„Allir múslimar eiga að vera sendir til síns heima til Sádí Arabíu,“ segir Rafn Einarsson, fulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina í hverfisráði Breiðholts, á Facebook.
Ummælin eru eitt fjölmargra tilfella þar sem Rafn hefur tjáð sig opinberlega um múslima, en hann segir meðal annars um þá: „Engum af þeim virðist vera treystandi, þeir eru til alls vísir.“
Yfir 2.100 innflytjendur af erlendum uppruna eru í Efra-Breiðholti einu og sér. Rafn hefur meðal annars verið í framboði fyrir Framsóknarflokkinn til Alþingiskosninga, en í dag gegnir hann stöðu áheyrnarfulltrúa í hverfisráði Breiðholts fyrir hönd Framsóknarflokksins.
Meðal ummæla sem Rafn hefur látið falla um múslima eru að „múslimar vilja alla homma feiga“, að þeir ættu allir að vera sendir úr landi, að allir frá múslimaríkjum séu nauðgarar og ofbeldishneigðir og að Íslendingum sé illa við múslima.
Uppfært: Samkvæmt fréttatilkynningu frá Framsókn og flugvallarvinum hefur Rafn vikið sæti í hverfisráði Breiðholts vegna málsins og sagt sig frá trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi flokksins, tekur sæti hans í staðinn.
Tekur undir orð oddvitans
Rafn hefur meðal annars tekið undir orð Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, sem sagði fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014 að hún vildi ekki veita Félagi múslima lóð undir mosku.
„Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna,“ sagði hún í viðtali við Vísi.is og tók fram: „Ég hef búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“
Sveinbjörg sagði í Kasljósi Sjónvarpsins 30. mars síðastliðinn að hún hefði talað gegn stefnu flokksins. „Þetta var vanhugsað. Stundum gera stjórnmálamenn hluti sem eru vanhugsaðir og ég gerði það þarna.“
Flokkur Framsóknar og flugvallarvina mældist með lítið fylgi í skoðanakönnun fyrir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra, en fylgið jókst verulega við umræðu um að banna byggingu mosku.
Athugasemdir