Píratar vonast til þess að forseti Íslands neiti að skrifa undir tillögu dómsmálaráðherra um skipun dómara í nýjan Landsrétt sem Alþingi samþykkti í gær. Þannig megi gefa þinginu lengri tíma til að fjalla um skipun dómaranna, en tillaga dómsmálaráðherra var keyrð í gegnum þingið í miklum ágreiningi á tveimur dögum og samþykkt með 31 atkvæði í gærkvöldi, þ.e. með stuðningi minnihluta þingmanna.
Tillaga Sigríðar Andersen um skipan dómara fól í sér að fjórum umsækjendum, sem nefnd um dómnefnd hafði metið í hópi 15 hæfustu umsækjenda, var skipt út fyrir aðra fjóra umsækjendur sem allir eru starfandi héraðsdómarar. Bent hefur verið á að karlmaður sem lenti í 30. sæti á lista dómnefndarinnar var færður upp fyrir fimm konur sem metnar höfðu verið hæfari en hann auk þess sem eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, var skipuð dómari þótt hún hefði ekki verið meðal 15 hæfustu umsækjendanna að mati dómnefndar. Þá hlaut umsækjandi með mikla dómarareynslu ekki náð fyrir augum ráðherra þrátt fyrir að hafa verið metinn í hópi hæfustu umsækjenda.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, bendir á það á Facebook í dag að Alþingi kaus kaus um dómara í Landsrétt í heilu lagi en ekki um hvern fyrir sig eins og lög gera ráð fyrir.
Í lögum um dómstóla segir orðrétt: Þegar ráðherra gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skal hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands sem skipar í embættin, sbr. 21. gr.
Jón Þór segist hafa haft samband við Guðna Th. Jóhannesson forseta í dag til að ræða við hann um málið. „Forseti Íslands verður að vera viss um þetta áður en hann skrifar undir. Forseti Íslands er síðasti öryggisventillinn í þessu máli. Hann getur neitað að skrifa undir og þá þarf þingið að vinna málið aftur. Er búinn að hringja í GuðniTh Jóhannesson og var sagt að hann hringi síðar í dag,“ skrifar Jón Þór á Facebook.
Björn Leví Gunnarsson, flokksfélagi Jóns Þórs, er sama sinnis hvað varðar framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. „Sem betur fer klúðraði sjálfstæðisflokkurinn kosningunni, fór ekki eftir lögum. Því ætti ekki að vera búið að kjósa dómara enn. Það er enn tækifæri til þess að bjarga þessu,“ skrifar hann.
Athugasemdir