Tveir menn ógnuðu Salmann Tamimi, formanni Félags múslima á Íslandi, fyrir utan Krónuna í Kópavogi í gær. Mennirnir hótuðu ofbeldi og sögðust vera „valdið“.
Salmann segir frá þessu á Facebook-síðu sinni. „Ég varð fyrir óhugnalegri lífsreynslu í dag. Ég stóð fyrir utan Krónuna í Hamraborg með vini mínum þegar tveir stórir og óhugnalegir menn nálguðust okkur, annar hávaxinn og hinn minni. Annar þeirra gaf sig á tal við mig og þekkti mig undir nafni,“ segir Salmann.
Erindi mannanna var að hóta Salmann ofbeldi vegna andstöðumótmæla við mótmæli þjóðernissinna gegn múslimum á Austurvelli í ágúst.
Íslenska Þjóðfylkingin skipulagði mótmælin. Hún mældist með 2% fylgi í síðustu skoðannakönnun Gallups. Mótmælin sneru að því að andmæla nýjum útlendingalögum, á grundvelli þess að þau „galopnuðu“ landið fyrir útlendingum. Mótmælin reyndust hins vegar á misskilningi byggð. Hópur fólks safnaðist saman á Austurvelli til að andmæla mótmælunum og styðja flóttafólk og innflytjendur. Að mati nasistanna í Hamraborg voru þjóðernissinnar beittir ofbeldi þar.
„We are the power“
„Við stóðum þar fjórir þegar þeir hófu samræður við mig um mótmælin á Austurvelli fyrir nokkru síðan, þar sem mótmælt var stefnu hópsins Þjóðarflokksins,“ segir Salmann. „Sá lágvaxni spurði mig ítrekað hvort ég samþykkti ofbeldi sem á að hafa átt sér stað af mótmælendum á mann úr þeirra flokki og þegar ég svaraði að ég hafi ekki verið vitni af því né að ég styðji ofbeldi sama hvaðan það kæmi æstist hann allur upp. Þar með hótuðu þeir báðir að beita okkur mótmælendum ofbeldi næst þegar atburður ætti sér stað. Hann steig ógnandi í átt að mér og var komin nálægt andliti mínu þegar hann bendir á vöðvana sína segir "We are the POWER". Á sama tíma lyfti hávaxni maðurinn bolnum sínum upp þar sem sást vel í stórt húðflúr sem stóð á SS, og hinn minni maðurinn með sama húðflúr aftan á höfðinu,“ segir Salmann.
Hann svaraði mönnunum: „Ég svaraði að power væri ekki í vöðvum heldur í huganum.“
Þetta megi ekki gerast á Íslandi
Salmann segir frá því að vitni hafi verið að atburðinum við Krónuna. „Íslensk kona sem hafði verslað í búðinni kom til mín og var í áfalli yfir því sem hún varð vitni að. Ég róaði hana og fullvissaði hana um að það væri ekkert að óttast og töluðum um að þetta megi ekki gerast hér á Íslandi.
Salmann óttast breytingar á viðhorfi til múslima á Íslandi. „Ég spyr, er þetta framtíð Íslands?“
Athugasemdir