Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra náði að forðast fjárnám með láni frá sparisjóði sem var að hluta til undir stjórn vinar hans, sem hann skipaði síðan í stjórn RÚV. Viðkomandi vinur Illuga gagnrýnir fjölmiðla harðlega fyrir umfjöllun um hann.
Sparisjóður Vestfirðinga veitti eiginkonu Illuga Gunnarssonar 4,7 milljóna króna lán í lok árs 2007 til að greiða upp fjárnám upp á ríflega sjö milljónir króna frá Glitni sem hvílt hafði á íbúð þeirra hjóna á Ránargötu frá því í nóvember sama ár. Íbúðin var þá þegar veðsett fyrir rúmlega 50 milljóna króna lánum. Aðstoðarsparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestfirðinga á þessum tíma var Eiríkur Finnur Greipsson sem Illugi skipaði í stjórn Ríkisútvarpsins en hann stýrði starfsemi sjóðsins á Flateyri þar sem gögnin um lánasviðskiptin voru undirrituð.
Um var að ræða annað lánið sem sparisjóðurinn veitti Illuga og eiginkonu hans, Brynhildi Einarsdóttur. Upphaflega hafði sjóðurinn lánað þeim rúmar sjö milljónir króna fyrir íbúðinni sjálfri árið 2005. Sparisjóðurinn veitti auk þess leyfi árið 2006 til frekari veðsetningar á íbúðinni hjá öðrum fjármálafyrirtækjum þrátt fyrir þá fjárhagslegu hagsmuni sem sjóðurinn átti í íbúðinni. Á árunum fyrir og eftir efnahagshrunið, á meðan Eiríkur Finnur var ennþá aðstoðarsparisjóðsstjóri, veitti sjóðurinn Illuga Gunnarssyni og konu hans því umtalsverða fyrirgreiðslu.
„Illugi bað mig um að taka þar sæti á sínum tíma“
„Er honum óheimilt að skipa vini sína?“
Eiríkur Finnur var í fréttum fyrir helgi þegar hann steig fram og varði Illuga Gunnarsson í Orku Energy málinu. Þá sagði hann að Stundin ástundaði „lágkúruleg vinnubrögð“ í umfjöllun sinni um málið. Einnig sagði hann að Illugi hefði beðið hann að taka sæti í stjórn RÚV. „Ég skil reyndar ekki samhengið, en Illugi bað mig um að taka þar sæti á sínum tíma, sem ég og gerði. Og er stoltur af því og að vera vinur hans til margra ára.“ Þá spurði Vísir hann hvort líta mætti á skipan hans í stjórn RÚV sem einhvers konar vinahygli en Eiríkur Finnur var ósammála því. „Er honum óheimilt að skipa vini sína? Eru þeir vanhæfir þar með? Ég spyr nú bara svo á móti.“
Athugasemdir