Sjávarútvegsráðherra Namibíu, Albert Kawana, segir að uppboð á aflaheimildum þar í landi hafi gengið illa og tafist úr hófi fram vegna þess að hann hafi viljað vanda til verka og tryggja gagnsæi í úthlutunum á þessum verðmætum.
Fréttir um þettta misheppnaða uppboð hafa verið sagðar í namibískum og íslenskum fjölmiðlum.
Einungis 1,3 prósent kvótans sem var til leigu á uppboði seldust og fékk namibíska ríkið því bara tæpar 87 milljónir króna í ríkiskassann en ekki um sex milljarða króna eins og gengið var út frá ef allur kvótinn hefði verið leigður á uppboðinu.
Ástæðan sem Kawana nefnir fyrir töfum á kvótauppútboðinu er Samherjamálið, eða Fishrot eins og það kallast í samfélagsumræðunni í Namibíu. Það er hvernig staðið hefur verið að kvótaúthlutunum í landinu síðastliðin ár og fréttaflutningur um Samherjamálið í Kveik, Stundinni og Al Jazeera í fyrra sýndi fram á en inntak hans var að Samherji hefði mútað namibískum ráðamönnum með peningagreiðslum upp á vel á annan milljarð í skiptum fyrir hestamakrílskvóta. Samherji fékk meðal annars kvótann í gegnum ríkisfyrirtækið Fishcor sem sér um útdeilingu kvóta í Namibíu.
Kawana: Sumir leggja Fishcor að jöfnu við Fishrot
Samkvæmt namibíska blaðinu The Namibian segir Kawana um þetta: „Um þessar mundir segja margir að Fishcor sé það sama og Fishrot [Samherjamálið]. Ekkert gagnsæi, hvernig fá þessi fyrirtæki kvóta í gegnum Fischor? Var notast við einhverja hlutlæga, gagnsæja aðferð? Þegar ég kom (í ráðuneytið) með samstarfsmönnum mínum sagði ég: Þetta þarf að stoppa… “
Í stað þess að útdeila kvótanum til tiltekinna kvótahafa eins og verið hefur var ákveðið að reyna uppboðsleið í staðinn. Kawana segir bæði hafa orðið að fylgja lögunum og eins anda laganna í kvótaúthlutuninni, í ljósi þess hversu illa hafi farið í Fishrot-málinu, Samherjamálinu, í Namibíu. „Ég þurfi að fylgja lögunum, lagabókstafnum og eins anda laganna. Þetta var eina ástæðan.“
Kawana segir að enn verði hægt að selja hestamakrílskvótann sem ekki var leigður á uppboðinu þar sem veiðitímabili makrílsins ljúki ekki fyrr en 31. desember. Hann segir að fiskurinn sem verður ekki veiddur á þessu fiskveiðiári muni vitanlega ekki rotna í hafinu í kringum Namibíu og muni á endanum skila meira til fiskveiðiðnaðarins í Namibíu.
Um uppboðið segir í frétt The Namibian: „Ráðherrann sagði að uppboðsferlinu hefði verið frestað og að fjármála- og sjávarútvegsráðuneytin muni samt selja kvótann með gagnsæjum hætti og muni í kjölfarið greina þjóðinni frá því hversu mikið fékkst fyrir kvótann.“
Stjórnvöld í Namibíu eru því að hugsa um hvernig verðmæti kvótans fyrir land og þjóð verði hámarkað til lengri tíma litið.
Morgunblaðið: Nefndi ekki mútumál Samherja
Í fréttum af uppboðinu á Íslandi hafa sumir fréttamiðlar, meðal annars Morgunblaðið sem var í eigu Samherja að hluta þar til árið 2017 þegar Eyþór Arnalds eignaðist hlutabréf útgerðarinnar án þess að greiða neitt fyrir þau, hafa hins vegar stillt uppboðinu upp þannig að nýja fyrirkomulagið við kvótaúthlutunina sé verra en hið gamla.
