„Ráðherra forðast hagsmunaárekstra og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín,“ segir í einum lið siðareglnanna um störf ráðherra sem ríkisstjórnin hefur ekki ennþá samþykkt. Á eftir þessum lið, þar sem fjallað er um hagsmunaárekstra, koma þrír aðrir liðir sem segja má að megi heimfæra alla upp á mál Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra og orkufyrirtækisins Orku Energy. Siðareglurnar eru hins vegar óstaðfestar og því er ekki hægt að segja að hátterni Illuga brjóti gegn staðfestum siðareglum.
Jón Ólafsson heimspekingur segir að hann vilji ekki fullyrða að hátterni Illuga sé brot á umræddum siðareglum. Jón var í nefndinni sem samdi siðareglurnar á sínum tíma og vill hann því ekki tjá sig með þeim hætti um málið. Hann segir hins vegar að hægt sé að vísa til nokkurra atriða í siðareglunum og heimfæra þau upp á hátterni Illugi. „Ég hugsa að það sé tvennt eða þrennt þarna sem hægt væri að vísa til. Þetta snýst bæði um hagsmunaárekstra og eins trúverðugleika ráðherrans.“
Athugasemdir