„Hann er náungi sem er alltaf glaður og nær vel til allra. Ég trúi því ekki að hann hafi vitað að hann væri með sjúkdóminn,“ segir vinur og fyrrum meðleigjandi hælisleitandans sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í gær vegna gruns um að hann hefði smitað konur af HIV. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú málið í samstarfi við sóttvarnarlækni. Stundin ræddi við manninn sem bjó með hælisleitandanum í Reykjavík en báðir eru þeir á þrítugsaldri.
„Við borðuðum saman og reyktum sígarettur saman, spjölluðum um daginn og veginn, og hann er alltaf glaður og hamingjusamur. Við vinir hans erum furðu lostnir, ég er svo hissa, ég held að hann hafi ekki vitað að hann væri með HIV,“ segir vinurinn í samtali við Stundina. Maðurinn sem situr nú í gæsluvarðhaldi kom til Íslands frá meginlandi Evrópu í ágúst í fyrra og sótti um hæli. Eftir því sem Stundin kemst næst fara hælisleitendur venjulega ekki í læknisskoðun fyrr en eftir að ákvörðun hefur verið tekin um veitingu dvalarleyfis.
Athugasemdir