Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar manndráp sem átti sér stað í Mosfellsdal í kvöld.
Karlmaður um fertugt varð fyrir alvarlegri líkamsárás og var fluttur á Landspítalann í Fossvogi í kjölfarið. Lögreglan fékk tilkynningu um árásina klukkan 18.24 í kvöld. Fjölmennt lið lögreglu fór á vettvang.
„Rannsókn málsins er umfangsmikil, en fimm karlar og ein kona hafa verið handtekin í þágu hennar,“ segir í tilkynningu frá lögreglu sem barst fyrir nokkrum mínútum.
Lögreglan segir að ekki sé unnt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Fram kemur í frétt Rúv að málið sé talið tengjast handrukkun. Þá segir að hinir handteknu hafi áður komið við sögu lögreglunnar. Tveir hafi verið handteknir á Vesturlandsvegi, nálægt Úlfarsfelli milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Lögregla vildi hins vegar ekki staðfesta við Rúv að handtökurnar tengdust málinu.
Einn hinna handteknu er Jón Trausti Lúthersson, forsprakki bifhjólasamtakanna Outlaws, samkvæmt fréttum Rúv. Þá hefur einnig komið fram að bræðurnir Marcin og Rafal Nabakowski séu meðal hinna handteknu, en þeir voru dæmdir vegna skotárásar í Breiðholti og bíða afplánunar vegna þess dóms.
Athugasemdir