Það hvernig staðið verður að rannsókn á lýsingum af ofbeldi og harðræði á meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, skýrist að öllum líkindum næstkomandi miðvikudag. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fundaði síðastliðinn föstudag með konum sem lýst hafa því að þær hafi orðið fyrir ofbeldi og illri meðferð meðan þær voru vistaðar á meðferðarheimilinu. Á þeim fundi kom fram að fundað yrði að nýju með konunum á miðvikudaginn og þá myndi að öllum líkindum skýrast hver yrðu næstu skref í rannsókn á starfsemi meðferðarheimilisins.
Fjöldi kvenna hefur á undanförnum vikum stigið fram í Stundinni og lýst því að Ingjaldur Arnþórsson, sem veitti meðferðarheimilinu forstöðu á árunum 1997 til 2007, hafi beitt þær harðræði og ofbeldi meðan þær voru vistaðar þar. Lýsingar kvennana eru keimlíkar, þær hafi verið brotnar niður andlega, kallaðar ljótum nöfnum, þær hafi verið slegnar og sumar hverjar verið beittar enn harkalegra líkamlegu ofbeldi.
Konurnar hafa kallað eftir því að fram fari opinber rannsókn á starfsemi Laugalands. Síðastliðinn föstudag funduðu fulltrúar þeirra með Ásmundi. Gígja Skúladóttir var ein kvennana sem sat þann fund og segir hún í samtali við Stundina að eftir fundinn sé hún vongóð um að málið verði rannsakað í þaula. Hún sé ánægð nálgun Ásmundar á málið og þær móttökur sem hann hafi sýnt þeim. „Hann hrósaði okkur fyrir hugrekkið, að stíga fram, og mér fannst hann mæta okkar með mikilli auðmýkt og virðingu. Hann ítrekaði að þetta yrði ekki eini fundurinn sem yrði haldinn með okkur og að málið yrði skoðað mun betur.“
Konurnar funda aftur með Ásmundi næstkomandi miðvikudag og er það skilningur Gígju að þá verði búið að taka endanlega ákvörðun um með hvaða hætti málefni Laugalands verði skoðuð frekar og hvaða skref verði stigin í framhaldinu. „Ásmundur sagði að við skyldum undibúa okkur fyrir að þurfa að koma aftur og segja sögurnar okkar í meiri smáatriðum. Mér finnst það gefa fyrirheit um að málið verði rannsakað, með hvaða hætti sem það verður gert.“
Stundin óskaði eftir upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu um hvort það væri réttur skilningur Gígju að ákvörðunum um rannsókn myndi liggja fyrir næstkomandi miðvikudag. Svör höfðu ekki borist þegar fréttin var birt.
Uppfært 15. febrúar, kl. 15:25.
Samkvæmt svörum félagsmálaráðuneytisins er stefnt að því að funda aftur með konunum í þessari viku. Ekki hefur verið staðfestur tími fyrir þann fund en miðvikudegi var fleygt sem hugsanlegri tímasetningu. Samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu er stefnt að því að þá liggi fyrir mótaðri hugmyndir um næstu skref.
Athugasemdir