„Ísrael, með sín gríðarlegu ítök í Washington og Brussel, mun eflaust draga fram öll sín skæðustu vopn og reyna að berja þetta fordæmi á bak aftur, þennan sögulega sigur fyrir sniðgönguhreyfinguna gegn hernámi Ísraela, landnámsstefnu og kynþáttaaðskilnaði.“
Þetta er haft eftir Omar Barghouti, baráttumanni fyrir réttindum Palestínumanna og einum af stofnendum BDS-sniðgönguhreyfingarinnar, í vefritinu Electronic Intifada. Barghouti sendir Íslendingum baráttukveðjur og segir að ekkert geti afturkallað „þann siðferðilega sigur“ sem unnist hafi með ákvörðun Reykjavíkurborgar.
Barghouti lét ummælin falla á fimmtudag, en fyrr í vikunni hafði borgarstjórn Reykjavíkur samþykkt tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur, fráfarandi borgarfulltrúa þess efnis að Reykjavíkurborg sniðgangi í innkaupum sínum vörur frá Ísrael á meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir. „Borgarstjórn samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum,“ segir í samþykkt borgarinnar. Er vísað til 5. gr. í innkaupastefnu Reykjavíkurborgar um að meðal annars skuli tekið tillit til mannréttindasjónarmiða í innkaupum.
Í dag greindi RÚV frá því að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, hefði ákveðið að draga tillögu Bjarkar til baka og leggja fram breytta tillögu þar sem skýrt kemur fram að borgin muni aðeins sniðganga ísraelskar vörur sem framleiddar eru á hernumdum svæðum.
Athugasemdir