Fréttir af handtöku nígerísks hælisleitanda, sem grunaður er um að hafa smitað konur af HIV, hafa vakið upp rasíska umræðu og gildisdóma um lauslæti kvenna, svokallaða druslustimplun eða drusluskömmun.
Fréttirnar hafa meðal annars ratað á erlendar rasistasíður. Maðurinn var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í síðustu viku, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar málið í samstarfi við sóttvarnarlækni.
Miklar umræður eiga sér nú stað á rasískum undirsíðum vinsælustu spjallþráðasíðum heims, 4chan og Reddit, vegna málsins. Um er ræða undirsíðuna /pol/ á 4chan annars vegar og hins vegar European á Reddit. Í báðum tilvikum er vísað á frétt Iceland Review frá 23. júlí síðastliðnum.
„Kvenfrelsi að mega girða niðrum sig“
Ummæli sem hafa fallið á Facebook-síðu Gústafs Níelssonar sagnfræðings hafa ennfremur vakið talsverða athygli. „Fósturlandsins Freyja lætur ekki að sér hæða. Auðvitað er það partur af nútíma kvenfrelsi að mega girða niðrum sig fyrir gesti og gangandi standi þannig á, jafnvel þótt afleiðing háttseminnar kunni að verða nokkuð útlátasöm fyrir fjársvelt heilbrigðiskerfi landans. Heilbrigðisyfirvöldin leita nú logandi ljósi að tugum kvenna, sem hafa af greiðvikni sinni látið undan ákafa Nígeríumannsins og sínum eigin augnablikslosta, í því skyni að koma í veg fyrir alvarlegan smitfaraldur.
„Mér líkar yfirleitt vel við svertingja og tel mig engan rasista.“
Ég tek eftir því að enginn stjórnmálamaður hefur árætt að tjá sig um málið nú, og ég spái því að þeir muni heldur ekki þora að gera það yfirleitt; enginn þeirra. Skipuleggjendur „Druslugöngunnar“, sem svo er nefnd, og stendur fyrir dyrum, ættu auðvitað að bjóða Nígeríumanninum góða að ganga í stafni, enda nauðgaði hann engri; fremur að hann væri sem eins konar ástmögur kvenþjóðarinnar.“
Rasismi og druslustimplun
Fjölmargir hafa skrifað athugasemdir við færslu Gústafs. Rúna Hjaltested Guðmundsdóttir spyr hvað málið muni kosta íslenska ríkið og hví maðurinn hafi ekki verið sendur úr landi.
Vilhjálmur Eyþórsson, sem vakti athygli á dögunum þegar hann líkti Besta flokknum við fasistahreyfingar 20. aldar, segir það konunum sjálfum að kenna að hafi þær smitast af HIV. „Mér líkar yfirleitt vel við svertingja og tel mig engan rasista. Þrátt fyrir það, svo ég tali beint úr pokanum, finnst mér fátt ógeðslegra en hvít stelpa sem leggst undir einn þeirra. Ég veit vel að „fjölmenningarsinnar“ munu froðufella í heilagri vandlætingu þegar þeir sjá þetta, en sorrý, mér finnst þetta bara,“ skrifar Vilhjálmur.
Ragnar Önundarson, fyrrum formannsframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins, spyr í þræðinum hvort konurnar hafi ekki heyrt um smokkinn. „Hin afríska sveðja lostans lætur slíkt tal sem vind um eyrun þjóta,“ svarar Gúsaf.
Byggt á rangfærslu
Erlendu rasistarnir hneykslast einna mest á því að hælisleitandinn hafi haft mök við tuttugu íslenskar konur á einu ári. Margir rasistarnir telja íslenskar konur lauslátar og segja það þeim sjálfum að kenna fái þær HIV.
Sú rangfærsla að hælisleitandinn hafi smitað tuttugu konur virðist vera byggð á sænskri frétt um málið á vefnum Islandsbloggen, sem er auk fréttar Iceland Review deilt á umræddum síðum. Rangfærslan virðist eiga rót í orðalagi í frétt Morgunblaðsins þar sem sagt er að samkvæmt heimildum blaðsins „hafa tvær konur greinst með HIV og á annan tug kvenna farið í greiningu.“
„Vonandi hefur þessi frétt þau áhrif að Íslendingar hafi ekki mök við aðra en Vesturlandabúa“
Í efstu athugasemd á þræðinum á European, undirsíðu Reddit, spyr notandi hvernig maður hafi náð að hafa mök við fleiri en tuttugu íslenskar konur á innan við ári. Annar notandi svarar og telur rótina liggja í kynfrelsi Íslendinga. „Þeir eru hispurslausari hvað kynlíf varðar en flest önnur lönd. Þegar það voru eingöngu Íslendingar, með fáeinum innflytjendum frá svipuðum menningarsvæðum, þá var hispursleysi í góðu lagi – Íslendingar eru ein glaðasta þjóð í heimi. Ég vona að Ísland, með einstakri menningu og fólki, verði ekki eyðilagt af innflytjendum líkt og Svíþjóð og Bretland. Vonandi hefur þessi frétt þau áhrif að Íslendingar hafi ekki mök við aðra en Vesturlandabúa,“ skrifar notandi Reddit.
Birta myndir af Íslandi
4chan þráðurinn um fréttina er nokkuð langur og eru þar birtar myndir af þjóðþekktum Íslendingum, svo sem Margréti Gnarr, Björk og Þórgný Thoroddsen, varaborgarfulltrúa Pírata í Reykjavík. Þráðinn má finna hér. Einn notandi birtir mynd af Þórgný þar sem hann er að prjóna og skrifar: „Íslenskir menn eru að mestu leyti ekki karlmannlegir. Þeir eru ekki víkingar, þeir eru femínistar sem leyfa konum að ráðskast með sig.“
Einn notandi á 4chan segist hafa heimsótt Ísland fyrir þremur vikum og birtir myndir innan Kaffibarsins og á Lækjartorgi. Hann segist hafa séð menn, dökka á hörund, með ljóshærðum stúlkum.
Á /pol/ undirsíðunni á 4chan eru notendur merktir með fána eftir því hvaða landi þeir koma. Ljóst er að í það minnsta einn Íslendingur skrifar athugasemdir við þráðinn. Einn deilir frétt Vísis um málið og hvetur notendur til að skrifa þar athugasemdir. Annar notandi sem merktur er með íslenskum fána kvartar sáran í sama þræðu undan ferðamönnum og tortímingu þeirra á íslenskri náttúru.
Athugasemdir