Á síðustu árum, vegna stríðsátaka í Afríku og Mið-Austurlöndum, hefur straumur flóttafólks og hælisleitenda frá þessum svæðum aukist gríðarlega. Þessir einstaklingar, sem flestir eru einfaldlega að flýja vargöld í leit að betra lífi á friðsælli stað, hafa víðast hvar fengið óblíðar móttökur. Hér á Íslandi sendum við til baka rúmlega 3 af hverjum 4 einstaklingum sem hér leita hælis.
Fyrstu norrænu landnámsmenn Íslands voru margir hverjir flóttamenn og hælisleitendur. Á landnámsöldinni, sem er sögð hefjast með landnámi Ingólfs Arnarssonar 870 eða 874, sigldu þúsundir manna frá nágrannalöndunum, einkum Noregi, til Íslands, í leit að nýju upphafi. Margir af fyrstu landnámsmönnunum voru einmitt að flýja fortíð sína, eftir að hafa lent upp á kant við valdhafa, og sáu fram á að hefja nýtt líf á nýjum stað.
Fornleifarannsóknir undanfarinna ára benda til þess að hér hafi verið mun blómlegri byggð en nokkrir Papar í sumarleyfi, sem Ari fróði lýsir í Landnámu. Segjum nú sem svo að keltunum, sem virðast hafa verið hér áður en norrænir menn hófu ferðir sínar til landsins, hefði tekist að koma sér upp útlendingastofnun og svipaðri útlendingalöggjöf og Íslendingar hafa starfað eftir síðustu áratugi. Hefðu þá hinir dáðu landnámsmenn fengið landvistarleyfi?
Ingólfur Arnarson
Í hugum flestra er Ingólfur Arnarson hetja. Hvernig getur annað verið? Þar sem hann hangir í atgeirnum sínum á Arnarhól, í stafni víkingaskips með bumbuna út í loftið. Horfir yfir öll hótelin þar sem einu sinni stóð borgin sem hann sáði fræinu að.
Þegar ferill Ingólfs er hinsvegar skoðaður kemur í ljós að þeim dýrðarljóma sem hann er baðaður er ef til vill ofaukið. Eins og margir hinna fyrstu Íslendinga voru hendur Ingólfs löðrandi í blóði þegar hann kom til landsins.
Athugasemdir