Hlutabréf í DNB bankanum norska féllu um 2,4 prósent á miðvikudag, eftir að upplýst var um að Samherji hefði notað bankann til að færa háar millifærslur í skattaskjól á Tortóla, Marshall-eyjum og Máritíus. Hátt í hundrað milljarðar króna töpuðust af virði bankans. Einn helsti höfundur nýrra norskra laga gegn peningaþvætti segir að málið sé án nokkurs vafa hið stærsta af þessu tagi sem upp hafi komið varðandi norskan banka.
DNB hætti í fyrra viðskiptum við félög Samherja á Kýpur og á Marshall-eyjum, sem eru þekkt skattaskjól. Útgerðin hafði notað umrædd félög um árabil til að greiða sjómönnum fyrirtækisins í Afríku laun. Bankinn lokaði á viðskiptin vegna þess að hann taldi að óvissa væri um raunverulegt eignarhald félaganna og þar af leiðandi væri uppi grunur um að þau væru notuð til að stunda peningaþvætti. Þetta kemur fram í umfjöllun Stundarinnar, Kveiks og Al Jazeera sem unnin er í samvinnu við Wikileaks.
„Þetta er án allrar hliðstæðu langstærsta mál sem hefur komið upp í norskum banka“
Félög Samherja millifærðu um 9,1 milljarð króna inn á reikning félagsins Cape Cod FS á Marshall-eyjum á árabilinu 2010 til 2018. Félögin sem millifærðu peningana inn á reikninginn voru aðallega önnur félög Samherja, eins og Esja Seafood Limited á Kýpur og Esja Fishing Ltd. í Namibíu, svo dæmi séu tekin. Með þessu móti gat Samherji komið fjármunum frá hinum ýmsu löndum, meðal annars Namibíu, algjörlega skattfrjálst.
Jon Petter Rui, prófessor við lagadeild Háskólans í Tromsø, leiddi vinnu við samningu laga um peningaþvætti sem voru lögtekin í Noregi í fyrra haust. „Þetta er án allrar hliðstæðu langstærsta mál sem hefur komið upp í norskum banka,“ segir Rui í samtali við norska blaðið Dagens Næringsliv.
Rui segir augljóst að efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar þurfi að rannsaka málið gaumgæfilega. Ef í ljós komi brot á peningaþvættislögunum þá sé mögulegt að leggja fram ákæru á hendur DNB eða leggja á hann sektir. Þá þurfi einnig að rannsaka hvort bankinn hafi með einhverjum hætti gerst sekur um að hafa með einhverjum hætti tekið þátt í gjörðum sem tengja má við spillingu.
Sigrid Klæboe Jacobsen, sem stýrir norsku samtökunum Tax Justice Network Norge, telur að Samherjamálið sýni að DNB hafi ekki unnið nægjanlega að því að verjast spillingu. „Eftir að Panamaskjölin komu fram í dagsljósið lofaði DNB bót og betrun. Þetta sýnir hins vegar að þeir hafa ekki staðið sig í stykkinum hvað það varðar,“ segir Jacobsen í samtalið við norska ríkisútvarpið NRK.
Athugasemdir