Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Tamson „Fitty“ Hatuikulipi, tengdasonur hans, munu sitja áfram í gæsluvarðhaldi vegna Samherjamálsins og fá ekki lausn gegn tryggingu. Málið gegn þeim er talið sterkt, að því er fram kom hjá dómstóli í Windhoek í dag.
Eins og Stundin, Kveikur, Al Jazeera og Wikileaks greindu frá í fyrra sýna gögn hvernig Samherji greiddi skipulega hundruð milljóna króna í mútur til stjórnmálamanna og tengdra aðila í Namibíu, til að fá hestamakrílkvóta sem lagði grunn að stórum hluta hagnaði félagsins undanfarin ár. Hagnaðurinn og mútugreiðslurnar runnu í gegnum net skattaskjóla.
The Namibian greinir frá málinu í dag. Esau og Fitty eru meðal þeirra sem hafa sætt gæsluvarðhaldi vegna Samherjamálsins, en að mati dómstólsins er ekki talið að þeir mundu stinga af eða trufla rannsóknina ef þeir yrðu látnir lausir. Hins vegar séu til sönnunargögn sem bendi til sektar þeirra.
Blaðið hefur einnig haldið því fram að Samherji hafi greitt stjórnarflokki Namibíu, SWAPO flokknum, háar upphæðir í gegnum lögmannsstofu. Því hefur forstjóri Samherja, Björgólfur Jóhannsson, neitað. James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisfyrirtækisins Fishcor, kom einnig að málinu, en namibíska spillingarlögreglan ACC hefur sagt hann hafa haft samband við Samherja til að hylja slóð sína vegna greiðslna frá fyrirtækinu.
Athugasemdir