Eignarhaldsfélagið Kattarnef ehf., sem er í eigu útgerðarfélagsins Samherja í gegnum fjárfestingarfélagið Kaldbak, hefur afskrifað 257 milljóna króna seljendalán sem félagið veitti eignarhaldsfélagi í eigu Eyþórs Arnalds árið 2017. Lánið var veitt félagi Eyþórs, Rames II. ehf, vegna kaupa þess félags á nærri fjórðungshluti í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Þetta kemur fram í ársreikningi Kattarnefs ehf. fyrir árið 2019 sem skilað var til ársreikningaskrár Ríkiskattstjóra þann 31. ágúst síðastliðinn.
Kattarnef var stofnað gagngert til að halda utan um hlutabréfaeign Samherja í Árvakri.
Tekið skal fram að Eyþór var ekki orðinn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins þegar hann keypti þessi hlutabréf Samherjafélagsins í Mogganum í apríl árið 2017. Eyþór varð borgarfulltrúi rúmu ári síðar, í lok maí árið 2018, og hefur hann haldið á umræddum hlutabréfum í Árvakri samhliða störfum sínum hjá Reykjavíkurborg æ síðan.
Eignarhald Eyþórs á bréfunum hefur vakið mikla athygli og umtal síðastliðin ár og nægir að nefna nýlega gagnrýni Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, sem hefur vakið umtal í fjölmiðlum síðustu daga.
Tapaði tæpum 200 milljónum
Í ársreikningi Kattarnefs ehf. kemur fram að félagið tapaði tæplega 200 milljónum króna í fyrra. Félagið átti samtals 256 milljóna króna eignir í árslok 2018 en í árslok 2019 voru þær komnar niður í 63 milljónir króna. Ástæðan er „virðisrýrnun krafna“ Kattarnefs á hendur félagi Eyþórs Arnalds, Ramsesi II ehf. Vaxtaberandi kröfur Kattarnefs fóru úr tæplega 250 milljónum króna í árslok 2018 og niður í 0 krónur í árslok 2019.
Eftir sem áður standa skuldir Kattarnefns við fjárfestingafélagið Kaldbak ehf. óniðurfærðar.
„Það er alvarlegt mál ef hægt er að kaupa stjórnmálamann“
Kaldbakur er móðurfélag Kattarnefs og er það í eigu Samherja. Kattarnef skuldar Kaldbaki tæplega 286 milljónir kríona. En þar sem Kattarnef á nær engar eignir, nema skatteign upp á rúmlega 50 milljónir króna, er ljóst að félagið getur ekki greitt Kaldbaki skuldina. Alveg ljóst er því að Kaldbakur mun á endanum þurfa að afskrifa kröfu sína á hendur Kattarnefi, alveg eins og Kattarnef hefur afskrifað kröfu sínar á hendur félagi Eyþórs Arnalds.
Eins og Stundin hefur greint frá er fjárfestingarfélagið Kaldbakur meðal annars fjármagnað með láni frá eignarhaldsfélagi Samherja á Kýpur, Esju Seafood. Þetta félag flutti peninga til Íslands í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands árið 2012. Fyrir vikið fékk Samherji 20 prósenta afslátt á íslensku krónunum sem voru keyptar fyrir peningana frá Esju Seafood.
Á næstu árum á eftir átti sama félag Samherja á Kýpur eftir að greiða mörg hundruð milljónir króna til namibískra áhrifamanna í skiptum fyrir kvóta í Namibíu, eins og Kveikur og Stundin greindu frá í fyrra í samvinnu við Wikileaks.
Sagði Eyþór hafa verið keyptan
Dóra Björt Guðjónsdóttir sagði í vikunni að ýmislegt benti til að Samherji hefði keypt Eyþór Arnalds. Hún setti viðskipti þeirra með hlutabréf í Árvakri í samhengi við viðskipti Kristjáns Vilhelmssonar, annars stærsta eiganda Samherja, með nýjan miðbæjarkjarna á Selfossi sem nú rís. Eyþór var áður oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Selfoss og ýjaði hún að því að Eyþór hefði liðkað til fyrir þeim viðskiptum. „Það er alvarlegt mál ef hægt er að kaupa stjórnmálamann. […] Núna hafa komið fram nýjar upplýsingar um uppbyggingu Samherja á Selfossi í miðbænum og ég hef ítrekað spurt Eyþór út í það hvers vegna hann fékk mörg hundruð milljónir frá Samherja þegar hann fékk gefins hlut í Morgunblaðinu og hann hefur aldrei svarað almennilega fyrir það. Hann fer alltaf að snúa út úr og drepa málum á dreif.“
„Hér dylgjar hún algerlega út í loftið“
Í umræðum um málið í borgarstjórn greip Eyþór til varnar fyrir sig og sagði Dóru Björt dylgja: „Hér dylgjar hún algerlega út í loftið, hún verður sjálfri sér til minnkunar um miðbæ Selfoss og greiðslur og fleira sem er ekki bara henni til vansemdar heldur öllum hérna inni í salnum.“
Eyþór Arnalds hefur ekki skilað ársreikningi Ramses II ehf. fyrir árið 2019 og því er ekki hægt að sjá hvernig félag hans bókfærir viðskiptin við Kattarnef í nýjasta ársreikningi sínum.
Út frá fyrirliggjandi gögnum er hins að verða ljóst hver niðurstaðan í málinu er. Eyþór Arnalds keypti stóran hlut í Mogganum af Samherja árið 2017 og kemur hann ekki til með að greiða útgerðinni neitt af láninu sem hún veitti honum fyrir bréfunum.
Athugasemdir