Útgerðarfélagið Samherji vill að Seðlabanki Íslands, sem er í eigu íslenska ríkisins, endurgreiði útgerðinni þær 131 milljón krónur sem fyrirtækið greiddi ráðgjafafyrirtæki afbrotafræðingsins og fyrrverandi rannsóknarlögreglumannsins, Jóns Óttars Ólafssonar, á árunum 2013-2015. Kjarninn greindi frá þessu í dag og byggir á upplýsingum sem fram komu í aðalmeðferð skaðabótamáls Samherja gegn Seðlabanka Íslands sem hófst í morgun.
Ekki allir þessir fjármunir runnu á endanum til Jóns Óttars sjálfs þar sem ráðgjafafyrirtæki hans, Juralis-ráðgjafarstofa slhf., réði einnig til sín aðra aðila, undirverktaka ef svo má segja, sem einnig unnu að Seðlabankamálinu fyrir hönd Samherja.
Félag með 26 milljóna tekjur á tveimur árum
Að minnsta kosti einn af þessum aðilum var félag í eigu fyrrverandi starfsmanns Seðlabanka Íslands, lögfræðingsins Hreiðars Eiríkssonr, en hann var forstöðumaður rannsóknardeildar gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands í upphafi rannsóknar Seðlabanka Íslands á útgerðinni árið 2012. Stundin fjallaði um mál Hreiðars fyrir stuttu. Hreiðar stýrði sem sagt rannsókninni á Samherja um hríð inni í bankanum.
Árið 2013 stofnaði Hreiðar einkahlutafélagið Exitus ráðgjöf ehf. Árið eftir voru tekjur þessa félags tæplega 13,5 milljónir króna, ári síðar 12,9 milljónir og svo tæplega 900 þúsund árið 2016.
Neitaði Samherja en ekki Juralis
Þegar Stundin spurði Hreiðar hvort hann hefði unnið fyrir Samherja neitaði hann því. En þegar hann var spurður að því hvort félag hans hefði unnið fyrir Juralis ráðgjafarstofu, félag Jóns Óttars, vildi hann ekki svara. „Ég hef aldrei unnið neitt fyrir Samherja .[…] Ég er ekki að fara að svara neinum spurningum frá fjölmiðlamönnum um þetta mál. Ég ætla ekki að svara neinum spurningum um það fyrir hverja ég vann sem lögmaður,“ sagði Hreiðar aðspurður fyrst um Samherja og svo Juralis ráðgjafarstofu.
„Ég ætla ekki að svara neinum spurningum um það fyrir hverja ég vann sem lögmaður“
Síðar átti Hreiðar eftir að verða viðmælandi í þætti um Seðlabankamálið sem sjónvarpsstöðin Hringbraut gerði fyrir hönd Samherja um rannsókn bankans á meintum brotum útgerðarfélagsins á lögum um gjaldeyrismál. Í þættinum var Hreiðar kynntur með þeim hætti að rætt hafi verið við „Hreiðar Eiríksson, yfirmann rannsókna hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans“. Hreiðar sagði við Stundina að hann hafi ekki vitað að þátturinn hafi verið kostaður af Samherja og að ef hann hefði vitað það þá hefði hann líklega ekki tekið þátt í þættinum.
Í viðtalinu sagði Hreiðar frá fundi sem hann sat með ríkissaksóknara á meðan hann starfaði í Seðlabankanum. Á fundinum var rætt um brot á lögum um gjaldeyrismál. Þagnarskylda hvílir á starfsmönnum Seðlabankans um það sem þeir gera í störfum sínum.
Vitni Samherja í dag
Staðan er því sú að hluti af skaðabótakröfu Samherja snýr að því að félagið vill fá endurgreiðslur frá Seðlabankanum fyrir vinnu ráðgjafafyrirtækis Jóns Óttars og undirverktaka þess, meðal annars fyrrverandi starfsmanns Seðlabanka Íslands.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar byggðist viðskiptasamband félags Hreiðars og Juralis upp á vinnu hans fyrir Seðlabankann þar sem hann einn bjó yfir upplýsingum um málið og Samherji, eða Juralis-ráðgjafarstofa fyrir hönd útgerðarinnar, gat vart leitað annað eftir sömu þjónustu.
Hreiðar kom einnig fyrir í dómssalnum í dag sem vitni Samherja í skaðabótamálinu gegn Seðlabanka Íslands. Lokað var á aðkomu fjölmiðla að vitnaskýrslu hans þar sem hann var að greina frá upplýsingum sem vörðuðu bankaleynd. Að Hreiðar er vitni Samherja í skaðabótamálinu í dag sýnir einnig þá stöðu sem hann er í sem fyrrverandi starfsmaður bankans og þau not sem Samherji telur sig getað haft af honum.
Athugasemdir