Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra og þingkona Samfylkingarinnar, segir að í raun feli fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í sér niðurskurð til heilbrigðisþjónustu meðan á byggingartíma nýs Landspítala stendur.
„Enginn stjórnmálaflokkur lofaði niðurskurði í heilbrigðisþjónustu í kosningabaráttunni. Það eru því mikil vonbrigði að sjá að viðbótin til heilbrigðisþjónustunnar er nær eingöngu vegna byggingar nýs Landspítala sem sannarlega þörf er á. Það er hins vegar algjörlega óásættanlegt að á meðan að á byggingatíma spítalans stendur þurfi að skera niður heilbrigðisþjónustu,“ segir hún í samtali við Stundina.
Eins og fram kom í frétt Stundarinnar í gær munu framlög til sjúkrahúsþjónustu aðeins aukast um 7,3 milljarða króna á tímabilinu 2018 til 2022 ef frá eru talin framlög vegna byggingar nýs Landspítala. Oddný segir ljóst að aukningin til reksturs heilbrigðisþjónustunnar muni vart halda í við fjölgun sjúklinga.
„Menntamálin eru greinilega ekki heldur í forgangi hjá hægristjórninni. Háskólarnir hækka um 660 milljónir á milli áranna 2017 og 2018 eða um 1,6% en telja sig þurfa a.m.k. 2.000 milljónir sem áfanga upp í betri stöðu,“ segir hún.
Stundin fjallaði um lækkun fjárframlaga til framhaldsskólakerfisins í gær.
„Framhaldsskólarnir hækka aðeins um 55 milljónir eða tæp 0,2% og lækka mikið til 2022. Sparnaðurinn við styttingu stúdentsprófsins mun ekki skila sér í betri þjónustu við nemendur, bættu aðgengi að námi eða fjölbreyttari námsframboði eins og lofað var og alltaf hefur verið talað um í tengslum við styttinguna,“ segir Oddný. „Almenningur á greinilega ekki að fá að njóta góðærisins ef þessi fjármálaáætlun verður samþykkt.“
Athugasemdir