Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hafði á dögunum samband við forsvarsmenn norsku barnaverndarinnar í Kristiansand í Noregi. Ástæðan var fimm ára íslenskur drengur sem norska barnaverndin vill fá í sína vörslu.
Móðir drengsins og amma, sem hefur hugsað um hann nánast frá fæðingu, hafa reynt að spyrna við fótum en töpuðu nú síðast í héraðsdómi fyrir norsku barnaverndinni. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar en þrátt fyrir það hefur fjölskylda Eyjólfs aðeins 36 daga áður en hún þarf að afhenda hann íslenskum yfirvöldum sem munu fylgja honum til Noregs.
„Við erum ekki að blanda okkur í þetta mál á einhverjum tilfinningalegum nótum heldur erum við aðeins að hugsa um velferð barnsins“
Þar verður Eyjólfur vistaður í þrettán ár, til átján ára aldurs, hjá ókunnugri fjölskyldu og eini aðstandandinn sem fær að hitta hann er móðir hans, Christina Elva. Hún mun þó aðeins fá að hitta hann tvisvar á ári og í tvo klukkutíma í senn undir stífu eftirliti norsku barnaverndarinnar.
Vilja finna lausnina hér á landi
Barnaverndarstofa er nú komin í samband við barnaverndaryfirvöld þar ytra vegna þessa máls. „Já, ég get staðfest að ég hef rætt við barnaverndina í Kristiansand um mál þessa drengs en ég get því miður ekki tjáð mig um það frekar,“ sagði Bragi þegar blaðamaður Stundarinnar hafði samband í dag.
En geturu staðfest að þessar viðræður gangi út á að finna lausn á málefnum drengsins hér á Íslandi en ekki Noregi?
„Já, ég get staðfest það. Við erum ekki að blanda okkur í þetta mál á einhverjum tilfinningalegum nótum heldur erum við aðeins að hugsa um velferð barnsins. Þetta er allt á mjög viðkvæmu stigi en þetta samtal er samt komið í gang. Það get ég staðfest.“
Ætla má af orðum Braga að Barnaverndarstofa telji hagsmunum drengsins best borgið hér á landi en ekki í Noregi, þangað sem til stendur að senda hann.
Barnarán í skjóli Haag-samningsins
Stundin hefur fjallað ítarlega um málið frá því amma drengsins, Helena Brynjólfsdóttir, steig fram og sagðist hafa rænt barnabarni sínu til þess að bjarga því eftir að hún flúði frá Noregi til Íslands í byrjun júní. Barnaverndin í Kristiansand, þar sem Helena bjó ásamt dætrum sínum, krafðist þess að drengnum yrði komið upp í flugvél aftur til Noregs svo hægt væri að koma honum fyrir hjá fósturforeldrum. Helena neitaði að afhenda drenginn þegar innanríkisráðuneytið hafði samband við hana þannig að ráðuneytið aðstoðaði norsku barnaverndina við að finna lögmann til þess að berjast fyrir afhendingu drengsins fyrir íslenskum dómstólum með fyrrgreindum afleiðingum.
„Ég gæti verið ákærð fyrir barnsrán en mér líður samt eins og það sé verið að ræna barninu af mér“
Áður hafði norska barnaverndin synjað öllum beiðnum frá fjölskyldumeðlimum, bæði í móður- og föðurætt drengsins, um að fá að fóstra Eyjólf í stað þess að honum yrði komið fyrir hjá ókunnugu fólki í Noregi. Eyjólfur fæddist á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari en bjó í Noregi á árunum 2013 til 2016. Þar sem Eyjólfur var skráður til heimilis í Noregi þegar Helena flúði með hann til Íslands gildir Haag-samningurinn um málið, sem kveður á um málið sé rekið í því landi þar sem barnið er búsett fyrir brottnámið. Þannig dæmdi dómari við héraðsdóm Reykjavíkur norsku barnaverndinni í hag. Lögfróðir menn sem Stundin hefur rætt við hafa hinsvegar bent á að markmið og tilgangur Haag-samningsins hafi verið að vernda annað foreldrið ef hitt skyldi flýja land og þau væru frá sitthvoru landinu. Í þessu máli hinsvegar er Haag-samningurinn notaður til þess að berjast fyrir stofnun sem, samkvæmt heimildum Stundarinnar, fær töluvert fjármagn frá hinu opinbera þegar barn er fjarlægt af heimili sínu og komið í fóstur.
„Ég gæti verið ákærð fyrir barnsrán en mér líður samt eins og það sé verið að ræna barninu af mér,“ sagði Helena þegar dómur var nýfallinn í héraði.
Norska barnaverndin svarar engu
Þá hefur Stundin einnig heimildir fyrir því að norskir fósturforeldrar séu ekki beint hlunnfarnir þegar þeir taka við börnum. Þvert á móti þá séu töluverðir fjármunir í boði með börnum sem norska barnaverndin vill finna ný heimili fyrir.
Stundin hefur ítrekað sent norskum barnaverndaryfirvöldum fyrirspurnir vegna málsins en þeim hefur ekki verið svarað. Þá hefur Stundin einnig ítrekað reynt að ná tali af innanríkisráðherra, bæði Ólöfu Nordal sem nú er í veikindafríi og Bjarna Benediktssyni sem leysir hana af á meðan, en án árangurs. Nú síðast benti innanríkisráðueytið einfaldlega á upplýsingar á vefsíðu ráðuneytisins þar sem fjallað er um Haag-samninginn.
Svo virðist sem ráðuneytið ætli að þegja þunnu hljóði í þessu máli þrátt fyrir að hafa með beinum hætti blandað sér í önnur forsjármál líkt og Stundin hefur fjallað um. Í tvígang hefur embættið, svo vitað sé, blandað sér inn í forsjármál á milli landa. Þannig styrktu þáverandi innanríkisráðherrar, Ögmundur Jónasson og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þriggja barna íslenska móður sem flúði með börn sín til Íslands frá Danmörku, í gegnum Noreg.
Fjármögnuðu flóttaflugvél
Málin eru keimlík en þó ekki – Helena flúði með fimm ára gamalt barnabarn sitt til þess að komast undan norsku barnaverndinni en hin þriggja barna íslenska móðir, Hjördís Svan Aðalheiðardóttir, var að flýja danskan föður barnanna. Þá kom einnig í ljós að hluti styrkjanna frá ráðuneytinu í ráðherratíð Hönnu Birnu var notaður til að fjármagna leigu á flugvél sem flutti mæðgurnar frá Noregi til Íslands. Í dag er hins vegar enga aðstoð að fá fyrir Helenu, Eyjólf og Elvu Christinu, móður hans. Ekki einu sinni svar við þeirri spurningu hvort innanríkisráðuneytið sé yfirhöfuð að skoða málið.
Athugasemdir