Í frétt Moggans um málið var talað um „tugmilljarða tjón þjóðarbúsins“ og var niðurstaða uppboðsins borin saman við fyrra fyrirkomulag. „Fyrra fyrirkomulag, þar sem kvóta var úthlutað gegn gjaldi, hefði skilað um 315 milljónum namibíudala í ríkiskassann þar syðra, jafnvirði um þriggja milljarða íslenskra króna.“
Tekið var sérstaklega fram að Samherji hefði ekki tekið þátt í uppboðinu en ekki var tekið fram að Samherji hætti veiðum í Namibíu vegna þess félagið hefur verið staðið að mútugreiðslum þar í landi sem nú eru til rannsóknar bæði í Namibíu og á Íslandi.
Ekki var heldur tekið fram í Mogganum af hverju uppboðsleiðin á kvóta var tekin upp, það er segja vegna þess að kvótaúthlunin til fyrirtækja eins og Samherja reyndist vera gjörspillt og skilaði kaupverð kvótans sér ekki í ríkiskassann og til fólksins í landinu heldur til „ráðgjafa“ Samherja sem voru stjórnmálamenn og tengdir aðilar.
Að lokum kom heldur ekki fram í frétt Moggans að það sem er til rannsóknar í Namibíu og á Íslandi er hvort Samherji hafi greitt mútur til umræddra áhrifamanna. Morgunblaðið tengir Samherja hins vegar ekki við þetta mál með beinum hætti í fréttaflutningi sínum af uppboðinu: „Félög tengd Samherja tóku ekki þátt í uppboðinu, en á föstudag lauk einmitt rannsókn á úthlutun fiskveiðiheimilda í Namibíu, þar sem grunur er uppi um spillingu á umliðnum árum. Málinu hefur nú verið komið til saksóknara,“ segir í niðurlagi fréttar Moggans.
Skipstjóri Samherja kennir RÚV um að uppboðið klúðraðist
Fréttaflutningurinn af kvótauppboðinu í Namibíu hefur vakið frekari viðbrögð á Íslandi þar sem bæði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Páll Steingrímsson, skipstjóri Samherja sem hefur skrifað mýmargar blaðagreinar um Samherja á liðnum árum samhliða starfi sínu sem skipstjóri, hafa tjáð sig um það á liðnum dögum.
Brynjar telur meðal annars að uppboðið í Namibíu sýni það og sanni að uppboðsleiðin muni ekki ganga sem aðferð við að deila út kvótanum hér á landi eins og sumir stjórnmálaflokkar vilja. Á Facebook deildi þingmaðurinn grein Páls og sagði: „Einnig gott fyrir þá í Viðreisn, Samfylkingunni og Pírötum að lesa, sem telja að uppboðsleið á aflaheimildum sé skynsöm leið.“
„Allt í boði Ríkisútvarpsins.“
Páll Steingrímsson gengur svo langt í sinni grein að kenna Ríkisútvarpinu um það að kvótauppboðið í Namibíu gekk ekki vel. Hann segir: „Uppboðið sem klúðraðist í Namibíu var ákveðin tilraun sem misheppnaðist en þetta var í fyrsta sinn sem aflaheimildir voru boðnar upp í landinu. […] Tekjurnar af uppboðinu átti að nýta til að greiða fyrir velferðarþjónustu á tímum Covid-19 heimsfaraldursins. Voru áætlaðar tekjur ríkissjóðs Namibíu af veiðileyfum jafnvirði um 6 milljarða króna og talið var að áhrifin yrðu um 25 milljarðar króna fyrir namibískt hagkerfi. Tekjurnar af uppboðinu voru hins vegar aðeins 65 milljónir króna að jafnvirði því aðeins voru seldar heimildir fyrir 100 tonn af lýsingi og 1.517 tonn af hestamakríl en ekkert af skötusel. Uppboðið fór algjörlega í vaskinn. Namibískur sjávarútvegur er því í nokkru uppnámi og óljóst um framhaldið. Allt í boði Ríkisútvarpsins.“
Eins og Páll raunar segir sjálfur, og sjávarútvegsráðherra Namibíu líka, þá var umrætt uppboðsfyrirkomulag tekið upp vegna þess að úthlutunin á kvóta í Namibíu hafði verið svo spillt á liðnum árum þar sem Samherji greiddi mútur til áhrifamanna í Namibíu til að komast yfir kvótann.
