Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað Jón Trausta Lúthersson og Svein Gest Tryggvason í áframhaldandi gæsluvarðhald til 21. júlí. Sex manns eru grunaðir um aðild að manndrápinu á Arnari Jónssyni Aspar sem lést í kjölfar hrottalegrar líkamsárásar þann 7. júní síðastliðinn.
Fjórum einstaklingum hefur verið sleppt vegna málsins og áttu gæsluvarðhaldsúrskurðir yfir Sveini Gesti og Jóni Trausta að renna út í dag. Lögreglan fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir tvímenningunum í dag. Þeir munu hins vegar ekki sæta einangrun áfram eins og þeir hafa verið látnir sæta síðan þeir voru úrskurðaðir fyrst í gæsluvarðhald, þann 8. júní.
Um hálf tvö í dag var Sveinn Gestur leiddur í Héraðsdóm Reykjavíkur eins og sjá má á myndbandi hér fyrir neðan.
Í kjölfar árásarinnar voru fjórir aðrir einstaklingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald, ein kona og þrír karlar. Á fimmtudaginn í síðustu viku voru þau látin laus úr varðhaldi en þau hafa enn stöðu sakborninga.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur að atburðarrásin í kringum manndrápið liggi nokkuð ljóst fyrir. Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason, lögregufulltrúi, í samtali við Vísi.
Stundin hefur fjallað um tilfelli þar sem kvartað hefur verið undan ógnunum Sveins Gests við gagnrýnendur Íslensku þjóðfylkingarinnar, sem og fyrri dóma hans.
Athugasemdir