Hælisleitandanum, sem grunaður er um að hafa vísvitandi smitað konur af HIV-veirunni, var gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði eftir að hann reyndi að eiga í samskiptum við konu sem kærði hann fyrir ólögmæta meingerð í sinn garð með því að hafa smitað hana af sjúkdómnum.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis þann 11. nóvember í fyrra en ekki hefur áður verið fjallað um málið í fjölmiðlum.
Hælisleitandinn var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrunarvist þann 23. júlí 2015. Þann 19. ágúst var hann svo úrskurðaður í farbann og farbannið framlengt með dómsúrskurði 16. september. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað þann 4. nóvember 2015 að manninum yrði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði „þannig að lagt sé bann við því að hann veiti A, kt. [...], eftirför, hringi í hana, sendi henni smáskilaboð í gegnum síma eða internet eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti, þar með talið í gegnum aðra aðila eða með aðgangi annarra aðila að samfélagsmiðlum og heimasíðum“. Ákvörðun lögreglustjóra var staðfest með úrskurði Héraðsdóms þann 9. nóvember og í Hæstarétti tveimur dögum síðar.
„Til þess fallið að raska friði hennar“
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um nálgunarbannið kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu liggi hælisleitandinn undir sterkum grun um að hafa í lok september 2015 sent konunni, sem kærði hann vegna HIV-smitsins, skilaboð og vinabeiðni á Facebook undir nýju nafni.
Þriðjudaginn þar á eftir hafi verið ósvarað símtal á síma konunnar úr númeri sem hún hafi ekki kannast við. Föstudaginn þar á eftir hafi aftur verið hringt til hennar úr sama númeri, hún hafi svarað og heyrt strax í manninum. Hún hafi ekki talað við hann og skellt fljótlega á. Maðurinn hafi hringt aftur í hana, hún ekki svarað en en fengið smáskilaboð frá honum þar sem stóð: „hæ you should know why I am calling before dropping the call“.
Í kjölfarið talaði réttargæslumaður konunnar við verjanda hælisleitandans sem kom því áleiðis til hans að hún vildi ekki að hann setti sig í samband við konuna. Engu að síður hafi maðurinn aftur haft samband við hana þriðjudaginn 27. október en hún ekki svarað símanum.
„Lögreglustjóri byggi ákvörðun sína um nálgunarbann á því að varnaraðili sé nú sterklega grunaður um að vera að setja sig í samband við A með margvíslegum hætti sem sé til þess fallið að raska friði hennar verulega. Varnaraðila megi vera ljóst að A vilji ekki að hann setji sig í samband við hana enda sýnt að hann reyni að fá samband við hana með brögðum, svo sem með því að skipta um nafn á facebook og með því að skipta um símanúmer í þeirri von að hún svari honum,“ segir í úrskurðinum.
Athugasemdir