Þegar Björgvin Þór Hólm, miðaldra framkvæmdastjóri úr Garðabæ, lagði af stað í miðbæ Reykjavíkur seinni partinn í gær var hann búinn að ákveða að láta handtaka sig.
Björgvin Þór er eini mótmælandinn sem var handtekinn í mótmælum á Austurvelli í gær, eftir að hann fór yfir varnargirðingu lögreglu og hljóp undan henni.
Björgvin er knúinn áfram af sterkri réttlætiskennd og þeirri skoðun að verið sé að „ræna þjóðina“. Hann stóð á meðal mótmælenda í gær, andspænis dyrunum að Alþingishúsinu, en á bakvið járngirðingu sem lögreglan hafði sett upp. Mótmælendur hristu lykla og trommuðu á járngirðingarnar. Björgvin stendur í þeirri trú að þingmennirnir inni í húsinu starfi fyrir auðvald fremur en almenning. Honum þóttu viðbrögð mótmælenda ekki í samræmi við það.
Meðvituð aðgerð
„Þetta var með ráðum gert, ég ætlaði að sýna borgaralega óhlýðni,“ segir Björgvin í samtali við Stundina. „Ég var í mótmælendahópnum og segi við vin minn sem stendur þarna: „Jæja, best að fara að láta handtaka sig.“ Stekk svo yfir girðinguna, labba að dyrunum og stend þar og bíð eftir lögreglu.“
Athugasemdir