Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra nýrrar ríkisstjórnar, talaði gegn lengingu fæðingarorlofs í ágúst á síðasta ári og gagnrýndi frumvarp Eyglóar Harðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, þar sem gert var ráð fyrir að samanlagt fæðingarorlof foreldra yrði lengt úr níu mánuðum í tólf.
Þorsteinn var á þessum tíma framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins en samtökin töldu svigrúm til hækkunar fæðingarorlofsgreiðslna en ekki lengingar orlofsins. Þorsteinn starfaði fyrir hagsmunasamtök atvinnurekenda á árunum 2013 til 2016 og lagðist harkalega gegn því sem hann kallaði „of ríflegar launahækkanir“ og fullyrti að komið væri upp „krísuástand“ vegna áhlaups opinberra starfsmanna á stöðugleika í efnahagslífinu. Kennarar hefðu hafið þetta áhlaup og á eftir fylgdu flugstéttir, læknar, hjúkrunarfræðingar og háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn.
Sem félagsmálaráðherra fer Þorsteinn Víglundsson meðal annars með stjórnarmálefni er varða ríkissáttasemjara, sáttastörf í vinnudeilum, réttindi og skyldur á vinnumarkaði og fæðingar- og foreldraorlof. Þá heyra húsnæðismál undir Þorstein, en athygli vakti að hvergi er minnst á húsnæðismál í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þorsteinn er ekki eini ráðherra nýrrar ríkisstjórnar sem hefur nýlokið störfum fyrir Samtök atvinnulífsins, en Þorgerður Katrínar Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfaði einnig fyrir samtökin undanfarin ár.
Athugasemdir