu Aleksanders Moshenskys sagði hann að ekki hefðu fengist nægilega góð svör vegna málsins. „Það er augljóst mál að ef tugur samtala hefur átt sér stað um stöðu hans þýðir það að þar er á ferðinni einhvers konar hagsmunagæsla, sem er auðvitað til vansa fyrir íslensk stjórnvöld og utanríkisþjónustuna. Ég á mjög erfitt með að sjá að þessi maður geti sinnt ræðismannshlutverki fyrir Ísland.“
Engin breyting orðið á afstöðu Vinstri grænna gagnvart NATO
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lýsti því, spurð hvar Ísland gæti bætt í er varðaði stuðning sinn við Úkraínu, að Ísland hefði tekið mjög eindregna afstöðu með þeim efnahagsþvingunum sem lagðar hefðu verið á Rússa á alþjóðavettvangi og því yrði haldið áfram. „Við höfum sömuleiðis verið að bæta í varðandi okkar framlög vegna mannúðarmála og núna síðast í gær, líka bara til almennrar efnahagsuppbyggingar í landinu.“
„Við höfum ekki gert neinar breytingar á stefnu okkar“
Katrín sagði síðastliðinn miðvikudag, eftir fund norrænna fosætisráðherra, að íslensk stjórnvöld myndu gera hvað þau gætu til að greiða fyrir hraðri aðild Finna og Svía að NATÓ, kæmi til þess að löndin tvö sæktu þar um. Flokkur Katrínar, Vinstri græn, er andvígur aðild Íslands að NATÓ og aðild að hernaðarbandalögum. Spurð hvort að afstaða hennar, eða flokksins, væri í einhverju breytt eftir atburði síðustu mánaða kvað Katrín svo ekki vera. „Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar ákveðið að ef niðurstaða þjóðþinga Finna og Svía verður sú að þau óski eftir að gerast aðilar, þá mun ég styðja þau í því og við munum greiða fyrir því í gegnum þingið. Það er meðal annars vegna eindreginna óska forystumanna þessara þjóða. [...] Við höfum ekki gert neinar breytingar á stefnu okkar og það hefur ekki verið nein krafa um að breyta henni. Við erum auðvitað í þeirri stöðu að á sínum tíma ákváðum við að fara í þessa ríkisstjórn og standa með samþykktri þjóðaröryggisstefnu Alþingis. Kannski var það umdeildara þá en nú, að taka þá ákvörðum,“ sagði Katrín.
Samhugur þarf líka að ná til uppbyggingarstarfsins
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði Zelensky stuttlega áður en Úkraínuforseti flutti tölu sína. Guðni lýsti því að ávarp Zelenzky hefði verið áhrifamikið og sterkt.
„Mér þótti vænt um að hann þakkaði fyrir þann stuðning sem íslensk stjórnvöld hefðu sýnt í verki. Mér þótti líka magnað að á þessari örlagastundu í lífi úkraínsku þjóðarinnar, þegar erlendur innrásarher fer offorsi, skuli hann samt sem áður horfa vonaraugum til framtíðar. Hann nefndi þá að mikið verk yrði að vinna og gott yrði að geta leitað til okkar. Ég vona að samhugur okkar, sem við höfum sýnt núna, nái líka til þess tímabils í sögu Úkraínu, þegar uppbyggingarstarfið hefst eftir þessa hörmulegu innrás. Þá getum við líka lagt okkar að mörkum.“
Athugasemdir (2)