Páll velur hins vegar ekki þá leið að kenna Samherja um það að uppboðsleiðin var tekin upp, sökum þess að upp komst um mútugreiðslur fyrirtækisins sem nú eru til rannsóknar í tveimur löndum, heldur kennir hann Ríkisútvarpinu um vegna þess að þáttur á vegum stofnunarinnar afhjúpaði þessa spillingu sem leiddi til breytinga á úthlutun kvótans.
„Það má spyrja hvort fréttamenn Ríkisútvarpsins séu stoltir af sínu framlagi“
Páll: Betra fyrir Namibíu að hafa Samherja
Af þessu dregur Páll þá ályktun að það hefði verið betra fyrir Namibíu að hafa Samherja áfram sem þátttakanda í sjávarútveginum í Namibíu. Þetta segir Páll þrátt fyrir að stór hluti peninganna sem Samherji greiddi fyrir kvótann hafi runnið til „ráðgjafa“ félagsins sem mútugreiðslur og ekki til namibíska ríkisins.
Í grein hans segir meðal annars: „Þetta mál vekur ýmsar spurningar. Hver var staðan í Namibíu þegar félög tengd Samherja stunduðu þar veiðar? Félög tengd Samherja greiddu jafnvirði 21,4 milljarða króna til namibískra aðila [Páll lætur þess ekki getið hversu mikið af greiðslunum voru mútugreiðslur] á meðan þau voru í rekstri á árunum 2012-2019 eins og greint var frá fyrr á þessu ári. Það var því holur hljómur í fullyrðingum um arðrán. Það er staðreynd að félög tengd Samherja sköpuðu gríðarleg verðmæti fyrir Namibíumenn á meðan þau störfuðu í landinu, þvert á fullyrðingar Ríkisútvarpsins. Það má spyrja hvort fréttamenn Ríkisútvarpsins séu stoltir af sínu framlagi enda voru þeir beinir gerendur í atburðarás sem leiddi til þess að fyrirkomulagi úthlutunar aflaheimildar í Namibíu var kollvarpað með tilheyrandi tjóni fyrir namibískt samfélag.“
Páll vill því meina að helsti sökudólgurinn í Namibíu sé Ríkisútvarpið, þvert á orð sjávarútvegsráðherra landsins sem meðal annars hefur útskýrt að það voru spilltar kvótaúhlutanir í Samherjamálinu sem leiddu til þess að tekið var upp nýtt fyrirkomulag við úthlutun á kvóta í landinu.
Út frá orðum Páls má því draga þá ályktun að það hafi verið slæmt fyrir Namibíu að fjölmiðlar sögðu frá mútugreiðslum Samherja í landinu vegna þess að þetta hafi leitt til þess að Namibíumenn hafi orðið af tekjum þar sem Samherji greiddi há verð, meðal annars í mútur, til að fá kvóta.
Páll virðist ekki átta sig á þeim möguleika að vegna þess að sagt var frá mútugreiðslunum og vegna þess að Samherji stundar ekki lengur fiskveiðar í landinu þá geti Namibía mögulega komið sér upp fiskveiðikerfi sem byggir ekki á spillingu og mútugreiðslum.
Þetta getur svo jafnvel leitt til þess að hagnaðurinn af fiskveiðunum verði eftir hjá þarlendum sjávarútvegsfyrirtækjum en lendi ekki í skattaskjólum eins og Máritíus, sem Samherji notaði meðal annars, eða að gjaldið fyrir kvótann fari sömuleiðis sannarlega í „velferðarþjónustu“ í Namibíu, sem honum virðist vera svo umhugað um, og ekki í aflandsfélög spillta stjórnmálamanna í Dubaí.
Að mati Páls var betra fyrir Namibíu að hafa Samherja í landinu.
Röksemdafærslu Páls svipar til málatilbúnaðar Samherja um veru sína í Namibíu þar sem rauði þráðurinn er að útgerðarfélagið hafi lagt mikið af mörkum til samfélagsins útgerð sinni í landinu, þrátt fyrir mútugreiðslur og notkun á skattaskjólum í rekstrinum, og að félagið hafi stundað þar eðlileg viðskipti á markaðsforsendum.
Athugasemdir