Aðeins rúmlega þriðjungur stuðningsmanna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er tilbúinn að leyfa Félagi múslima á Íslandi að byggja trúarbyggingu á landinu, samkvæmt svörum í nýrri spurningakönnun MMR.
Einungis 36% stuðningsfólks ríkisstjórnarinnar styður frelsi félagsmanna til að reisa trúarbyggingu, en 57% vilja banna það.
Samkvæmt könnuninni er meirihluti stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins andvígt frelsi helsta trúfélags múslima til að reisa trúarbyggingu hér á landi, eða 51,4%, en frelsi er eitt af helstu gildum og einkennisorðum flokksins.
Kjörorð síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins var „Frelsi og jafnrétti - forsenda framfara.“ Í fréttatilkynningu flokksins sagði að ítrekað hefði verið á fundinum „að frelsi einstaklingsins væri grunnurinn að sanngjörnu og umburðarlyndu samfélagi, þar sem virðing væri borin fyrir ólíkum lífsháttum.“
Af stuðningsmönnum annarra stjórnmálaflokka voru það aðeins framsóknarmenn sem voru viljugari til að banna múslimum að reisa trúarbyggingu, eða tæplega 57%. Framsóknarflokkurinn hafði sem eitt af kosningamálum sínum í síðustu borgarstjórnarkosningum að vinna gegn heimild Félags múslima á Íslandi til að reisa mosku í Reykjavík.
Aðeins 11 prósent svarenda vildi hins vegar banna hinni kristnu þjóðkirkju að reisa trúarbyggingar. Ungt fólk á aldrinum 18 til 29 ára og stuðningsmenn Pírata skáru sig hins vegar úr, þar sem fimmti hver úr þeim hópum var andvígur frelsi þjóðkirkjunnar til að reisa kirkjur.
Athugasemdir