Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók sér sjö og hálfan mánuð í að staðfesta synjun Barnaverndarstofu um afhendingu gagna er varða meðferðarheimilið Laugaland í Eyjafirði. Með því fór stofnunin langt fram úr þeim tímamörkum sem lögð eru til grundvallar í upplýsingalögum. Minnisblað forstjóra Barnaverndarstofu, Braga Guðbrandssonar, til félagsmálaráðherra, þar sem Bragi lagði mikla áherslu á að ráðherra myndi gera sem minnst úr lýsingum á ofbeldi á hendur stúlkum sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu, er meðal þeirra gagna sem fást ekki afhent.
Stundin hóf í lok janúar síðastliðins umfjöllun um ofbeldi og harðræði sem stúlkur sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, á árunum 1997 til 2007 greindu frá að þær hefðu verið beittar af forstöðufólki heimilisins, Ingjaldi Arnþórssyni og Áslaugu Brynjarsdóttur. Alls hafa tíu konur stigið fram í Stundinni og lýst hrottalegu ofbeldi, harðræði og vanvirðingu sem þær hafi verið beittar á heimilinu á þessum tíma.
Neita að afhenda minnisblað þar sem áhyggjur af ofbeldi eru viðraðar
Stundin óskaði eftir því við Barnaverndarstofu í byrjun febrúar að fá afhent öll gögn sem stofnunin kynni að búa yfir og tengdust Varpholti og Laugalandi. Seinni hluta febrúarmánaðar og í byrjun mars fékk blaðamaður Stundarinnar afhent þau gögn sem stofnunin samþykkti að afhenda. Barnaverndarstofa synjaði hins vegar afhendingu hluta þeirra gagna sem stofnunin bjó yfir um meðferðarheimilið. Meðal þeirra gagna voru vaktskráningar eða dagbókarskráningar starfsmanna meðferðarheimilisins á árunum 1997 til 2007. Einnig hafnaði Barnaverndarstofa beiðni um afhendingu bréfs sem sent var Braga Guðbrandssyni, þáverandi forstjóra Barnaverndastofu, 23. ágúst 2007, þar sem Braga voru kynntar rökstuddar áhyggjur af því að stúlkur sem vistaðar væru á meðferðarheimilinu væru beittar ofbeldi. Sömuleiðiðs synjaði stofnunin afhendingu á minnisblaði Braga til félagsmálaráðherra þar sem Bragi lagði áherslu á að ráðherra gerði sem minnst úr málinu við fjölmiðla ef þess er nokkur kostur.
Haustið 2007 fjallaði dagblaðið DV um málefni meðferðarheimilisins Laugalands. Í frétt blaðsins var vitnað til lýsinga Hauks Arnþórssonar, bróður Ingjalds forstöðumanns heimilisins. Haft var eftir Hauki að Ingjaldur bróðir hans hefði lýst því að hann beitti stúlkurnar líkamlegu ofbeldi til að brjóta þær undir vilja sinn. Meðal annars lýsti Haukur því að Ingjaldur hefði greint honum frá því að hann tæki stúlkurnar hálstaki og drægi þær berfættar eftir malarvegum.
Haukur sendi Braga Guðbrandssyni, þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu, bréf 23. ágúst 2007 þar sem hann mun hafa upplýst Braga um áhyggjur sínar af persónulegum málum bróður síns en ekki síður áhyggjur hans af því að Ingjaldur beitti skjólstæðinga sína ofbeldi. Af efni þeirra skjala sem Stundin hefur undir höndum er ekki hægt að ráða hvort Haukur sendi samrit af bréfinu til félagsmálaráðuneytisins eða hvort Bragi upplýsti starfsfólk ráðuneytisins um að bréfið hafi borist. Hið fyrra verður þó að teljast sennilegt í ljósi gagna.
Bragi sendi Ingjaldi falið afrit af minnisblaðinu
Bragi sendi Hrannari B. Arnarsyni, aðstoðarmanni þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, minnisblað vegna bréfs Hauks aðfararnótt 24. ágúst. Þess ber að geta að Bragi var sjálfur aðstoðarmaður Jóhönnu í félagsmálaráðuneytinu á árunum 1991 til 1994. Í tölvupósti sem fygldi minnisblaðinu má sjá að Bragi sendi það að beiðni Hrannars, sem líkleglega hefur sett þá beiðni fram símleiðis, í það minnsta eru ekki skjöl til staðar um að slík beiðni hafi verið send í tölvupósti. Sjá má að Bragi sendi afrit af minnisblaðinu til Ragnhildar Arnljótsdóttur ráðuneytisstjóra en það sem meira er sendi hann einnig falið afrit til Bryndísar S. Guðmundsdóttur, starfsmanns Barnaverndarstofu og Ingjaldar sjálfs.
„Tel ég að ráðherra eigi að gera minnst úr málinu við fjölmiðla ef þess er nokkur kostur“
Í tölvupóstinum sem fylgdi minnisblaði Braga segir hann: „Eins og fram kemur í minnisblaðinu tel ég að ráðherra eigi að gera minnst úr málinu við fjölmiðla ef þess er nokkur kostur. Hér er um fjölskylduharmleik að ræða sem Haukur hefur enga heimild til að fjalla um opinberlega. Ég tel að ráðuneyti eigi alls ekki að afla frekari upplýsingar um málið enda ekkert rökstyður slíka ákvörðun. Slik ákvörðun myndi einfaldlega þykja fréttnæmt og kalla á sem síðan væru fréttnæm og halda hringekjunni gangandi.“
Mögulegt brot á stjórnsýslulögum
Barnaverndarstofa synjaði beiðni Stundarinnar um að afhenda nefnt bréf Hauks og sömuleiðis minnisblað Braga. Röksemdirnar þar um voru þær að gögnin innihéldu viðkvæmar persónuupplýsingar sem teldust til einkamálefna. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í kærunni var bent á að líkur stæðu til þess að í bréfi Hauks kæmu fram vitnisburður um að Ingjaldur hefði beitt stúlkur sem vistaðar voru í hans umsjá ofbeldi og þáverandi forstjóri Barnaverndarstofu, Bragi, hefði með bréfinu verið upplýstur þar um. Sömuleiðis var bent á að í minnisblaðinu hafi Bragi hvatt til þess að félagsmálaráðherra tjáði sig ekki um málið og sömuleiðis að ráðuneytið aflaði ekki frekari upplýsinga um málið. Því væri mikilvægt að fá umrætt minnisblað í hendur til að leggja mat á hvort Bragi hefði með þeim skilaboðum mögulega farið á svig við stjórnsýslulög.
Úrskurðarnefndin segir í úrskurði sínum að upplýsingar í umræddum gögnum falli að mati nefndarinnar því sem næst eingöngu undir einkamálefni og yrðu þær upplýsingar afmáðar „er það mat úrskurðarnefndar að kæranda yrði ekki hald í því sem eftir stæði“. Því staðfesti nefndin synjun Barnaverndarstofu um afhendingu beggja gagna, bæði bréfs Hauks og minnisblaðs Braga.
Sá langi tími sem tók úrskurðarnefnd um upplýsingamál að taka ákvörðun í málinu vekur nokkra athygli. Blaðamaður Stundarinnar kærði synjun Barnaverndarstofu 10. mars á þessu en tuttugu dagar liðu þar til úrskurðarnefndin kynnti Barnaverndarstofu kæruna, hin 30. mars. Tveimur vikum síðar, 14. apríl var blaðamanni kynnt umsögn Barnaverndarstofu um kæruna og lagði blaðamaður fram athugasemdir er lutu að þeirri umsögn samdægurs. Því liðu 188 dagar, rúmt hálft ár, frá þeim tíma og þar til nefndin kvað upp úrskurð sinn. Alls liðu 223 dagar frá því að kæran var lögð fram og þar til úrskurður var kveðinn upp.
Töldu það taka lögfræðing 30 daga að fara yfir gögnin
Í hinum úrskurði nefndarinnar var fjallað um synjun Barnaverndarstofu á afhendingu vaktskráninga og dagbókarskráninga um starfið á meðferðarheimilinu. Bar Barnaverndarstofa því við að umfang gagnanna væri slíkt, um 1.800 handritaðar blaðsíður, að það myndi taka lögfræðing stofnunarinnar 30 daga að yfirfara gögnin, en auk þess var vísað til þess að í gögnunum væri að finna margvíslegar persónulegar upplýsingar sem sanngjarnt væri að leynt færu, með vísan til upplýsingalaga. Vísað var til undanþáguheimildar í upplýsingalögum þar sem segir að sé beiðni um afhendingu upplýsinga megi hafna taki vinnsla hennar svo mikinn tíma að ekki sé hægt að verða við henni. Úrskurðarnefnd kallaði eftir umræddum gögnum til skoðunar og komst að þeirri niðurstöðu með vísan til röksemda Barnaverndarstofu að staðfesta synjun á afhendingu gagnanna.
Í umræddu máli tók það úrskurðarnefnd einnig gríðarlega langan tíma að komast að niðurstöðu. Blaðamaður Stundarinnar kærði synjun Barnaverndarstofu 4. mars og 24. mars skilaði Barnaverndarstofa umsögn um kæruna. Þeirri umsögn svaraði blaðamaður strax daginn eftir. Í tölvupóstsamskiptum við starfsmann úrskurðarnefndarinnar 14. apríl kom fram að gagnaöflun í málinu væri lokið og það biði afgreiðslu hjá nefndinni. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar er þetta hins vegar rangt. Það var ekki fyrr en 14. júlí sem úrskurðarnefnd kallaði eftir sýnishorni af umræddum dagbókarfærslum frá Barnaverndarstofu til að hægt yrði að leggja mat á þau gögn. Barnaverndarstofa brást við og afhenti 42 blaðsíður, valdar af handahófi, til yfirferðar. Að lokinni þeirri yfirferð taldi úrskurðarnefnd ástæðu til að óska eftir öllum gögnunum. Það gerðist hins vegar ekki fyrr en 3. september síðastliðinn. Gögnin fékk nefndin síðan afhent í heild sinni 6. október, tólf dögum áður en úrskurðu var kveðinn upp.
Alls liðu 229 dagar frá því að synjun Barnaverndarstofu á umræddum gögnum var kærð og samkvæmt úrskurðinum virðist lítið sem ekkert hafa gerst í málinu á tímabilinu 25. mars til 14. júlí, í 112 daga. Blaðamaður Stundarinnar ýtti ítrekað eftir því að umræddar kærur yrðu teknar til afgreiðslu, bæði skriflega og með símtölum. Í upplýsingalögum segir að úrskurðarnefnd um upplýsingmál skuli birta úrskurð kæru „svo fljótt sem verða má en að jafnaði innan 150 daga frá móttöku hennar“. Að sama skapi segir í stjórnsýslulögum um málshraða annars vegar að „ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er“ og hins vegar „þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.“ Ljóst má því vera að gengið var á svig við ákvæði beggja laga við afgreiðslu umræddra kæra.
Athugasemdir